sep 06 2005

Það er tap á Kárahnjúkavirkjun. Við græðum á því að hætta núna.

Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur
Þuríður Einarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður

Æ fleirum verður ljóst hversu misráðið var að fara út í byggingu Kárahnjúkavirkjunar og myndu vilja hætta við. Samkvæmt Gallupkönnun sem Náttúruverndarsamtök Íslands létu gera í mars s.l. töldu tæp 40% landsmanna virkjunina vera mistök. Gamalt spakmæli segir að ef maður er á rangri leið þá sé aldrei of seint að snúa við. Frá sjónarhóli náttúruverndar skiptir mestu að hætt sé við áður en byrjað er að fylla uppistöðulónið sem veldur mestum náttúruspjöllum. Sjálf stíflan veldur tiltölulega litlum skemmdum miðað við allt það landflæmi sem á að fara undir vatn. En þar að auki má færa efnahagsleg rök fyrir því að það sé ávinningur af því að stöðva framkvæmdirnar núna. Hugsum þennan möguleika til enda.

Bygging virkjunarinnar nálgast að vera hálfnuð og má ætla að búið sé að eyða í hana um 40 miljörðum króna. Til að setja þessa upphæð í samhengi mætti t.d. benda á að Burðarás og KB banki skiluðu hvor um sig um 25 miljörðum króna eða samanlagt 50 miljörðum í hagnað eingöngu á fyrri helmingi þessa árs. Heildarskuldir landsmanna nema tæpum 2000 miljörðum króna og niðurgreiðslur til íslensks landbúnaðar nema um 7-8 miljörðum árlega.

Ávinningur af því að hætta við
Vitaskuld fylgir því töluverður kostnaður að hætta við hálfunnið verk. Hugsanlega þarf einnig að greiða skaðabætur til Alcoa. Þó er ljóst að töluverðir fjármunir sparast sökum þess hve arðsemi framkvæmdarinnar er lítil og í reynd neikvæð ef miðað er við ávöxtunarkröfu markaðarins og eðlilega áhættu. Árleg ávöxtunarkrafa sem framkvæmdaaðilar gera til virkjunarinnar er ekki nema 5-6%. Það þykir lágt á almennum markaði eins og kemur fram í því að einkafjárfestar vildu ekki setja fé í virkjun á Austurlandi þegar það stóð til boða fyrir nokkrum árum. Af þessum sökum hafa hagfræðingar fullyrt að núvirt tap af virkjuninni geti numið allt að 40 miljörðum. (Sjá http://notendur.centrum.is/ardsemi/#_Hlk516561995).

Beinn kostnaðurinn við gerð virkjunarinnar er áætlaður um 100 miljarðar þannig að miðað við 40 milljarða tap eru núvirtar tekjur um 60 milljarðar. Þeir milljarðatugir sem þegar er búið að eyða koma ekki til baka. Reikningsdæmið gæti því litið út í dag svona: Tekjur verða 60 miljarðar og fjárfesting sem eftir er nemur 60 miljörðum. Arðurinn er enginn. Hvort sem við hættum við núna við eða fullgerum virkjunina þá verður tapið í öllu falli 40 miljarðar.

Reyndar er dýrkeyptara að fullgera virkjunina en hætta við hana þegar tekinn er með í reikninginn annar viðbótarkostnaður sem hlýst af henni. Um er að ræða umhverfiskostnað og frekari neikvæð áhrif á atvinnumarkaðinn að öðru leyti en því sem snýr beint að virkjuninni. Inn í útreikninga Landsvirkjunar hefur heldur ekki verið tekinn inn umtalsverður kostnaður við mótvægisaðgerðir vegna foks og hættu á uppblæstri sem voru þó skilyrði þess að Landsvirkjun fékk virkjanaleyfið frá umhverfisráðherra.

Síðan má ekki gleyma því, að miðað við reynslu annars staðar frá af stórframkvæmdum á borð við þessa er afar líklegt að kostnaður fari fram úr áætlun. Fari verkið t.d. 20% fram úr áætlun, sem gæti vel gerst ef horft er á niðurstöður rannsóknar sem gerð var við Álaborgarháskóla á sambærilegum stórframkvæmdum, yrði hreinn ávinningur af því að hætta við nú líklega um 20 milljarðar.

Hér hefur heldur ekki verið minnst á það hvaða áhrif virkjanaframkvæmdirnar hafa á aðra atvinnustarfsemi, en ruðningsáhrifin gera að verkum að hagkvæm framleiðsla víkur fyrir óhagkvæmri. Vegna hás gengis krónunnar sem orsakast m.a. af stóriðjuframkvæmdunum hafa fyrirtæki víða um land verið lögð niður, margir misst atvinnuna og talað er um tíu miljarða króna tap í sjávarútvegi.

Koma í veg fyrir enn meira tjón
Inn í alla þessa útreikninga hefur landið sem fer undir Hálslón, sem verður á stærð við Hvalfjörð, og land undir fleiri lón ekki verið verðlagt. Við leggjum árlega um miljarð í landgræðslu og skógrækt á sama tíma og við stefnum að því að drekkja tugum ferkílómetra af fágætum grónum svæðum hálendisins. Svo spillist og verðlækkar ásýnd lands sem fer undir tugi kílómetra uppbyggðra vega og undir háspennumöstur, sem sum hver verða helmingur af hæð Hallgrímskirkju. Hugsanleg skaðleg áhrif af völdum tilfærslu stórfljóta á vistkerfið hafa heldur ekki verið tekin með í reikninginn – enda vitum við enn ekki hvað þau koma hugsanlega til með að kosta okkur.

Bent hefur verið á að þjóðhagsleg áhrif stóriðju hafi verið ofmetin þar sem enn hefur ekki tekist að byggja hliðargreinar tengdar álbræðslu. Til marks um þetta má benda á að af 40% aukningu hagvaxtar á árunum 1993 til 2003 var framlag nýrrar álbræðslu í Hvalfirði aðeins 0,7%. Í ljósi alls þessa hljótum við að spyrja hvort ekki sé ráð að hætta við þessa tegund atvinnuuppbyggingar sem hefur gífurlegar skemmdir á náttúru landsins í för með sér og gengur á rétt komandi kynslóða. Það væri hægt að afskrifa tapið af því að hætta við virkjunina eins og hvert annað misráðið byggðaþróunarverkefni. Fjölmörg slík verkefni hafa verið afskrifuð með miklu tapi á undanförnum árum og áratugum.

Erfiðast er að leggja mat á verðmæti þeirrar náttúru sem fer til spillis ef virkjanaframkvæmdum verður áfram haldið. Eyðilögð verða tvö mikil jökulfljót og a.m.k. 1000 km2 svæði umhverfis þau. Þegar gengið er inn með Jökulsá í Fljótsdal í grænum og víða skógi vöxnum dal getur að sjá röð stórfenglegra fossa sem munu hverfa. Jafnvel Gullfoss má vara sig í þeim samanburði. Þegar gengið er inn með Jökulsá á Brú fer maður um gróið svæði svo skemmtilegt og fallegt að ævintýri er líkast. Frá Brúarjökli blasa við hin ósnortnu víðerni römmuð inn af Snæfelli í austri, Herðubreið í norðri og Kverkfjöllum í vestri. Þarna er stærsta gróðurlendi á hálendi Íslands, m.a. Vesturöræfin sem eru burðar- og beitarsvæði hreindýra og gæsa. Það getur varla nokkur maður sem hefur upplifað þessa fegurð viljað fórna þessu fyrir framkvæmd sem gefur ekki einu sinni af sér arð. Auglýsingatal Landsvirkjunar um endurnýjanlega orku er varlega sagt vafasamt vegna þess að lónið mun hafa takmarkaðan líftíma. Það fyllist af aur, hugsanlega á innan við öld og þá verður virkjunin óstarfhæf. Eftir stendur gífurlega stórt svæði í rúst eins og eftir styrjöld, draugalegur minnisvarði um skammsýni núríkjandi ráðamanna.

Frá sjónarhóli náttúruverndar er ljóst að við höfum ekki efni á að halda áfram á þessari braut. Þess vegna er haldið áfram að mótmæla, líka vegna annarra svæða sem eru í hættu. Vegna Þjórsárvera, fljótanna í Skagafirði og Skjálfandafljóts, Langasjós, Torfajökulssvæðisins og fleiri staða.

Margir íbúar á Miðausturlandi fagna því að fólki fjölgar í þessum landshluta, að verslanir og veitingahús spretta upp og atvinnutækifærum fjölgar. Ef við hættum við yrði að leita annarra leiða til uppbyggingar á Austurlandi. Fjárfestingar í þekkingariðnaði eru mun arðbærari vegna þess að þær gefa margfalt af sér á við störf í þungaiðnaði. Ríki sem eru komin skemmra á veg en við í iðnþróun og hafa ekki yfir menntuðu atvinnuafli að ráða þurfa kannski á svona atvinnuuppbyggingu að halda. Hér á landi er menntunarstig hátt og okkur ber engin nauðsyn til að ganga á náttúru okkar með þessum hætti.

Byggingarsvæði virkjunarinnar vekur óhugnað. Stóra stíflan verður næstum 800 metrar á lengd og tæpir 200 metrar á hæð, enda verður þetta stærsta jarðvegsstífla Evrópu. Allt umrótið og eyðileggingin minna á neðanjarðarheim Mordors í Hringadróttinssögu þar sem Orkar búa til eyðileggingarjötun úr afurðum náttúrunnar. Þetta getur ekki vitað á gott. Svo lengi sem ekki er byrjað að fylla lónið er full ástæða til að hætta við.

Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur
Þuríður Einarsdóttir, kvikmyndagerðarmaður

Náttúruvaktin