Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Morgunblaðið – Eftir efnahagshrunið hefur umræðan um umhverfismál breyst. Stjórnmálamenn sem áður töluðu harkalega gegn orku- og stóriðjuframkvæmdum hafa nú snúist við með þeim formerkjum að umhverfisvernd sé velmegunarpólitík. Formaður Vinstri grænna kallar umhverfisstefnu flokksins hreintrúarhugmyndafræði sem eigi ekki við á þessum tímum. Þá hlýtur síðasta vígið að vera fallið – a.m.k. í huga þeirra sem trúa á umbætur innan fulltrúalýðræðisins.
Nú á að keyra í gegn álver í Helguvík með tilheyrandi orkuframkvæmdum. Fjölmargir, m.a. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, hafa sagt að ekki sé til orka á Reykjanesinu til að uppfylla orkuþörf álversins. Aðrir hafa bent á að virkjun jarðvarmasvæðanna sé svo stórtæk að þau komi til með að þorna upp á skömmum tíma. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist jákvæð gagnvart því að Landsvirkjun framleiði orku fyrir Helguvík – Þjórsá kemur strax upp í hugann. Hún er einnig til í að endurnýja viljayfirlýsingu vegna álvers á Bakka, sem samkvæmt áætlunum Alcoa krefst þess að jarðvarmasvæði Norðausturlands verði virkjuð og vatnsaflsvirkjanir reistar í einni eða fleiri jökulám.
Nýlegar skýrslur um áhrif stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf og arðsemi orkusölu til álvera, gefa til kynna að áróðurinn um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafi verið byggður á sandi. Í skýrslu um efnahagsleg áhrif stóriðju segir Indriði H. Þorláksson hagfræðingur: „Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Ætla má að skattgreiðslur meðalálvers séu um 1,2 milljarðar króna á ári. Það er einungis um 0,1% af þjóðarframleiðslunni.“ Í nýrri skýrslu sem gerð var af fjórum hagfræðingum að beiðni fjármálaráðherra kemur fram að sala á orku til stóriðju sé einfaldlega ekki efnahagslega arðbær.
Aðrar niðurstöður – t.d. ef orkusalan væri í raun arðbær – myndu án efa ekki hafa mikil áhrif á skoðanir margra umhverfissinna. En þessar niðurstöðurnar ýta undir málflutning þeirra sem hafa sagt stjórnvöld og fyrirtæki tengd stóriðjuvæðingunni beinlínis ljúga að almenningi um efnahagslega ávinninga framkvæmdanna. Það hefði svo sem ekki átt að koma neinum á óvart; titill auglýsingabæklings iðnaðarráðuneytisins, Lowest Energy Prices, segir allt sem segja þarf um orkusölu til stóriðju hér á landi.
Frekari álversframkvæmdirnar hér á landi eru tilraun til að halda lífi í ósjálfbæru efnahagskerfi sem byggist á hugmyndinni um sífella framleiðslu. Framleiðslu sem krefst þess að hráefni á borð við báxít – undirstöðuefni áls – sé sífellt grafið upp, flutt heimshálfa á milli, unnið í fjömörgum orkufrekum skrefum þangað til að á endanum verður til vara, tilbúin til neyslu.
Álverssinnar hér á landi hafa margir beitt kenningunni um eftirspurn og framboð sem rökum fyrir því að álframleiðsla fari fram; á meðan fólk kaupi ál þurfi að framleiða ál. Kenningin smellpassar við það neyslusamfélag sem við búum í en forsenda hennar er að eftirspurnin sé raunveruleg en ekki tilbúin. Neyslusamfélagið byggist á tilbúnum þörfum sem fólki er kennt að óska eftir. Stanslaus framleiðsla kapítalismans og samhliða ágengni gagnvart náttúrunni gengi ekki upp nema ef væri fyrir þessar fölsku þarfir. Þess vegna skiptir það sköpum að hugmyndafræði umhverfissinna sé byggð á andstöðu við offramleiðslu og -neyslu kapítalismans.
Gagnrýnin á álframleiðslu hér á landi hefur hins vegar oft á tíðum verið reist á mjög grunnri hugmyndafræði. Í stað þess að líta á áliðnaðinn sem einungis einn þátt hins flókna nets heimskapítalismans – og eina af undirstöðum hans – hefur verið horft á hann sem stakt fyrirbæri sem þurfi að leysa af hólmi. Orð eins og „grænn iðnaður“ hafa þannig orðið leiðandi í umræðu meginstraums umhverfissinna. En það er til önnur gagnrýnin sýn á stóriðjuframkvæmdir og umhverfisspjöll almennt.
Gagnrýni á stóriðjuframkvæmdir, byggð á djúpri vistfræði, þarf ekki að innihalda hugmyndir um eitthvað sem kemur í staðinn ef í staðinn þýðir annars konar iðnaður eða önnur umhverfisskaðandi starfsemi. Í staðinn kemur einfaldlega óspillt náttúra, sem er gífurlega nauðsynlegt plánetunni sem við búum á – ekki út frá fegurðarsjónarmiðum heldur vegna þeirrar staðreyndar að náttúran er forsenda lífs. Djúp vistfræði byggist á hugmyndinni um að maðurinn sé ekki æðri öðrum lífverum vistkerfisins heldur aðeins hluti þess og hafi því engan rétt til að ganga á það nema á alveg sjálfbæran hátt. Sjálfbærni er vandmeðfarið hugtak sem stjórnvöldum og stórfyrirtækjum hefur tekist að koma inn í tungumál sitt og þar af leiðandi haldið uppi lygum og blekkingum um raunverulega merkingu þess. Grundvallarhugmyndin um sjálfbærni er sú að ekki sé gengið harkalega á vistkerfið og að við skilum jafn miklu og við tökum frá því.
Að vernda náttúrunna, náttúrunnar vegna, hefur því ekkert með efnahagsástandið að gera. Að halda því fram að róttækar umhverfisverndarhugmyndir virki einungis þegar til er nægur peningur er mesta fjarstæða. Það er ekki eins og síðustu ár hér á landi hafi einkennst af hugmyndum um náttúruvernd.