mar 14 2008

Látið Þjórsá í friði! – Saving Iceland reisir stíflu við skrifstofur Landsvirkjunar

Í morgun reisti Saving Iceland stíflu við inngang skrifstofu Landsvirkjunar, sem kölluð var Háaleitisvirkjun. Starfsmenn Landsvirkjunar þurftu því annað hvort að stíga yfir stífluna eða fara inn um aðrar dyr til að komast inn fyrir. Með aðgerðinni var mótmælt fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og fullum stuðningi og samstöðu lýst yfir með þeim sem berjast fyrir verndun hennar.

Í dag er alþjóðlegur aðgerðadagur fyrir ár og fljót haldinn í 11. skipti um allan heim en í fyrsta skipti á Íslandi. Með deginum er athygli beint á mikilvægi áa og því að þær renni óbreyttar án þess að mannfólkið fikti við þær. Stíflur, lón og virkjanir hafa alvarleg áhrif á náttúru, lífríki og samfélög fólks sem við árnar búa og framkvæmdirnar verða ekki aftur teknar. Búast má við uppákomum, mótmælum og beinum aðgerðum um allan heim í tilefni dagsins. (1)

Þann 26. febrúar sl. gerði Landsvirkjun samning við Verne Holding um orkusölu vegna fyrirhugaðs Netþjónabús sem fyrirtækið síðarnefnda hyggst reisa á Reykjanesi. Landsvirkjun hefur sagt að orkan muni koma úr Þjórsá og samningurinn hafi verið undirritaður með fyrirvara um að leyfi fáist fyrir virkjununum. (2) Netþjónabúið þarf 25 MW á ári og hefur kauprétt á öðrum 25 MW en fyrirhugaðar Þjórsávirkjanir koma til með að framleiða um það bil 260 MW.

Fyrir þá sem berjast fyrir verndun Þjórsár skiptir það engu máli hvert orkan er seld, það er eyðilegging árinnar sem barist er gegn. Hvort orkan fer til hátæknifyrirtækis eða í enn eitt álverið skiptir engu máli í því samhengi.

Nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar síðasta vor afhentu þrír ráðherrar íslensku ríkisstjórnarinnar Landsvirkjun 93% vatnsréttindanna við Þjórsá á silfurfati, fyrir luktum dyrum. Ekki komst upp um málið fyrir en löngu seinna og þá úrskurðaði ríkisendurskoðun afhendinguna ólöglega. Nokkrir ráðherrar breyttrar ríkisstjórnar stigu þá fram og lýstu yfir skoðun sinni á málinu, þ.á.m. Árni Mathiesen fjármálaráðherra, einn þeirra sem stóð fyrir afhendingu vatnréttindanna. Árni lýsti yfir eigin siðleysi en situr enn sem fastast í ráðherrastól.

„Þessa spillingu og græði þarf að stöðva eins og skot“ segir Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson frá Saving Iceland. „Það er óþolandi að sitja uppi með valdhafa sem hegða sér svona og enn verra af Landsvirkjun að taka á móti siðspilltri gjöf sem þessari. Það er ómögulegt að sitja kyrr og fylgjast bara með, þess vegna grípum við til aðgerða.“

Landsvirkjun státar sig af umhverfisvænni orku og sagði Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar orkuna sem Þjórsávirkjanir kæmu til með að framleiða vera bæði græna og kolefnislausa. En vonandi sjá flestir í gegnum þennan endalausa grænþvott fyrirtækisins.

Þegar uppistöðulón fyllist rotnar gróðurinn sem drekkt er. Lón virka sem stórir hreyflar sem breyta kolefni í metangas, gróðurhúsalofttegund sem er 21 sinni sterkari en koltívíoxíð og Kyoto-sáttmálinn fjallar ekki um þessa losun. Þegar vatnshæð lóna hækkar og lækkar til skiptist vex gróður og rotnar að sama skapi við yfirborð lónsins, sem leiðir til þess að losun metans á sér stað allan þann tíma sem virkjunin er í gangi. (3)

Í grein sinni, Er þekking best í hófi í þekkingarsamfélagi? segir Guðmundur Páll Ólafsson, rithöfundur og náttúrufræðingur:

„Þegar vorið vitjar sjávarins bráðnar klaki og snjór á landi, lækir þrútna og ár hlaupa. Vorflóð eru næringarsturta sjávar. Þau töfra fram þrennt í senn: flytja framburð og uppleyst næringarefni og mynda ferskvatnshimnu ofan á sjónum – og þar sem ferska lagið mætir því salta blómgast þörungalíf og svifdýr tímgast. Þörungar eru æti svifdýra og svifdýrin æti þorskseiðanna en líka loðnuseiða svo dæmi séu tekin af stofnum sem eru í hættu. Samspilið þarf að vera ein allsherjar harmonía á þeirri ögurstund þegar seiðin leita ætis. Þetta samofna lífkerfi lands og sjávar – þar sem Þjórsá er helsta lífæðin – var ekki ofið í gær, heldur hefur viska náttúrunnar tvinnað samhengið – í Íslands milljón ár.“ (4)

„Þetta endalausa blaður um græna orku hefur gengið allt of langt. Stíflur og uppistöðulón skaða náttúru landsins og híbýli manna og dýra. Það er ekkert ‘grænt’ við þá eyðileggingu“ segir Snorri.

Saving Iceland lýsir yfir fullum stuðningi og samstöðu með Sól á Suðurlandi og öllum öðrum sem berjast gegn eyðileggingu Þjórsár. Við hvetjum fólk til að fara að Urriðafossi í kvöld kl. 20:00 þar sem táknræn mótmæli munu eiga sér stað með ljóðalestri.

Við vonum að þetta geti orðið síðustu aðgerðir okkar í baráttunni fyrir verndun Þjórsár en af reynslunni að dæma má búast við því að svo sé ekki. Við látum það ekki stöðva okkur.

Lifi Þjórsá – Engar málamiðlanir varðandi verndun jarðarinnar!

Heimildir:

(1) Meira um alþjóðlega baráttudaginn

(2) Frétt á vefsíðu Landsvirkjunar,

(3) Bæklingur um lygina um ‘græna’ orku

(4) Guðmundur Páll Ólafsson, Er þekking best í hófi í þekkingarsamfélagi?

Sjá einnig:

Skýrsla Dr. Ragnhildar Sigurðardóttur um umhverfisáhrif Urriðarfossvirkjunar og hættuna á eyðileggingu laxastofns Þjórsár.

Skýrsla Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings um jarðskjálftahættu við Þjórsá (á íslensku og ensku)

Náttúruvaktin