jan 23 2003
Þjóð sem hörfar
Guðbergur Bergsson
Þjóðarsálfræðingurinn kannar hvernig „þjóð Kárahnjúkanna“ getur verið svo miklar liðleskjur og hræðslupúkar gagnvart valdinu sem ógnar landinu þeirra.
Á síðustu áratugum hefur ríkt hér á landi andlegt ástand sem minnir fremur á uppgjöf en það að hvaðeina hafi verið gefið frjálst. Eins og hendir hamagang virðist hávaðinn í kringum frelsið vera í fyrstu merki um gleði en síðan kemur í ljós að ekki er allt með felldu. Frelsi er ekki það að missa stjórn á sér heldur hitt að menn hafi sjálfir taumhaldið, en ekki valdið sem er kennt við yfirboðara. Líklega hefur íslenska þjóðin sjaldan staðið andspænis eins miklum vanda og um þessar mundir. Hún er algerlega sjálfstæð, óbundin af hersáttmálum eða hugmyndafræðilegri þjónkun við erlend stjórnmálaöfl sem íbúarnir báru á sínum tíma lítð skynbragð á, nýkomnir í hringiðu nútímans, ekki af eigin vilja og getu til þátttöku heldur vegna heimsstyrjaldar sem jók aðeins hagsmunina. Hið sorglega við það að vera þjóð sem er ekki lengur öðrum háð er hvað hún er hirðulaus, ekki aðeins um landið sem náttúru heldur um hugsanagang og stjórnmál á öðrum sviðum en hagnýtum smámunum. Í öðrum en þeim er flest látið draslast.