Sigmundur Einarsson jarðfræðingur
Í gær var kynnt ný hagspá hagdeildar Alþýðusambands Íslands undir fyrirsögninni Doði framundan nema til komi alvöru fjárfestingar. Þar er lýðnum gert ljóst að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar muni ekki batna nema reist verði álbræðsla í Helguvík og að til komi stóriðja á Norðurlandi. Ella skulum við eta það sem úti frýs.
Í Fréttablaðinu í morgun bætir Kristján G. Gunnarsson verkalýðsforingi á Suðurnesjum um betur og heimtar að nátttröllin vakni. Þeim orðum virðist hann beina til fjármálaráðherra. Kristján vitnar í eina af mannvitsbrekkum alþingis, nafna sinn Möller, sem ku hafa sagt á íbúafundi suður með sjó nýlega að allt væri tilbúið til framkvæmda í Helguvík og það eina sem vantaði væri að ganga endanlega frá orkusölumálum. Ljóst væri að þar þyrfti aðkomu Landsvirkjunar.
Það er einfalt að gera sig breiðan fyrir framan kjósendur með slíkum fullyrðingum. Vandinn er sá að bæði hagdeild ASÍ og þeir nafnar eru hér að gapa um mál sem þeir hafa sýnilega ekki kynnt sér.
Álbræðsla á Bakka úr sögunni
Nýlega var álbræðsla á Bakka slegin af. Mikilvægt er að skoða þær ástæður sem liggja að baki þeirri ákvörðun Alcoa. Til stóð að reisa álbræðslu með 346 þús. tonna ársframleiðslu sem þarf um 580 MW af rafafli. Ef mig misminnir ekki hefur Alcoa ætíð sagt að bræðslan yrði ekki reist nema þessi 580 MW væru tryggð en á undanförnum árum hafa aldrei verið settar fram áætlanir um svo mikla orkuframleiðslu vegna verkefnisins. Staða orkuöflunar á svæðinu er sem stendur þannig að Landsvirkjun undirbýr nú 100 MW virkjun á Þeistareykjum og 90 MW virkjun í Bjarnarflagi. Þá hefur orkuöflun fyrir frekari virkjanir á Kröflusvæði brugðist í meginatriðum. Því er líklegast að á Norðausturlandi verði á næstu árum virkjaður innan við þriðjungur af orkuþörf álbræðslunnar. Þessi niðurstaða er á engan hátt óvænt og hefur í stórum dráttum blasað við allt frá útgáfu viljayfirlýsingar Valgerðar & félaga árið 2006 en ætti nú að vera orðin flestum auðskilin þó svo að hún eigi sýnilega ekki greiða leið inn í kollinn á ýmsum þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum.
Álbræðsla í Helguvík – hugarfóstur úr glæstri fortíð
Enn hafa aðstandendur álbræðslu í Helguvík ekki gefist upp þótt staðan virðist löngu töpuð. Hver skyldi vera skýringin á þessari þrautseigju? Í Helguvík er staðan nokkuð flóknari en á Bakka, þ.e. orkuframboðið er ennþá minna og bygging bræðslunnar löngu hafin. Um tíma var ætlunin að reisa álbræðslu með 360 þús. tonna ársframleiðslu en í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum var miðað við 250 þús. tonn og 435 MW af rafmagni. Orkuöflun var óljós frá upphafi en Norðurál, Hitaveita Suðurnesja (síðar HS-Orka) og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu viljayfirlýsingu um orkuöflun árið 2006. Eini samningurinn um orkukaup var gerður árið 2007 við Hitaveitu Suðurnesja um útvegun allt að 150 MW fyrir fyrsta áfangann og var stefnt að afhendingu árið 2010.
En hvernig skyldi hafa gengið að afla orkunnar? HS-Orka átti að afhenda 150 MW fyrir árslok 2010 en þar er ekki svo mikið sem eitt kílóvatt á leiðinni. Eftir mikla baráttu hefur HS-Orku tekist að svæla út úr Orkustofnun heimild til 50 MW stækkunar Reykjanesvirkjunar auk 30 MW vinnslu úr affallsvatni. Eftir að leyfið fékkst hefur forstjóri HS-Orku lýst því yfir að fyrirtækið skorti fé til stækkunarinnar en útlendur aðaleigandi þess virðist ekki tilbúinn í fjárútlát. Nú virðist fyrirtækið horfa til lífeyrissjóðanna sem nýlega voru plataðir til að kaupa fjórðungs hlut í HS-Orku. Stækkunin snýst um samtals 80 MW en sem fyrr segir átti HS-orka að afhenda 150 MW fyrir síðustu áramót. Að auki hafa HS-Orka og Norðurál deilt um orkuverð og er það mál nú fyrir gerðardómi í Svíþjóð. Frekari orkuöflun er ekki á döfinni hjá HS-Orku en sagnir eru á kreiki um að fyrirtækið reyni nú að fá bæjaryfirvöld í Hafnarfirði til að gefa eftir nýtingarleyfi á jarðhitasvæðinu í Krýsuvík. Óljóst er þó hvort þar leynist nægileg orka til að reka orkuver.
Samkvæmt viljayfirlýsingunni frá 2006 ætlaði Orkuveita Reykjavíkur að álbræðslunni a.m.k. 200 MW sem áttu að því er virðist að koma frá Bitruvirkjun (135 MW) sem ekki er lengur á dagskrá og frá Hverahlíðarvirkjun (90 MW) sem er komin í langa biðstöðu. Samkvæmt þessu er engin tiltæk orka fyrir álbræðslu í Helguvík nema þau 45 MW sem samkvæmt nýlegum fréttum standa útaf eftir síðustu stækkun Hellisheiðarvirkjunar. Það vantar ennþá 390 MW og jafnvel þó 80 MW bætist við frá Reykjanesvirkjun vantar enn 310 MW.
Gengið í gildruna
Norðurál hefur beitt því bragði hefja byggingu álbræðslunnar og vekja með því væntingar Suðurnesjamanna, vitandi að orkuöflun var komin í hnút. Grunnhyggnum íslenskum stjórnmálamönnum var síðan ætlað að bíta á agnið og redda orkunni með því að skipa Landsvirkjun að virkja í neðri hluta Þjórsár (liðlega 200 MW) og selja Norðuráli orku á verði sem álbræðslan getur sætt sig við. Fulltrúar ASÍ og Kristjánar þessir tveir eru steinblindir og sjá ekki gildruna. Enn og aftur vilja menn púkka undir svo kallaða erlenda fjárfestingu með niðurgreiddri orku á kostnað almennings í landinu en það er hann sem er eigandi Landsvirkjunar. Viljum við að Landsvirkjun fari sömu leiðina og Orkuveita Reykjavíkur, lóðbeint á hausinn. Nei takk.
Hverjir eru nátttröll?
Greinin birtist fyrst á Smugan.is
Maður hefur séð þessa ágætu vefsíðu benda á margt af þessu áður, til dæmis hér:
https://www.savingiceland.org/2011/02/the-thjorsa-farce-continues-are-the-dams-planned-for-aluminium-production/