Fyrir nokkrum árum fóru námufyrirtækin í auknu mæli að beina sjónum sínum að auðlindum á Grænlandi. Nú, þegar liðið er á annað ár frá því Grænlendingar fengu sjálfræði yfir auðlindum sínum, æsast leikar og hreint út sagt skuggalegar hugmyndir um félagsleg undirboð eða „social dumping“ skjóta upp kollinum. Alcoa er meðal þeirra fyrirtækja sem horfa til Grænlands í leit að ódýrri orku. Ódýr orka ein og sér virðist hins vegar ekki duga til þess að standa undir fjárfestingunni og nú verður vart við þrýsting um að grænlensk stjórnvöld setji löggjöf til að rýra starfskjör á uppbyggingartímanum þannig að hægt verði að láta t.d. kínverska iðnaðar- og verkamenn vinna á kínverskum kjörum. Til upprifjunar er rétt að minna á að hér á landi fóru menn sínu fram í þessum efnum án lagastoðarinnar sem sóst er eftir í Grænlandi, sbr. meðferð Impregilo á erlendum verkamönnum við Kárahnjúka, og mátti Landsvirkjun vita að það yrði tilfellið þegar tilboðinu var tekið.
Samkvæmt úttekt í grænlenska vikublaðinu Sermitsiaq eru fjárhagslegar forsendur Alcoa verkefnisins á Grænlandi ekki fyrir hendi að óbreyttu og því þrýsti fyrirtækið á um gróf félagsleg undirboð. Í úttektinni liggja m.a. til grundvallar tölur frá nýjasta álveri Alcoa, þ.e. álverinu á Reyðarfirði, og er komist að þeirri niðurstöðu að verði vinnumálalöggjöfin látin standa óbreytt sé verkefnið ekki arðbært.
Grænlenska ríkisstjórnin stofnaði hlutafélagið Greenland Develoment til þess fylgja hugmyndum áliðnaðarins eftir. Á heimasíðu þess fær álbransinn gott pláss til þess að fegra ásýnd sína en hvorki tókst mér að finna þar neitt um hugmyndirnar sem uppi eru um félagsleg undirboð né um meðferð iðnaðarins á frumbyggjum (t.d. á Indlandi) og enn síður er þar fjallað um náttúruspjöllin sem fylgja námuvinnslunni. Námuvinnslan felur í sér að vistkerfum, oft regnskógum, er flett ofan af landinu (strip mining) og súrálið skilið frá jarðveginum með vítissóta svo úr verða nokkur tonn af eitruðum úrgangi (red mud) fyrir hvert tonn sem framleitt er af áli. Í úttektinni í Sermitsiaq kemur fram að fyrirtækið sæki sinn fróðleik gagnrýnislaust til Alcoa og saman leggi þessir tveir aðilar línurnar í málinu. Ríkisfyrirtækið sé „rófan sem Alcoa dillar“ og þar á bæ sé hugmyndum um félagsleg undirboð gefið undir fótinn.
Leyndarhyggjan sem Landsvirkjun skýldi sér á bak við þegar spurt var um orkuverð hér á landi er líka ríkjandi á Grænlandi. Hér leiddi leyndarhyggja Landsvirkjunar og kjördæmapot þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, til þess að gerður var samningur um lágt raforkuverð, líklega það lægsta í Evrópu, til 40 ára. Fyrrverandi forstjóri Alcoa, Alain Belda, sagði orkuverð á Íslandi helmingi lægra en í Brasilíu en Alcoa segir ummæli forstjórans „ónákvæm“. Opinberar tölur sem síðan hafa komið fram skjóta hinsvegar stoðum undir fullyrðingu forstjórans því meðalverð á orku til álvera á Íslandi er u.þ.b. 25% lægra en meðalverðið sem áliðnaðurinn þarf að greiða á heimsvísu. Áhugi áliðnaðarins á Grænlandi verður ekki útskýrður með öðrum hætti en þeim að Grænlendingar séu til viðræðna um enn lægra raforkuverð en við höfum látið okkur lynda og að þeir séu jafnvel til viðræðna um félagsleg undirboð – lesist: þrælahald – á uppbyggingartímanum.
Fyrst birt á Smugan.is