maí 10 2014

Hvernig Gálgahraun gerði mig að aðgerðasinna

Erindi flutt á málstofu um aðgerðahyggju og aðkomu lögreglu að aðgerðum náttúruverndarsinna á Náttúruverndarþingi 10. maí 2014.

Lárus Vilhjálmsson, leikhússtjóri

Ég ætla að fara aðeins yfir atburðarásina í Gálgahrauni haustið 2013 þegar hópur fólks reyndi að mótmæla vegalagningu nýs Álftanesvegar og sérstaklega þann 21 október þegar ég ásamt fjölda annara vorum handtekin fyrir að sitja í veg fyrir jarðýtunni.

Ég hef um margra ára skeið látið mig umhverfismál varða. Tekið þátt í fundum og starfi umhverfissamtaka og stjórnmálaflokka, skrifað greinar, skrifað undir undirskriftalista,  gengið niður Laugaveginn með Ómari og stofnað með honum náttúruverndarflokk.

En ég hafði aldrei litið á mig sem aðgerðasinna. Mér fannst ég vera sófa-mótmælandi. Aðgerðasinnarnir voru fólk eins og Guðmundur Páll í Þjórsárverum og þeir sem mótmæltu á Kárahnjúkum eins og Saving Iceland og vinir mínir Ósk, Lillý og Ómar. Og svo var fullt af aðgerðasinnum í útlöndum sem maður dáðist að. Og meira að segja þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst lá ég veikur í sófanum og horfði á.

Og þegar ég og Ragnhildur konan mín fórum að hraunjaðrinum í Gálgahrauni í morgunsárið þann 17. september á síðasta ári leit ég ekki á mig sem aðgerðasinna. Við virtum fyrir okkur skemmdirnar sem grafa hafði valdið á hraunjaðrinum og ræddum málin við  Reyni, Gunnstein, Harald og Gunnar sem höfðu ásamt okkur gengið áformaða veglínu Álftanesvegar nokkrum dögum áður ásamt tugum annarra. Við fórum svo að skoða athafnasvæði Íslenskra Aðalverktaka og ég varð alveg hissa þegar starfsmaður ógnaði hópnum með gröfuskóflu eins og við værum einhverjir aðgerðasinnar.

Það var ákveðið að mæta eldsnemma næstu daga við hraunið, fylgjast með verktökunum og ef þeir reyndu að fara í hraunið að stöðva þá á friðsaman hátt.  Næsti morgun byrjaði með því að stór hópur af fólki var komið á staðinn sem við áttum eftir að kynnast vel næstu vikurnar.  Gröfurnar komu síðan og stöðvuðu þegar fólkið settist fyrir framan þær. Lögreglumaður mætti á staðinn og ræddi góðlátlega við okkur en fór þegar við sættumst ekki á að færa okkur. Fulltrúi verktakans sættist þá á að fresta vinnu við hraunið þar til aðilar hefðu rætt saman. Hópurinn fór síðan á fund Vegamálastjóra. Hann var ekki viðlátinn en sendi á okkar fund hóp bergþursa sem sögðu Vegagerðina vera ríki í ríkinu og sinn eigin dómstóll og þeir vildu ekkert vera að bíða eftir öðrum dómstólum. Þannig fór sá fundur og við fórum út með samanbitnar tennur og staðráðin í því að mæta í hraunið morguninn eftir. Sest var á rökstóla og ákveðið að hvetja náttúruvini til að koma okkur til aðstoðar á vaktina. Enn þrátt fyrir þetta allt leið mér samt ekki alveg eins og aðgerðasinna.

Síðan hófst biðin. Næsta mánuð mætti galvaskur hópur fólks eldsnemma á hverjum virkum degi í hraunjaðarinn. Vaktin stóð frá sjö á morgnanna til fimm á daginn. Fljótlega risu tjöld við Garðastekkinn, útileguborð og stólar og kaffibrúsar og kræsingar spruttu fram. Stöðug umferð var á svæðið af fólki sem vildi ræða málin og það voru fjörugar umræður við tjöldin.  Rætt var um sáttanefndina sem innanríkisráðherra ætlaði að kalla til verka en aldrei var kölluð til. Hneykslast var yfir ósannsögli Vegagerðar og bæjarstjóra Garðabæjar um umferðaröryggi á gamla Álftanesveginum og hlegið dátt af sögunum og vísunum hans Ómars. Það var stundum pælt í því hvað við tæki ef að gröfurnar kæmu og þeir myndu kalla til lögreglu og allir voru sammála um Gandhi-aðferðina hans Ómars. Bara sitja og ekki sýna neinn mótþróa.

Þetta var góður tími og góður hópur. Og það var rólegt og fallegt við hraunjaðarinn og sérstaklega í ljósaskiptunum í haustblíðunni. Stundum fór maður einn í gönguferð í hraunið og naut kyrrðarinnar, fallegra hraunklettanna og hlustaði eftir röddum náttúrunnar.  Kannski var það þessvegna sem mér leið ekki eins og aðgerðasinna. Mér leið frekar eins og miðaldra körlunum á 19. öldinni sem þorðu að elska landið sitt og ortu ljóð um það, svo ég vitni í Andra Snæ.

En svo kom að því.  Við tókum eftir því  18. október að stærsta jarðýta landsins var flutt á vinnusvæði verktakanna. Og þótt að okkur þætti skrítið að það ætti að nota jarðýtu þegar þeir færu að pilla úr hraunjaðrinum þá reiknuðum við með því að það færi að draga til tíðinda.

21. október rann upp. Þegar við Ragnhildur, konan mín,  gengum með kaffibrúsana og tjaldið niður að Garðastekk þá var sólin farin að gægjast upp í austrinu og það var útlit fyrir fallegan dag í hrauninu. Það var komin hópur af fólki og við settum upp tjaldið eins og vanalega. Sest var niður, kaffi hellt í bolla og byrjað að skrafa saman um landsins gagn og nauðsynjar. Það var svalt en engin fann fyrir því, við vorum öll vön að vera vel klædd. Einhver spurði „ætli þeir fari af stað í dag?“, en engin svaraði því þetta hafði verið spurning dagsins í mánuð.

Stuttu seinna kallaði einhver sem hafði farið á útkík, „hún er farin af stað!“  Og þá vissu allir um hverja var verið að tala og allt fór í gang. „Allir á staðinn!“ kallaði einhver og meinti staðinn þar sem við ætluðum að sitja. „Er búið að hringja?“ kallaði annar. Og svo fór maður og settist á stein eins og hinir í hópnum. Við biðum smástund og þá heyrðist hljóðið.

Ýskur sem fór í gegnum bein og merg … ýskur sem varð hærra og hærra og eftir smástund fylgdi ýskrinu dimmur skruðningur. Ég mundi allt í einu hvar ég hafði heyrt þetta hljóð áður. Þetta var skriðdrekahljóðið sem maður hafði heyrt í fjölda stríðsmynda. Og svo birtist hún og það voru fullt af hermönnum með henni … een nei svo fattaði maður allt í einu að þetta voru  dökkklæddir lögreglumenn með kylfur og gasbrúsa.

Á þessu augnabliki varð ég aðgerðasinni. Í stað þess að standa upp og hlaupa í burtu ákvað þessi skíthræddi miðaldra karl að sitja áfram á steininum sínum og víkja ekki fyrir skriðdrekanum. Ég leit í kringum mig og sá að með mér var hópur fólks sem hafði tekið sömu ákvörðun og allt í einu var ég ekki hræddur, heldur stoltur yfir því að vera þarna á þessu augnabliki.

Svo byrjaði ballið … lögregluballið. Um leið og ýtan stöðvaði nokkra metra frá okkur vorum við umkringd lögreglumönnum. Seinna var okkur sagt að þeir hefðu verið um 60, en mér fannst þeir vera óteljandi.  Okkur var skipað að færa okkur en við sögðumst ekki geta það vegna þess að við værum að vernda hraunið fyrir ólöglegum aðgerðum. Þá vorum við dregin eða borin burt. Sex lögreglumenn drösluðu mér við illan leik upp úr vegstæðinu og húrruðu mér niður á grasflöt hjá mörgum félaga minna. Ég leit í kringum mig gleraugnalaus og sá Ragnar son minn handjárnaðan og settan inn í fangabíl. Heyrði líka Gunnstein kórstjóra biðja lögregluna um handjárna hann ekki því að hendurnar væru hans lifibrauð. Þeir hlustu ekki á það, handjárnuðu hann og settu hann inni í fangabíl. Það var algert kaos.

Við hlupum nokkur upp í hraunið og settumst fyrir ofan vinnusvæðið. Það leið ekki á löngu þar til að lögreglan og starfsmenn verktakans hófu að girða í kringum okkur. Við kræktum þá saman höndum og vorum staðráðin í að verja hraunið eins og sannir aðgerðasinnar. Enn var okkur skipað að færa okkur og við svöruðum eins og áður. Þá vorum við handtekin. Eins og áður var okkur dröslað í burtu en nú inn í fangabíla og keyrð á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem við vorum látin dúsa um stund.

Þegar hópnum var sleppt frá Hverfisgötunni var farið aftur á Álftanesið. Lögreglan hafði þá lokað öllum aðkeyrslum út á Álftanes þannig að við gengum frá Garðaholti. En héldum við út í hraunið og sáum ýtuna stóru spæna upp hraunkletta og lyngbolla. Það fannst mér sorgleg sjón. Samkvæmt þeim sem voru á svæðinu var búið að handtaka fjölda manns og það virtist hafa bæst í lögregluhópinn. Við settumst enn einu sinni nokkurn spöl frá vinnusvæðinu en sama sagan endurtók sig. Lögregla og verktakar girtu í kringum hópinn og lögreglan hóf síðan handtökur á okkur þegar fólk sagðist ekki geta fært sig. Ein af þeim fyrstu sem var tekin var Ragnhildur sem var síðan ásamt hinum níumenningunum látin dúsa í einangrunarklefum á Hverfisgötunni í marga tíma.

Það var ekki létt hljóðið  í lögregluþjónunum sem byrjuðu að drösla mér niður hraunið og eftir um hundrað metra brölt gáfust þeir upp og sögðu mér að hypja mig. Ég hysjaði upp um mig buxurnar og reyndi að fara í áttina að vegstæðinu en var hindraður af hópi lögreglumanna.  Þá gafst ég upp og fór niður að Garðastekk þar sem fangabílar og lögreglubílar voru út um allt. Ég settist í hraunið, horfði yfir vígvöllinn og hugleiddi atburði dagsins.

Ég var miður mín. Mánuðinn góða í hraunvörslunni hafði mér aldrei komið til hugar að Ísland gæti breyst á einu vettvangi úr því að vera land þar sem maður treysti því að lögreglan væri að vinna í þágu almennings  í land þar sem lögreglan vann aðeins fyrir stjórnvöld og einkafyrirtæki. Ég hafði haldið í einfeldni minni að Ísland væri land þar sem menn leituðu sátta áður en vopnin væru notuð.

Það hafði aldrei hvarflað að mér að ég ætti eftir að lifa dag á Íslandi þar sem ungt, miðaldra og eldra fólk væri borið í fangabíla eins og kartöflusekkir og lokað inni í einangrunarklefum. Og ég hélt að ég myndi aldrei lifa þann dag á Íslandi að stjórnvöld leyfðu ekki fólkinu í landinu að klára að leita réttar síns fyrir dómstólum. Og ég hélt að sá dagur myndi ekki rísa aftur að skömm stjórnvalda myndi rísa eins hátt og þegar hverflar Kárahnjúkavirkjunar voru ræstir.

Það er út af þessum atburðum þann 21 október árið 2013 sem ég varð og verð alltaf  aðgerðasinni fyrir náttúru Íslands.

Takk fyrir

 

Náttúruvaktin