ágú 01 2008

Saving Iceland stöðvar umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík

,,STÖÐVUM VIRKJUN ÞJÓRSÁR FYRIR HERGAGNAFRAMLEIÐANDA!”

HAFNARFJÖRÐUR – Aðgerðasinnar frá Saving Iceland hafa nú stöðvað umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík með því að hlekkja sig við hlið sem hleypa umferð til og frá álverslóðinni. Saving Iceland mótmælir fyrirhugaðri framleiðsluaukningu, nýjum álverum og samhliða eyðileggingu íslenskri náttúru fyrir raforkuframleiðslu. Samstarf Rio Tinto-Alcan við fjölmarga hergagnaframleiðendur er einnig fordæmt.

Rio Tinto-Alcan hyggst nú auka framleiðslu álversins í Straumsvík um 40 þúsund tonn á ári án þess að stækka álverið sjálft. Einnig vinnur fyrirtækið að undirbúningi nýs álvers á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn (1).

*Nýtt* Umferð að álverinu var stöðvuð í nokkrar klukkustundir og var mörgum vörubílstjórum sagt að fara og koma aftur eftir helgi. Enginn var handtekinn.

Orkuveita Reykjavíkur huggðist reisa Bitruvirkjun til að koma til móts við orkuþörf stækkaðs álvers í Straumsvík (2) en nú hafa framkvæmdirnar á Bitru verið fjarlægðar af teikniborðinu vegna andstöðu almennings og O.R. ekki framlengt samning sinn við Alcan (3).

Á sama tíma stefnir Landsvirkjun nú ótrauð að byggingu þriggja virkjanna í Þjórsá auk Búðarhálsvirkjunnar í Tungnaá, en Landsvirkjun og Alcan eiga sín á milli viljayfirlýsingar um orkuöflun fyrir stækkun álversins í Straumsvík eða nýrra álvera (4). Í Desember 2006 skrifuðu Alcan og Landsvirkjun einmitt undir samning um orkuöflun, en í samningnum sagði einnig að Alcan tæki þátt í undirbúningskostnaði fyrirhugaðra Þjórsárvirkjanna (5).

Spilling í Hafnarfirði
Í lok Mars 2007 fóru fram íbúakosningar í Hafnarfirði, þar sem stækkun álversins var hafnað. Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfirði, sagði sama kvöld og kosningarnar fóru fram að þær væru ,,sigur fyrir lýðræðið” og bætti því við að hann myndi hlíta niðurstöðunni (6).

Aðeins þremur mánuðum seinna sat Lúðvík fund með Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, og Michel Jacques, forstjóra Alcan Primary Metal Group, þar sem framhaldsstarfsemi fyrirtækissins hér á landi var rædd. Meðal annars var rætt um mögulega stækkun á landfyllingu út í sjó (7), en um mánuði áður höfðu forsvarsmenn Alcan hér á landi rætt um að flytja starfsemi fyritækisins til Þorlákshafnar.

,,Er þetta það sem Lúðvík Geirsson kallar sigur lýðræðisins? Svikin loforð?” segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland. ,,Hegðun Lúðvíks sýnir vel hversu mikið vald álfyrirtækin hafa hér á landi. Valdhafar virðast einfaldlega ekki þora að standa í vegi fyrir uppgangi stjóriðju.”

Vafasamir viðskiptahættir Alcan

Þann 30. Ágúst 2006, skrifaði Alcan undir langtíma samning um þáttöku í framleiðslu á orrustuþotunni F-35 Jointer Strike Fighter, ásamt vopnaframleiðendunum Lockheed Martin, Northtrop-Grumman og BAE Systems (8).

,,Þetta er ekki beint glæsilegur hópur” segir Sofie Larsen frá Saving Iceland. ,,Hingað til hefur athyglin hér á landi aðallega beinst að Alcoa þegar kemur að tengslum álframleiðslu og stríðsreksturs. Alcan er hins vegar engu skárri, því fyrirtækið er viðriðið fjölmarga hergagnaframleiðendur.”

Alcan framleiðir m.a. ál fyrir EADS (European Aerospace and Defense and Space) (9), sem framleiðir herþyrlur, orrustuþoturnar Euorofighter Tycoon, Mirage F1, EF18 Hornet og aðrar þotur. EADS er einnig leiðandi framleiðandi flugskeyta (10).

,,EADS fullyrðir á heimasíðu sinni að vörur fyrirtækisins séu seldar til landa þar sem sala á hátækni flughernaðartólum fer fram á ábyrgan hátt“ segir Sofie. ,,En á sömu síðu má finna myndbönd frá Þýskalandi á tímum nasismans, þar sem fyrri heimsstyrjöldin og flugvélar Nasista eru lofaðar hástöfum (11). Hvers konar siðferði er það?”

Virkjun Þjórsár
Nú stefnir allt í að Þjórsárvirkjanirnar þrjár og Búðarhálsvirkjun verði að veruleika, þrátt fyrir sterka andstöðu bænda við Þjórsá. Landsvirkjun hefur farið hverja ferðina á fætur annari upp að Þjórsá í þeim tilgangi að reyna að fá bændur til að samþykkja framkvæmdirnar. Eftir að níu bændur af þeim tíu sem munu verða fyrir áhrifum af byggingu Urriðafossvirkjunnar, afhentu Landsvirkjun bréf um að þeir tækju ekki frekari þátt í umræðum um virkjanirnar, hefur Landsvirkjun hótað að beita eignarnámi til að ná sínu fram.

Í viðtali við Sunnlenska, sagði Jón Árni Vignisson, bóndi við Þjórsá, að Sveitastjórn Flóahrepps hafi samþykkt breytingu á aðalskipulagi þar sem gert er ráð fyrir virkjun Urriðafoss, eftir að Landsvirkjun hafi lofað að koma að ýmsum málum innan sveitarinnar, t.d. betra farsímasambandi, vegagerð og vatnsöflun ásamt peningagreiðslu (12).

Stækkun álvers Rio Tinto-Alcan og virkjun Þjórsár eru stórspilltar framkvæmdir, sem þarf að stöðva áður en þær hefjast.

Um Saving Iceland
Saving Iceland varð til þegar íslenskir umhverfissinnar kölluðu eftir alþjóðlegri aðstoð til að verna íslensk öræfi – og samfélag – frá græðgi ál- og orkufyrirtækja. Í sumar hefur hópurinn staðið fyrir fjórðu aðgerðabúðum sínum; í þetta sinn á Hellisheiði, en áður hafa búðirnar átt sér stað á Mosfellsheiði, við Kárahnjúka og á Reyðarfirði.

Heimildir:

(1) Mbl.is, Álframleiðsla hjá Alcan aukin um 22 prósent, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/12/29/alframleidsla_hja_alcan_aukin_um_22_prosent/
(2) Mbl.is, Fyrirhugaðar framkvæmdir og orkusala haldast í hendur, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/11/13/fyrirhugadar_framkvaemdir_og_orkusala_haldast_i_hen/
(3) Mbl.is, 200 mw orkusala úr sögunni, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/04/20/200_mw_orkusala_ur_sogunni/
(4) Vísir.is, Alcan keppir áfram um orku Þjórsár, http://visir.is/article/20070909/FRETTIR01/70909058/0/leit&SearchID=73325485751226
(5) Heimasíða Rio Tinto-Alcan á Íslandi, http://www.riotintoalcan.is/?PageID=12&NewsID=175
(6) Mbl.is, Sigur fyrir lýðræðið, http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/03/31/sigur_fyrir_lydraedid/
(7) Mbl.is, Álver á landfyllingu, http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2007/06/20/alver_a_landfyllingu/
(8)Vefsíða Alcan, http://www.alcan.com/web/publishing.nsf/Content/Alcan+Becomes+Leading+Heavy+Gauge+Plate+Aluminum+Supplier+for+the+F-35,+Joint+Strike+Fighter+(JSF
(9) Vefsíða ABC Money, http://www.abcmoney.co.uk/news/13200786914.htm
(10) Vefsíða EADS, http://www.eads.com/1024/en/businet/defence/mas/combat_aircraft/combat_aircraft.html
(11) Myndband sem segir sögu EADS, http://www.eads.com/xml/content/OF00000000400004/0/64/41488640.asx
(12) Sunnlenska Fréttablaðið, 30. tölublað, Eigum marga aðra valkosti, bls. 8-9, 24. Júlí 2008

Náttúruvaktin