Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.
Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu.
Ísland er einnig viðriðið innflytjendastefnu Evrópusambandsins sem innan tveggja ára mun setja í gang gríðarstórt gervihnattaeftirlitskerfi, EUROSUR. Kerfið felur meðal annars í sér notkun loftfara og vinnur saman með „Smart Border“ kerfinu svokallaða sem fylgist með ferðum fólks yfir landamæri með greiningu líffræðilegra sérkenna og annarri svipaðri tækni. Á sama tíma hefur Evrópusambandið gert breytingar á Schengen landamærasamstarfinu sem Ísland á sömuleiðis þátt í, en samkomulagið var eitt af mikilvægustu skrefunum í átt af frjálsum ferðum fólks innan Evrópusambandsins. Nú hafa hins vegar Frakkland og Þýskaland aukið landamæraeftirlit á ný, meðal annars til að hindra ferðir alþjóðlegra andófshópa og til að halda löndum á borð við Grikkland undanskildum samkomulaginu. Ísland notar einnig slíkar aðferðir, til dæmis við að stjórna ferðum mótorhjólaklúbba.
Til að hindra komu óvelkominna innflytjenda yfir Evros ánna milli Grikklands og Tyrklands er nú í gangi rannsóknarverkefni á vegum Evrópusambandsins í tengslum við notkun vélmenna við landamæraeftirlit. Landamærastofnun Evrópusambandsins, FRONTEX, sem íslenska landhelgisgæslan hefur starfað fyrir í Miðjarðahafi, aðstoðar nú tyrknesk stjórnvöld við að koma fyrir lögreglu- og tollgæslustöð við landamæri Tyrklands, Búlgaríu og Grikklands. Í fyrsta sinn kemur evrópska lögreglustofnunin EUROPOL að slíku starfi en venjulega tekur stofnunin ekki þátt í baráttunni gegn innflytjendum.
Á hinn bóginn verður helsta verkefni EUROPOL nú eftirlit með svokölluðum „netglæpum“ og „nethryðjverkum“. Stofnunin býr yfir gríðarstórum gagnagrunnum og miklu magni stafrænnar rannsóknartækni sem notuð eru til að styðja við þverlandamæralegar aðgerðir lögregluembætta allra meðlimaríkja Evrópusambandsins. EUROPOL fylgist nú í auknu mæli með meintri „grunsamlegri“ hegðun á vefnum — þróun sem krefst aukins öryggis internet-aktívista sem og almennra borgara.
Í erindi sínu mun Monroy greina frá þróun þessara mála innan Evrópusambandsins, leynilegum lögregluaðgerðum gegn andófshópum, baráttunnni gegn óvelkomnum innflytjendum og auknu eftirliti í netheimum. Monroy mun einnig skýra frá því hvernig Ísland er viðriðið yfirstandandi aðgerðir og framtíðaráætlanir Evrópusambandsins í þeim efnum, sem og hvaða áhrif þær hafa nú þegar haft eða koma til með hafa hér á landi.
Erindið fer fram mánudaginn 23. júlí kl. 20:00 í Reykjavíkur Akademíunni sem er til húsa í JL Húsinu, Hringbraut 121, 107 Reykjavík. Erindið fer fram á ensku og aðgangur er ókeypis.
Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við Saving Iceland: savingiceland [at] riseup.net
Safn frétta og greina Saving Iceland um mál Mark Kennedy
Sólveig Anna Jónsdóttir:
“á fyrirlestri í gær var margt fróðlegt rætt! bara ef skólinn hefði verið svona í gamla daga!”
“Ég fór á fyrirlestur áðan og heyrði í þýska blaðamanninum og aktívistanum Matthias Monro. Hann sagði frá hinu og þessu fréttnæmu, aðallega af meginlandinu og svo frá njósnaranum Mark Kennedy sem hjálpaði íslenskum yfirvöldum og ýmsum öðrum að passa uppá að hyski í ljótum fötum væri ekki að eyðileggja lýðræði alþjóðlegra stórfyrirtækja. Sem er, eins og allir vita, mikilvægasta lýðræðið í öllum heiminum. The Jeebus hath decreed it, svo á himni sem á jörðu: henni sem var sköpuð til að eyðast í stórfenglegasta klímax sólkerfisins, þegar herra og frú auðvald innsigla fullkomið og algjört hegemony og sagan endar, amen.”
http://blogg.smugan.is/sollaaj/2012/07/24/ert-thu-tilbuin-til-ad-hlyda/
Matthias Monroy í Speglinum í dag: http://www.ruv.is/frett/ras-1/fyrir-hverja-vann-flugumadurinn