apr 24 2011

Landsvirkjun heimtar sátt um 14 virkjanir

Róstur.org

Á nýafstöðnum ársfundi Landsvirkjunar tilkynntu forsvarsmenn fyrirtækisins fyriráætlanir um að byggja fjórtán virkjanir víðs vegar um landið á næstu fimmtán árum. Um er að ræða bæði vatnsafls- og jarðhitavirkjanir og vill fyrirtækið beisla orku í neðri Þjórsá, Tungnaá, Hólmsá og Blöndu, við Þeistareyki, Kröflu og Bjarnarflag, og í Hágöngum. Þessar áætlanir koma eflaust fáum á óvart en fyrr í sömu viku og ársfundurinn fór fram sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, í fyrirspurnartíma á Alþingi að ný Kárahnjúkavirkjun væri á teikniborðinu.

Akkílesarhæll Landsvirkjunar þessa stundina er Rammaáætlun um nýtingu og vernd náttúruauðlinda en eins og Hörður Árnason, forstjóri fyrirtækisins, sagði frá á kynningarfundi í Háskóla Íslands í liðinni viku eru öll verkefnin, að Búðarhálsvirkjun undanskilinni, háð útkomu rammaætlunar. Svipaða sögu hefur Ragna Sara Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, haft að segja um fyrirhugaðar virkjanir fyrirtækisins í neðri Þjórsá en Róstur hafa síðustu mánuði ítrekað kallað eftir svörum varðandi þær áætlanir, þá sérstaklega hvort þær séu ætlaðar til raforkuframleiðslu fyrir álver Norðuráls í Helguvík. Ragna segir enga samninga hafa verið gerða um sölu á orku úr Þjórsárvirkjununum þremur, við Urriðafoss, Holt og Hvamm, og sökum þess að niðurstöður rammaáætlunar liggja enn ekki fyrir sjái fyrirtækið enga ástæðu til að ræða við mögulega kaupendur. Eins og kunnugt er tilkynnti Landsvirkjun fyrir ekki svo löngu að fyrirtækið myndi ekki framleiða orku fyrir frekari álversframkvæmdir á suð-vesturhorni landsins.

Af fyrrnefndum kynningarfundi í Háskólanum að dæma er hins vegar ljóst að forsvarsmenn Landsvirkjunar eru ásamt hugmyndinni um sæstreng til Evrópu langspenntastir fyrir frekari orkuframleiðslu fyrir áliðnaðinn. Þar sagði Magnús Bjarnason, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, að ef fyrirtækið væri nýtt og að festa rætur væri nokkuð ljóst að áliðnaðurinn yrði meginviðskiptavinur þess. Þessa staðhæfingu sína byggði hann í því sem hann sagði vera mikinn uppgangur iðnaðarins um allan heim og þá sér í lagi meðal kínverskra álframleiðenda.

Magnús sagði einnig frá svokölluðum grænum vottorðum sem Landsvirkjun kemur til með að geta hagnast af í tengslum við allar framtíðarvirkjanir fyrirtækisins. Vegna 2020-markmiða Evrópusambandsins er líklegt að fjöldi evrópskra fyrirtækja muni á næstu níu árum, og þá sérstaklega undir lok áratugsins, fjárfesta í vottorðum frá Landsvirkjun. Vottorðin eru nokkurs konar syndaaflausn fyrir fyrirtæki hverra starfsemi fellur ekki undir skilgreiningar Evrópusambandsins um hvað sé umhverfisvænt og grænt. Ekki ólíkt mengungarkvótunum sem nú ganga kaupum og sölum um víða veröld felst hugmyndin í því að fyrrnefnd fyrirtæki, sem ekki falla undir græna stimpilinn, geta keypt vottorð frá fyrirtæki sem fellur undir hann. Fullyrti Magnús að Landsvirkjun myndi hlotnast græn vottorð fyrir virkjanir framtíðarinnar sem svo mætti selja með ofangreindum hætti.

Orðræðan sem upp á síðkastið hefur verið beitt af forsvarsmönnum Landsvirkjunar jafnt sem stjórnvöldum gefur til kynna að ná megi sátt um virkjanastefnu í landinu. Á sama tíma og Landsvirkjun tilkynnti fyrirætlanir sínar um fjórtán virkjanir tala þessir aðilar um nauðsyn þess að ná fram sátt. Flestum er minnugt að aldrei náðist nein sátt um Kárahnjúkavirkjun heldur þvert á móti klauf hún íbúa landsins í tvær stríðandi fylkingar. Ljóst er að áætlanir um í það minnsta nýja Kárahnjúkavirkjun, eins og Katrín Júlíusdóttir kallar áform Landsvirkjunar, verða aldrei framkvæmdar í sátt og samlyndi.

Þessi nýlenska virðist vera hluti af ímyndarherferð Landsvirkjunar sem staðið hefur yfir frá og með starfslokum Friðriks Sophussonar, fyrrum forstjóra fyrirtækisins, í ársbyrjun 2010. Hluti af herferðinni fólst í því að víkja Þorsteini Hilmarssyni, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins til rétt tæpra tveggja áratuga, frá störfum og ráða Rögnu Söru Jónsdóttur í hans stað. Þannig var eldri manni skipt út fyrir yngri konu – skref sem ekki einungis felur í sér andlitslyftingu og yngingu heldur fullnægir einnig stöðugt háværari kröfum samtímans um sterkari stöðu kvenna í atvinnulífinu. Nýlega var svo Ragna Árnadóttir, fyrrum dómsmálaráðherra og vinsælasti ráðherra ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, ráðin í starf skrifstofustjóra Landsvirkjunar.

Í miðri ræðu Harðar á fundinum í Háskólanum stóðu tveir menn upp og hengdu upp borða með áletruninni Sjálfbær eyðilegging og bauð Hörður þá í kjölfarið velkomna og sagði öðrum gestum að þessir væru komnir til að tjá sína skoðun. Hann gaf þannig af sér þá mynd að hann tæki gagnrýni vel og vildi leyfa fjölbreyttum skoðunum um deiluefni á borð við virkjanaframkvæmdir að heyrast. Það var þó einn helsti punktur gagnrýni mannanna tveggja, sem afhent höfðu fundargestum dreifimiða við upphaf fundarins, að á fundinum, sem skipulagður var af Landsvirkjun í samstarfi við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, hafi engum andmælanda verið boðið að tjá sig. Sögðu þeir þetta brjóta algjörlega gegn hlutverki Háskólans sem hlutlausrar menntastofnunar og vettvangs fyrir upplýsta umræðu. Það kom einnig fram í ræðu annars mannsins sem í spurninga- og svaratímanum sem átti sér stað eftir ræður þeirra Landsvirkunarmanna stóð upp og sagðist krefjast þess að fá tíma til að koma andstæðum sjónarmiðum á framfæri við fundarmenn. Eftir nokkrar tilraunir fundarstjóra og fundargesta til að koma í veg fyrir að honum tækist ætlunarverk sitt gáfust þeir þó upp og fékk hann að klára mál sitt óáreittur. Róstur fengu hjá honum ræðuna í fullri lengd og gott betur, og má lesa hana hér.

Vorið 2009 héldu íslensk orkufyrirtæki kynningar á Háskólatorgi á vegum GAIA, félags nemenda í umhverfis- og auðlindafræði. Fyrir vikið fengu kynningarfulltrúar fyrirtækjanna á sig grænt skyr.

 

Náttúruvaktin