júl 16 2008

Að ryðja brautina

Birgitta Jónsdóttir
Morgunblaðið, 16. Júlí 2008
Svar við Staksteininum Morgunblaðsins: Aðgerðahópar og sellur?

,,Fyrir nokkrum árum síðan hefðu tónleikarnir „Náttúra“ þar sem höfuðáhersla og þema er sú vá sem að náttúru landsins steðjar álitnir róttækir og pólitískir. Hvað varð til þess að þeir voru það ekki?“

Þegar um allt þrýtur og ekkert gengur að vekja athygli á mikilli vá sem steðjar að náttúru og umhverfi er brugðið á það ráð að framkvæma aðgerðir sem í eðli sínu eru fremur saklausar en kalla yfirleitt á hörð viðbrögð lögreglu og þeirra stórfyrirtækja sem verið er að vekja athygli á fyrir spillingu eða stjórnleysi. Oft eru þessar aðgerðir tengdar við ofbeldi, en það á sér litla stoð í veruleikanum. Ofbeldið á sér ekki stað af hendi aðgerðasinna, heldur er það lögreglan sem missir sig og ræðst til atlögu við aðgerðasinna sem t.d. neita að færa sig. Þegar verið er að handtaka fólk með offorsi er alveg sama hvort um munk í bænastellingu eða umhverfisverndarsinna varnarstellingu að ræða, það lítur út eins og ofbeldi. Þessar myndir rata oft á forsíður eða í fréttatíma sjónvarpsstöðvana.

Hryðjuverkaorðið sívinsæla hefur verið tengt við umhverfisverndarsinna hérlendis og ýmiss önnur mannorðsmorð orð notuð af ofstæki til að réttlæta illa meðferð á aðgerðasinnum. Að hlekkja sig við vinnuvél, að klifra upp í krana, að dansa um göturnar, að hrópa slagorð er ekki ofbeldi, hvað þá hryðjuverk.

Það sem beinar aðgerðir Saving Iceland hafa gert hérlendis sem og áþekkar aðgerðir erlendis er að færa til viðmiðunarmörkin. Ef ekki hefði verið fyrir aðgerðir SI, væru umhverfismál enn á róttæka sviðinu og þeir sem töluðu um að vernda landið og sýna aðgát í stóriðjuframkvæmdum enn álitnir róttæklingar. SI færði viðmiðunarmörkin á umræðunni, gaf fólki sem vildi tjá sig um þessi mál tækifæri á að gera slíkt án þess að verða úthrópaðir föðurlandssvikarar og hefur SI tekið á sig fjandskap og meinyrði án þess að gefast upp.

Því miður er það svo að við eigum enn langt í land til að ná að stoppa þá vá sem að landinu steðjar. Enn eru mörg álver á teikniborðinu og búið er að veita leyfi til tveggja, að ógleymdriolíuhreinsunarstöðinni. Því er enn þörf er á aðgerðasinnum hérlendis til að færa viðmiðunarmörkin, til að gera stjórnmálafólki sem og umhverfisverndarsinnum kleift að fjalla um þessi mál í kjölfar aðgerða og fyrir vikið líta út fyrir að vera áþekkari meginstraumnum en róttæklingum. Saving Iceland hefur rutt brautina og fyrir það ber okkur að þakka þeim í stað þess að hefja alltaf ófrægðarherför þegar aðgerðabúðir hefjast. Í SI eru allskonar manneskjur, bæði Íslendingar og útlendingar. SI hefur staðið fyrir námskeiðum og ýmiskonar fræðslu, bæði á akademíska sviðinu sem og fyrir þá sem vilja kynna sér beinar aðgerðir.

Þeim er gjarnan bent á að fá sér vinnu og míga í saltan sjó, því þau séu upp til hópa aumingjar sem súpa latte á kaffihúsum í 101 Reykjavík. Flest þeirra hafa unnið við að rækta land víðsvegar um heim og hafa með sanni mold undir nöglunum. Þó fæst þeirra taki þátt í skefjalausri neysluhyggju samtímans, þýðir það ekki að þau séu minna fólk. Þau hafa bara önnur viðmið en hinn almenni borgari og keppast við að losa sig undan viðjum sjálfshyggjunnar. Þau eru tilbúin að leggja mikið á sig til að vera trú málstað sem er í senn einfaldur og fallegur. Jörðin er okkar allra, okkur ber að koma fram við hana að virðingu og sjá hlutina í samhengi. Samhengið sem flest okkar kjósa að horfa undan. Samhengið að við búum öll saman á þessari jörð og það er bara til eitt stykki jörð og án hennar ættu við ekki neitt, því ber okkur að vernda hana og hjálpa almenningi að fá aðgengi að upplýsingum um hvað er verið að gera í nafni framfara. Þessar framfarir eru því marki brenndar að ef því höldum áfram án umhugsunar að skemma og fórna í þágu þeirra verður ekki neitt eftir af þeim gæðum sem okkur er tamt að monta okkur af í stóra samhenginu á alþjóðavísu: óspillt tær einstök náttúra. 

SI er félagsskapur fólks sem er annt um jörðina okkar, sem lætur sig annað fólk varða og er tilbúið að fórna sumarfríinu sínu í að gera eitthvað fyrir málstað sem þeim er hjartans mál með aðgerðum í stað nöldurs eins og greinin sem ég er að svara er marineruð í.

Allar aðgerðir eru til góðs, hvort heldur að það séu aðferðir SI, Náttúruvaktar, Bjarkar, Framtíðarlands, NSÍ eða annarra, það sem er frábært við að fólk er að gera eitthvað hvert í sínu horni er að það mun væntanlega ná til fleira fólks, því við erum jú harla ólík með ólíkar skoðanir og leiðir til að taka á móti upplýsingum. Allt miðar þetta að einni átt: að koma upplýsingum til almennings, svo fólk geti myndað sér upplýstar skoðanir og gert eitthvað sjálft til að sporna við þeirri hættu sem að náttúru okkar steðjar.

SI gefur út blað, heldur úti upplýsandi vef, heldur ráðstefnur, fær hingað fræðimenn og hleypir fersku blóði inn í umhverfisvernd hérlendis. Saving Iceland hefur einnig orðið til þess að við höfum fengið betri mynd af hvar við erum stödd varðandi mannréttindi og frelsi til að tjá okkur í orði sem og á borði. Það er eitthvað sem við ættum að skoða í kjölinn.

Náttúruvaktin