Í Fréttablaðinu sl. laugardag tjáði Gylfi Arnbjörnsson, sem ku víst vera kjörinn til þess að vera málsvari verkafólks, þá skoðun sína að nái álversframkvæmdir í Helguvík ekki fram að ganga muni fjárlög og þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar vera í uppnámi. Þetta er enn eitt dæmið um hræðsluáróðurinn sem dynur á okkur þess efnis að álver og önnur mengandi stóriðja sé eina leiðin til þess að bjarga efnahagnum og skapa störf.
Hvað í andskotanum eru fjárlög?
Orð líkt og fjárlög og þjóðhagsáætlun eru löng og flókin og fær mann til að finnast þessi atriði vera mikilvæg og þörf. Í raun eru þetta áætlanir, sem ríkisstjórnin setur fram út frá tilteknum forsendum á tilteknum tíma. Svartsokku þykir undarlegt að breytist þessar forsendur, eða séu mál könnuð til hlítar og að því loknu litin öðrum augum, geti ríkisstjórnin ekki endurskoðað áætlun sem hún setur sjálf fram[1]. Til að mynda hefur komið fram eftir að ríkisstjórnin lýsti því yfir að haldið yrði áfram með álver í Helguvík, að ekki sé til nægileg orka á Suðvesturhorninu til að knýja álbræðsluna. Í því tilfelli mun því líklega verða leitað til Landsvirkjunar, sem vegna mikillar andstöðu almennings við álver var búin að setja fram áætlun um að virkja ekki meira fyrir slíka stóriðju. Má Landsvirkjun snúa baki við áætlunum en ekki stjórnvöld? Til viðbótar við þetta má nefna að Ísland er víst búið að gera áætlun um að losa ekki út meiri koltvísýring en orðið er, því ella brjóti það alþjóðlegar áætlanir um losun gróðurhúsalofttegunda. Er í lagi að brjóta þær áætlanir?
Til hvers er verkalýðsbarátta?
Þessi ummæli, og að því er virðist einarðleg afstaða formanns verkalýðssambands með atvinnurekendum og gegn fólki og náttúru, vekja upp spurningar Svartsokku um tilgang verkalýðsbaráttu nútímans á skeri líkt og þessu. Svartsokka hefur alla jafna frekar jákvæða afstöðu til verkalýðsbaráttu, enda er hún yfirlýstur andstæðingur arðráns og ójöfnuðar. Ósjaldan hefur hún fyllst reiði yfir afdrifum verkafólks sem víða er drepið fyrir það eitt að nýta sér rétt sinn til samkomu og krefjast betri vinnuaðstæðna. Því fyllist hún líka reiði yfir því að forystufólk verkalýðs hér á landi hugsi um það eitt að viðhalda óréttlátu kerfi þar sem hinir ríku græði á kostnað annarra, að hugsun þeirra nái ekki lengra en svo að koma efnahagslífinu aftur af stað til þess að við getum haldið áfram að keyra um á jeppum og vera með milljón á mánuði.
Landamæri loka okkur sýn
Ef verkalýðsforysta á Íslandi hefði einhvern tímann sest niður og lesið Kommúnistaávarpið, hefði hún fyrr eða síðar rekist á setninguna: „Öreigar allra landa sameinist!“, en það virðist hún ekki hafa gert, því þá væri afstaða hennar til stóriðju og heimskapítalisma líklega öðruvísi. Hvaða áhrif hefur stóriðja á Íslandi á hag verkafólks almennt, en ekki bara á Íslandi?
Meiri álbræðsla á Íslandi mun þýða meiri báxítvinnslu í löndum á borð við Ástralíu, Guineu og Jamaicu. Einn fimmti af ræktunarlandi á Jamaica er í eigu Báxítfyrirtækja og þar hefur báxítvinnsla eyðilagt stór landsvæði og gert fólki ókleift að rækta matvæli sér til lífsviðurværis. Því hefur fólk ekki aðra úrkosti en að vinna í báxítnámunum, þar sem það er á algjörum lágmarkslaunum. Þar hefur verkalýðsbarátta því miður farið í svipað far og hér, að öllu skipti að næla sér í bita af kökunni og viðhalda störfum, þó það feli í sér mengun og eyðileggingu landsins og mannlegs samfélags[2].
Forsætisráðherra Jamaica hrósaði verkafólki nýlega fyrir að ná fram meti í báxítframleiðslu, eftir að Alcoa hótaði að leggja hana af. Þetta sagði hann bera vitni um dugnað jamaíkönsku þjóðarinnar[3]. Hann tók það hins vegar ekki fram að þessu fólki væri ekki boðið upp á aðra úrkosti en þá að vinna í þessari verksmiðju, ella hefði það ekkert í sig og á, enga möguleika á að stunda ræktun matvæla því landið hefði verið tekið af þeim, né möguleika á að flytja úr landi, nema til að vera ólöglegir innflytjendur og vinna við bágar aðstæður annars staðar. Hvaða val hafði þetta fólk annað en að auka afköstin þó það þýði ekkert annað en meira arðrán?
Á Íslandi búum við (sem betur fer) ekki við aðstæður þar sem 20% ræktarlands er í eigu stórfyrirtækja, og víða er mögulegt ræktarland ekki nýtt. Er þar ekki að finna atvinnutækifæri? Á sama tíma og stórfyrirtæki fá ódýra raforku hækkar verðið á henni til grænmetisbænda. Ef mengandi stóriðja myndi borga meira fyrir raforkuna, en matvælaframleiðsla minna, myndi þá ekki skapast svigrúm fyrir atvinnusköpun? Við höfum aðra möguleika á að skapa störf sem fólk víða annars staðar, líkt og á Jamaica, hefur ekki.
Hættum að hugsa í lokuðum boxum stóriðju og landamæra!
[1] Tekið skal fram að Svartsokka skilur almennt ekki áætlanir, né lög og reglur, sem einungis virðast til svo að fólk flæki sig í þeim og missi sjónar á upprunalegum tilgangi þeirra. Hún viðurkennir þó rétt fólks sem fátt dýrkar meir en regluverk til þess að vera ósammála þessu.
[2] Jamaica: Corporate exploitation by the bauxite ore industry
[3] Government of Jamaica: Clarendon bauxite workers are world leaders
Þessi grein er tekin af anarkistavefnum svartsokka