Archive for 2003

apr 12 2003

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum


Andri Snær Magnason
Morgunblaðið
Laugardaginn 12. apríl, 2003

Þjóðin hefur eignast nýjan ríkisfjölmiðil. Þetta er frétta- og upplýsingavefur sem heitir star.is og er rekinn af iðnaðarráðuneyti, Landsvirkjun og fleiri aðilum sem mynda STAR, opinbera undirbúningsnefnd fyrir virkjun og álver fyrir austan. Ef menn opna star.is og velja „allar fréttir“ kemur í ljós að hann lýtur einkennilegum lögmálum. Hér er dæmi: „Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum“. Undir fyrirsögninni er birt opið bréf sem á að „vekja athygli á þeirri lygaþvælu sem spunnin er gegn virkjuninni við Kárahnjúka“. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur er sakaður um „lygar“ þegar hann bendir á tengsl Kárahnjúkavirkjunar við mögulega virkjun Jökulsár á Fjöllum. Lygar Guðmundar Páls eru sagðar „hliðstæðar lygar og Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hafði uppi í Kastljósi þegar hún talaði um lónstæðið sem eldvirkt svæði“. Lygi er meiðandi orð og yfirleitt ætla menn fólki mismæli eða misskilning í opinberri umræðu en hér er því ekki að heilsa. Star.is hafði áður fjallað um Guðmund Pál og námskeið hans um náttúrufar norðan Vatnajökuls með orðunum: „Endurmenntunarstofnun HÍ í áróðursstríði gegn Kárahnjúkavirkjun!“ Með námskeiði Guðmundar er Háskólinn sagður hafa „lagt sitt af mörkum í áróðri gegn Kárahnjúkavirkjun“.

Read More

jan 23 2003

Þjóð sem hörfar


Guðbergur Bergsson

Þjóðarsálfræðingurinn kannar hvernig „þjóð Kárahnjúkanna“ getur verið svo miklar liðleskjur og hræðslupúkar gagnvart valdinu sem ógnar landinu þeirra.

Á síðustu áratugum hefur ríkt hér á landi andlegt ástand sem minnir fremur á uppgjöf en það að hvaðeina hafi verið gefið frjálst. Eins og hendir hamagang virðist hávaðinn í kringum frelsið vera í fyrstu merki um gleði en síðan kemur í ljós að ekki er allt með felldu. Frelsi er ekki það að missa stjórn á sér heldur hitt að menn hafi sjálfir taumhaldið, en ekki valdið sem er kennt við yfirboðara. Líklega hefur íslenska þjóðin sjaldan staðið andspænis eins miklum vanda og um þessar mundir. Hún er algerlega sjálfstæð, óbundin af hersáttmálum eða hugmyndafræðilegri þjónkun við erlend stjórnmálaöfl sem íbúarnir báru á sínum tíma lítð skynbragð á, nýkomnir í hringiðu nútímans, ekki af eigin vilja og getu til þátttöku heldur vegna heimsstyrjaldar sem jók aðeins hagsmunina. Hið sorglega við það að vera þjóð sem er ekki lengur öðrum háð er hvað hún er hirðulaus, ekki aðeins um landið sem náttúru heldur um hugsanagang og stjórnmál á öðrum sviðum en hagnýtum smámunum. Í öðrum en þeim er flest látið draslast.

Read More

Náttúruvaktin