Hvaða þátt á álver Fjarðaáls í núverandi efnahagsþrengingum? Þá tvo milljaða dollara sem kostaði að reisa landsins stærstu stíflu varð að fá lánaða frá íslenska ríkinu. Það leiddi af sér aukinn tekjuhalla sem lætur nú finna fyrir sér með aukinni verðbólgu og rýrnun gjaldmiðilsins.
Allar nýjar virkjanaframkvæmdir sem byggðar eru á stóru láni munu hafa sömu áhrif, hvort sem rafmagni er veitt til álvers, sílíkonverksmiðju eða netþjónabús. Dæmið er einfalt: Ef þú færð lánaðan pening þarftu að borga hann til baka á einn eða annan hátt.
Álver gefa vissulega einhverja innkomu. Þau skapa jú störf. En það sem hefur nánast ekkert verið rannsakað á Íslandi er hversu mörg störf á staðnum tapast í kjölfar álversframkvæmda. Allur iðnaður, t.d. fiskvinnsla, á Reyðarfirði hefur drepist niður vegna ómögulegrar samkeppni við álverið. Mörg ný hús sem voru byggð eru nú tóm. Á árunum 2002-8 fluttu að meðaltali 73 fleiri frá Austfjörðum en öfugt. Álverið þarf enn á fjölda erlends verkafólks að halda. Lítil samfélög þar sem stór verkefni á borð við Fjarðaál eiga sér stað, verða algjörlega háð erlendum fjárfestingum. Það er óákjósanleg og ósjálfbær aðstaða.
Það eru fleiri ástæður fyrir því að reisa ekki fleiri álver. Verðið sem álrisarnir borga Landsvirkjun fyrir orku er tengt heimsmarkaðsverði áls. Ef framboð eykst lækkar verð og heildartekjur Íslands minnka. Einhver gæti haldið að nokkur hundruð þúsund tonn af áli hafi engin áhrif á alþjóðamarkaðinn. Sannleikurinn er sá að það er ekki summa framleiðslunnar sem ákvarðar verðið, heldur árekstrar framboðs og eftirspurnar. Örlítil breyting hefur mikil áhrif á verðlag. Krafan um ál er nú þegar minnkandi í Bandaríkjunum og Evrópu. Það sama mun gerast í Kína þegar hægist á gróða þar, sem er líklegt til að gerast áður en ný álver Alcoa og Century á Íslandi munu hefja starfsemi, ef litið er til efnahagsástands heimsins.
Málmfyrirtækin keppa sín á milli. Þess vegna er það ekki einungis heimsverðið sem ákvarðar arðbærnina. Fyrst og fremst ákvarðast hún af því hversu ódýr framleiðslan getur verið. Arðbærni álframleiðslu ákvarðast bókstaflega af einu: orkuverði. Orkuverðið á Íslandi nær botni – það lægsta í heiminum. Það er engin tilviljun að þegar álver Fjarðaáls hóf framleiðslu hafi 400 verkamenn í Rockdale, Texas misst vinnu sína þar sem álversframkvæmdir voru stöðvaðar. Í BNA borgar Alcoa miklu meira fyrir orku.
Og þess vegna vilja Alcoa, Century, Rio Tinto Alcan og Norsk Hydro öll byggja ný álver á Íslandi og í þriðja heims löndum þar sem ódýra orku er að fá, t.d. Trínidad og Austur-Kongó. Þegar eftirspurn minnkar er hægt að loka dýrum álverum fyrir ódýrari, eins og áætluð álver á Bakka og í Helguvík. Og þar sem verðbólga er há og orkutekjur lágar, borga íslenskir skattgreiðendur brúsann.
Bygging nýrra virkjana, álvera eða annarra stórverkefna mun leiða af sér einhvern gróða til skammtíma litið, þegar efnahagurinn er fylltur fjármagni. En eins og Geir benti á fylgja fjárhagslegir bakþankar framkvæmdunum. Stórum verkefnum í smáum efnahag hefur verið líkt við heróínfíkn. Skammtímaskammtur leiðir til langtímafalls. Við getum valið skammtíma innspýtingu eða sjálfbæra efnahagsþróun til langtíma.
„Fjarðaáls-skammturinn“ ofhitaði íslenskan efnahag. Það sem kallað er „Kárahnjúkavandinn“ leiddi til sögulegs hámarks krónunnar sem hefur skaðað útflutning og fiskiðnaðinn sérstaklega. Með þessa „ofurmynt“ ofmátu bankarnir stöðu sína og fóru á eyðslufyllirí. Víman beinir jú sjónum af raunveruleikanum.
Fyrirhugaðar áætlanir um hvernig nýta eigi orkuauðlindir Íslands hafa verið harðlega gagnrýndar. Þeir sem fylgjandi eru hafa aðallega sagt framkvæmdirnar vera fjárhagslega hagstæðar. Hver sá sem leiðir hugann að því um stutta stund getur séð að hér er mýta á ferð. Ætlaðan hagnað vegna nýrra virkjana og stóriðjuframkvæmda þarf að ræða og meta frá gagnrýnu og raunsæju sjónarhorni. Ísland er að koma niður úr vímu. Mun það taka annan skammt eða fara í fráhvarf?
Jaap Krater er visthagfræðingur og talsmaður Saving Iceland