ágú 02 2008

Álversframkvæmdir á Húsavík í heildstætt umhverfismat

Síðasta Fimmtudag, 31. ágúst, ákvað Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra að gera þurfti heildstætt mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðs álvers Alcoa á Bakka við Húsavík, jarðvarmavirkjunum við Þeystareyki og Kröflu, og háspennulínum frá virkjununum til álversins. Í febrúar sl. ákvað Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar væru ekki háðar heildstæðu umhverfismati og í kjölfarið kærði Landvernd ákvörðunina.
Heildstætt umhverfismat gerir það að verkum að fólki gefst að sjá heildaráhrifin, þ.e. raunveruleg áhrif verkefnisins. Þórunn hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki einnig krafist þess að álversframkvæmdir í Helguvík færu í gegnum heildstætt umhverfismat, enda ljóst að til þess að afla því álveri Norðuráls orku þarf að eyðileggja einstök jarðhitasvæði á Reykjanesinu.

,,Því stærra, því betra!“
Upphaflega átælunin var að reisa 250.000 tonna álver, en um miðjan Júlí birti Alcoa tillögu að matsáætlun fyriri 346.000 tonna álver. Fyrirhugað er að álverið hefji starfsemi árið 2012. Í kjölfar breytinganna sagði Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands að til þess að reka svo stórt álver á Húsavík þyrfti virkjun á stærð við Kárahnjúkavirkjun, hugsanlega í Skjálfandafljóti og Jökulsá á Fjöllum.

Í Júní skrifuðu Össur Skarphéðinnsson, iðnaðarráðherra og fulltrúar Alcoa og Norðurþings undir viljayfirlýsingu um framlengingu á rannsóknum varðandi byggingu álversins og þær jarðvarmasvæði sem stefnt er að eyðileggja fyrir orkuframleiðslu. Undirskriftin fór fram bakvið luktar dyr, svo enginn veit hvað raunverulega stendur í samningunum.

Í viðtali vegna undirskriftarinnar sagði Berndt Reitan frá Alcoa að ef meiri orka finnist á Norðurlandi, myndi Alcoa hugleiða að reisa stærra álver; ,,Því stærra, því betra!“

Örvænting og hræðsla
Viðbrögð hagsmuna-aðila voru einstaklega örvæntingarfull. Friðrik Sóphusson, forstjóri Landsvirkjunnar og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls, sögðu báðir að ákvörðunin kæmi á óvart. En hvers vegna? Það er ekkert óeðlilegt að heildstætt mat sér gert á umhverfisáhrifum. Ef hver framkvæmd tengd starfsemi álvers fer í gegnum einstakt umhverfismat, er erfitt að gera sér grein fyrir því hver heildaráhrifin verða. Skýrsla sem segir að bygging álvers muni ekki hafa veruleg áhrif á umhverfið tekur ekki mið af þeirri eyðileggingu sem mun eiga sér stað vegna orkuöflunnar. Friðrik og Tómas virðast fyrst og fremst vera hræddir við að sannleikurinn komi í ljós

Bergur Elías Ágústsson, sveitastjóri Norðurþings, gekk svo langt að hóta því að Norðurþing muni fara með málið fyrir dómsstóla. Bergur sagði við Morgunblaðið að ,,ákvörðun ráðherra væri sorgleg og einnig hefði hún komið of seint.“

Það sem hins vegar er raunverulega sorglegt eru viðbrögð fyrrnefndra aðila; örvæntingin og hræðslan við að ákvörðun umhverfisráðherra leiði af sér að ekkert verði af framkvæmdunum. Friðrik Sóphusson tók það strax fram að jarðvarmavirkjanirnar á Norðurlandi verði reistar burtséð frá því hvort álverið verið byggt og þess vegna sé það ekki við hæfi að setja framkvæmdirnar undir sameiginlegt umhverfismat. Heildstæða umhverfismatið gæti hins vegar einnig varpað ljósi á neikvæð áhrif virkjananna og orðið til þess þær verði heldur ekki reistar. Við það er hann eflaust einnig hræddur.

Klofin ríkisstjórn
Geir H. Haarde, forsætisráðherra sagði að úrskurður Þórunnar þýddi alls ekki að stöðva þyrfti framkvæmdirnar í Norðri, heldur þyrftu ,,allir að leggjast á eitt um að hraða þessu máli og klára umhverfismatið, því það sé ekkert mikilvægara fyrir Íslendinga um þessar mundir en að auka verðmætasköpun í landinu og senda þau boð út í þjóðfélagið og til þeirra sem vilja fjárfesta á Íslandi, að hér sé vel tekið á móti þeim sem hafi slík áform.“ Þessi orð Geirs hljóma eins og orð örmagna fíkils sem vill bara einn skammt í viðbót. Skiptir engu máli hvaðan peningar koma inn í íslenskt samfélag? Eigum við virkilega að bjóða velkomin fyrirtæki sem ítrekað brjóta á mannréttindum (1)?

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagðist fullviss um að umhverfismatið muni ekki tefja framkvæmdirnar og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra var á sama máli. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, fullyrti að burtséð frá ákvörðun Þórunnar, standi stuðningur ríkisstjórnarinnar við byggingu álvers á Húsavík óhaggaður og bætti því við að hún muni ,,ekki seinka því að stóriðja rísi á Bakka um einn einasta dag.“

Valgerður Sverrisdóttir, formaður Framsóknarflokksins gekk svo langt að segja að úrskurðurinn sé ,,svik við Norðlendinga og Þingeyinga“ og vísar til þess að Össur Skarphéðinsson hafi lofað þeim að þeir yrðu ekki sviknir; álverið myndi rísa.

Á sama tíma og allt þetta gengur yfir sína nýjustu skoðanakannanir að fylgi við ríkisstjórnina fer sílækkandi og er nú rétt 50%. Frá því í Nóvember á síðasta ári, þegar fylgi hennar var tæp 80%, hefur það nú fallið all hrikalega. Gæti það nokkuð verið að stjóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og svikin loforð Samfylkingarinnar hafi eitthvað með það að gera?

Fagra Ísland aldrei raunverulegt?
Nú þegar stefnt er að því að reisa ný álver í Helguvík og á Húsavík, og að auka framleiðslu í álveri Rio Tinto-Alcan í Hafnarfirði, er alveg ljóst að þau passa ekki öll innan Kyoto sáttmálanns. Alcoa styður því heilshugar að Ísland sæki um undanþágu á Kyoto sáttmálanum þegar núverandi samningar renna út árið 2012. Álver með 346.000 tonna framleiðslu losar á hverju ári um 600.000 tonn gróðurhúsalofttegunda.

Ef svo fer að þessi nýju álver verða reist, er íslenska ríkisstjórnin langt á veg komin með að virkja hvern þann kost sem gefst til orkuframleiðslu; bara fyrir álframleiðslu. Svar Samfylkingarinnar við gagnrýni á frammistöðu sína varðandi umhverfisstefnu flokksins hefur verið á þá leið að hið svokallaða ‘stóriðjustopp’ sem flokkurinn talaði um í kosningabaráttunni hafi einungis snúið að glænýjum verkefnum; ríkisstjórnin geti ekki stöðvað verkefni sem voru þegar komin í undirbúning.

Ef ‘Fagra Íslands’ nær einungis yfir fyrirhuguð stóriðjuverkefni sem koma upp eftir stjórnarskiptin vorið 2007 er alveg ljóst að engar breytingar verða á stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Hugmyndir um byggingu álvera á Húsavík, Helguvík, Þorlákshöfn og stækkun í Hafnarfirði, komu allar fyrir stjórnarskiptin. Sömuleiðis samhliða hugmyndir um virkjun Þjórsár, jarðvarmasvæðanna á Reykjanesi, Hellisheiði og á Norðurlandi, virkjun Skjálfandafljóts, Jökulsár Austari og -Vestari í Skagafirði, Langasjós og Þjórsárvera. Að lokum hugmyndir um hugsanlega olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum.

Ef þessi verkefni ná fram að ganga, er bókstaflega ekkert eftir til að verja!

Ísland losar nú árlega 17 tonn gróðurhúsalofttegunda á haus á hverju ári, sem er umtalsvert hærra en í flestum öðrum löndum. Á meðan flestar þjóðir reyna að minnka losunina, stefnir ríkisstjórn Íslands þvert á móti hærra og hærra – þangað til blaðran springur.


Heimildir og tengdar fréttir:

(1) Sjá skýrslu The National Labor Committee frá 2007 um ógeðfelld mannréttindabrot í verksmiðju Alcoa í Hondúras, The Walmart-ization of Alcoa, http://www.nlcnet.org/article.php?id=447

Náttúruvaktin