feb 20 2008

Frá sigri til sigurs

Ávarp Birgis Sigurðssonar rithöfundar á baráttufundi gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá 17. febrúar 2008. Fundurinn var haldinn á vegum Sólar á Suðurlandi.

Góðir áheyrendur.

Þegar menn eiga í erfiðri og langvinnri baráttu við ofurefli er stundum hollt að rifja upp það sem hefur áunnist. Það stælir kjark, vekur von og eykur þrek. Á þessu þrennu þarf náttúruverndarfólk mjög að halda. Saga náttúruverndarbaráttu á Íslandi sýnir hinsvegar að það er unnt að sigra ofureflið.

Í nóvember árið 1998, var haldinn baráttufundur í Háskólabíói undir kjörorðinu „Með hálendinu – gegn náttúruspjöllum“. Til fundarins boðaði svonefndur Hálendishópur. Í honum voru einstaklingar úr fjölmörgum útivistar- og náttúruverndarsamtökum. Þetta fólk hafði verið kallað saman í skyndi til þess að snúast gegn yfirvofandi náttúruspjöllum á miðhálendinu. Það lá mikið við: Landsvirkjun áformaði að drekkja votlendisparadísinni Eyjabökkum norðan Vatnajökuls með miðlunarlóni. Sömu örlög voru búin stórum hluta Þjórsárvera.

Með þessum fundi var tekin mikil áhætta. Það yrði að nást fullt hús; annað yrði túlkað sem ósigur. Fundurinn heppnaðist; Háskólabíó troðfylltist og stemmingin var mögnuð. Þetta var mikill áfangasigur. Ekki er vafi á því að þessi fundur markaði tímamót í náttúruverndarbaráttunni. Hann var ómetanlegt framlag til þeirrar hnífskörpu baráttu sem í hönd fór. Á fundinum var samþykkt skorinorð ályktun gegn virkjunum á miðhálendinu og fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum á Eyjabökkum og í Þjórsárverum harðlega mótmælt. Könnun sem gerð var ári seinna sýndi að 80% þjóðarinnar voru andvíg miðlunarlóni á Eyjabökkum. Skömmu síðar heyktust ríkisstjórnin og Landsvirkjun á miðlunarlóni þar. Þessari vin gróðurs og fugla var borgið. Það var mikil hamingju- og sigurstund.

Meirihluti þjóðarinnar snerist líka þvert gegn áformum Landsvirkjunar í Þjórsárverum. Með hverju árinu sem leið varð erfiðara fyrir ríkisstjórnina að standa gegn þjóðinni í átökunum um þetta dýrmæta landsvæði. Í þeirri baráttu hefur náttúruverndarfólk ekki enn haft fullan sigur en sigur samt. Og ég trúi að brátt muni Þjórsárverum vera alveg borgið. Tíminn ber það í sér.

Og innan skamms mun Vatnajökulsþjóðgarður verða að veruleika. Hann verður ekki eins víðáttumikill og þeir bjartsýnustu vonuðu. Hann verður ekki heldur jafn lítilfjörlegur og þeir svartsýnustu óttuðust. En án baráttu undangenginna ára hefði hann ekki orðið til.

Við biðum sáran ósigur við Kárahnjúka. Virkjunin þar felur í sér mesta óhappaverk sem unnið hefur verið á íslenskri náttúru í einni svipan. En baráttan gegn virkjuninni var samt ekki án sigurs. Því skipulagsstjóri úrskurðaði með náttúrunni og á móti virkjuninni. Það fól í sér siðferðislegan sigur fyrir náttúruverndarfólk; óvilhalla staðfestingu á réttmæti baráttunnar. Þáverandi umhverfisráðherra, Sif Friðleifsdóttur, gafst kostur á að sýna pólitíska og siðferðislega reisn en hún kaus að gera það ekki, ómerkti niðurstöðu skipulagsstjóra með bellibrögðum og úrskurðaði gegn náttúrunni.

En sú andólfsalda sem reis upp gegn þessum háskalegu virkjunaráformum og náttúruspjöllum varð ekki og verður ekki stöðvuð. Hún er ákall úr sjálfu þjóðardjúpinu og samhljóma kalli tímans. Náttúra landsins verður okkur sífellt nákomnari. Þeim fjölgar stöðugt sem leita til hennar að lífsnæringu og endurnýjun sálarkrafta. Okkur verður sífellt ljósara að þar sem við erum þar er náttúran. Og þar sem náttúran er þar erum við. Því sterkari sem þessi tillfinningatengsl eru þeim mun betra líf. Jafnframt vitum við og finnum að við erum ekki ein með náttúru landsins. Hún er hluti af náttúru heimsins. Umhyggja sem við sýnum íslenskri náttúru er umhyggja auðsýnd heiminum. Ábyrgð okkar á eigin náttúru er þeim mun meiri.

Ég fullyrði að flestum Íslendingum sé orðið þetta ljóst, meira og minna. Tímarnir eru að breytast. Og þessi breyting er hröð. Ný lífssýn er að verða til. Þegar Náttúruverndarsamtök Íslands voru stofnuð 1997 litu ýmsir á þau sem einskonar terrorsitasamtök. Og formaður þeirra, Árni Finnson, var í augum þessara manna eiginlega State Enemy Number one. Nú njóta Náttúruverndarsamtökin virðingar – og jafnvel Árni líka.
Það er náttúrverndarbaráttan sem hefur skilað af sér deiglu þessarar verðandi nýju lífssýnar. Og það er einn af sigrunum stóru. Þessi mikla deigla vaxandi umhverfisvitundar leiðir af sér ýmislegt sem er nágtengt náttúruverndarbaráttu, bæði beint og óbeint. Við viljum ekki spúandi álver við húsdyrnar hjá okkur, sögðu Hafnfirðingar. Við viljum náttúrugæði í nánasta umhverfi okkar og mannvænt skipulag, segja Kópavogsbúar, Seltirningar, Reykvíkingar . . . Við tökum undir með þeim. Því allt er þetta greinar af sama meiði. Og snýst í eðli sínu um eitt og hið sama, nær og fjær; gæði mannlegs lífs, tengsl okkar við umhverfið og landið.
Og nú erum við komin á enn einn fundinn til þess að berjast fyrir náttúruperlu. Berjast gegn Landsvirkjun og þeim stjórnmálamönnum sem sitja á Alþingi og í ríkisstjórn en eru í vinnu hjá Landsvirkjun. En í þetta sinn er náttúruperlan í byggð.

Gleymum því ekki hér í dag að Gnúpverjar voru fyrstir landsmanna til þess að halda baráttufund til verndar landsvæði langt utan alfaraleiða. Gleymum því ekki heldur að meðal okkar hér í dag er fólk sem tók við af þessum gnúpversku frumherjum í baráttunni fyrir verndun og friðun Þjórsárvera. Höfum líka í huga að með baráttu sinni fyrir verndun Þjórsár í byggð hefur þetta fólk úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi, ásamt fólki úr öðrum sveitarfélaögum sem land eiga að Þjórsá, sýnt frumkvæði sem það má svo sannarlega vera stolt af.
Fyrir tíu árum sögðum við í Háskólabíói: Með hálendinu – gegn náttúrspjöllum. Við segjum það enn. Og við segjum líka: Með náttúrugæðum í byggð. Við segjum með Þjórsá í byggð, gegn spjöllum á henni. Því hún er ekki bara vatn sem rennur til sjávar, ekki bara H2O. Hún er mikilfenglegur þáttur í ásýnd landsins og gerir nálægar byggðir aðlaðandi fyrir þá sem þar búa og þá sem þangað koma. Ósködduð af virkjunum í byggð verður Þjórsá dýrmæt náttúruperla um ófyrirsjánlega framtíð. Ekki aðeins fyrir þá sem lifa í návist hennar heldur fyrir okkur öll.

Í þessari baráttu fyrir verndun Þjórsár í byggð skulum við minnast þess að ósigrar eru til þess að læra af þeim. Sigrar eru hinsvegar það veganesti sem okkur er fengið til enn frekari sigra. Þannig munum við ganga frá sigri til sigurs og til fullnaðarsigurs.

Náttúruvaktin