sep 29 2008

Hræsni?

Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, upphaflega birt í Morgunblaðinu

„Veistu að hjólastólinn þinn er úr áli?“ sagði lögregluþjónn við einn þeirra sem stöðvuðu vinnu í Helguvík í sumar. Hann kaffærði rök álversandstæðinga fyrir fullt og allt, er það ekki? Eftir að grein Jakobs Björnssonar um Björk Guðmundsdótur og álnotkun hennar birtist í Morgunblaðinu tók ritstjórn blaðsins sig til og skrifaði Staksteina þar sem sagt er að flestir álversandstæðingar séu líklega ekki samkvæmir sjálfum sér. Flestir noti þeir ál dags daglega og meira að segja Saving Iceland eldi í álpottum og noti álstangir til að halda uppi tjöldum sínum. „Hræsni,“ sagði Mogginn.

Þessi gagnrýni er ekki ný. Hún hefur markvisst verið notuð gegn þeim sem eru mótfallnir frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi, eyðileggingu íslenskrar náttúru fyrir orkuframleiðslu og vistkerfa út um allan heim vegna báxítgraftar, og orkusölu til fyrirtækis sem montar sig af samstarfi sínu við bandaríska herinn. Auk þess þegar álversandstæðingar eru ásakaðir um að vilja færa íslenskt samfélag aftur til torfkofanna og byggja efnahag landsins á fjallagrasatínslu, hefur þessi gagnrýni verið sú fyrirferðarmesta. Sama hversu oft er búið að benda á þá staðreynd að a.m.k. 30% af áli eru framleidd fyrir hergagnaiðnaðinn (og þá skiptir engu hvort álfyrirtækið sjáft framleiðir vopnin eða ekki); sama hversu oft búið er að segja frá því hversu mikið ál endar sem landfylling eftir að hafa gegnt hlutverki sínu sem einnota drykkjarílát; þó búið sé að benda á samhengið milli lágs orkuverðs og þess hversu auðvelt það er fyrir okkur að framleiða ál, nota einu sinni, henda því svo og framleiða meira; ennþá er okkur sagt að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm.

Svo er hamrað á því, nú síðast í leiðara DV 9. sept., að það sé siðferðileg skylda okkar Íslendinga að drekkja hálendinu og rústa jarðhitasvæði fyrir orkufreka álframleiðslu; það sé okkar umhverfisverndarinnlegg. Ef álfyrirtækin fái ekki að byggja álver hér á landi verði þau bara byggð annars staðar og keyrð áfram á óumhverfisvænni hátt. Hvílíkt kjaftæði! Alcan vill nú auka framleiðslu sína í Straumsvík, helst stækka álverið og byggja fleiri álver hér á landi. Á sama tíma ætlar Alcan að byggja álver á skattfrjálsu svæði í Suður-Afríku og öllum að óvörum verður álverið keyrt áfram á kolum og kjarnorku. Orkuverðið skiptir öllu máli, ekki umhverfið. Álframleiðsla verður aldrei umhverfis- eða mannúðarvæn.

Í Orissa-héraðinu á Indlandi búa ættflokkar sem hafa alla tíð lifað í samlyndi við umhverfi sitt. Vistfræðilegt fótspor þeirra sést varla, á sama tíma og lífsstíll hinna „þróuðu“ Vesturlandabúa er svo skaðlegur að nokkrar plánetur í viðbót þyrfti til ef allir jarðarbúar ættu að hljóta þessi „lífsgæði“ okkar. Ættflokkarnir búa við og í fjöllunum en eru svo „óheppnir“ að búa bókstaflega á hráefnisparadís áliðnaðarins. Barátta þeirra gegn eyðileggingu landsins síns fyrir báxítgröft hefur staðið yfir í langan tíma og hefur hingað til verið friðsamleg, innan ramma laganna. Viðbrögð yfirvalda og hagsmunaaðila hafa hins vegar verið ofbeldisfull, m.a. leitt til dauðsfalla. Nú hefur hæstiréttur landsins dæmt námufyrirtækinu Vedanta í hag. Menningarleg þjóðarmorð eru á næsta leiti. Andri Snær Magnason svaraði greinum Jakobs og ritstjórn Morgunblaðsins og spurði „Hvenær er komið nóg?“ Og Jakob var fljótur að svara: „Þegar meirihluti kjósenda á Íslandi hefur með atkvæði sínu í þingkosningum ákveðið að nóg sé komið. Fyrr ekki.“

En staðreyndin er önnur. Hnattrænt ferli og áhrif álframleiðslu ná langt út fyrir Ísland. Það er ekki einkamál okkar Íslendinga hvort ál sé framleitt, báxít grafið, samfélög þurrkuð út og vistkerfi lögð í rúst. Og jafnvel þó svo væri getum við rifjað upp hvað gerðist í aðdraganda og kjölfar alþingiskosninganna vorið 2007. Samfylkingin mætti til leiks með umhverfisstefnu sína „Fagra Ísland“ og boðaði stóriðjustopp til fimm ára. Nú u.þ.b. einu og hálfu ári seinna hafa ráðherrar flokksins lýst yfir stuðningi við tvö ný álver og samhliða virkjun jarðhitasvæða og jökuláa; tekið skóflustungur að álverum og skrifað undir samninga bak við lokaðar dyr. Allt í boðið lýðræðisins!

Það er komið meira en nóg! Það þarf ekki að framleiða meira ál. Það þarf ekki að grafa upp meira báxít og útrýma fleiri frumstæðum samfélögum. Það þarf ekki að framleiða fleiri „grænar“ sprengjur, ekki fleiri létt hertæki sem drepa samt jafn vel og þau þungu, ekki fleiri „umhverfisvæna“ bíla, ekki fleiri endurvinnanlegar bjórdósir. Það þarf ekki að virkja fleiri ár, drekkja fleiri fossum, slóðum hreindýra og friðlöndum. Það þarf ekki að senda út fleiri „Lowest Energy Prices“ bæklinga, skrifa fleiri skýrslur um ímyndarsköpun Íslands og halda fleiri „Pure Energy“ landkynningarhátíðir. Það þarf að ýta á stopp.

Þessi grein var skrifuð í tölvu. Hræsni? Ætti ég kannski í stað þess að skrifa greinar um skaðsemi álframleiðslu, að flytja upp í fjöll Orissa-héraðsins og berjast gegn stórfyrirtækjum og yfirvöldum með prikum og steinum? Vera svo drepinn fyrir það eitt að vilja vernda jörðina og íbúa hennar?

Náttúruvaktin