jan 23 2003

Þjóð sem hörfar

Guðbergur Bergsson

Þjóðarsálfræðingurinn kannar hvernig „þjóð Kárahnjúkanna“ getur verið svo miklar liðleskjur og hræðslupúkar gagnvart valdinu sem ógnar landinu þeirra.

Á síðustu áratugum hefur ríkt hér á landi andlegt ástand sem minnir fremur á uppgjöf en það að hvaðeina hafi verið gefið frjálst. Eins og hendir hamagang virðist hávaðinn í kringum frelsið vera í fyrstu merki um gleði en síðan kemur í ljós að ekki er allt með felldu. Frelsi er ekki það að missa stjórn á sér heldur hitt að menn hafi sjálfir taumhaldið, en ekki valdið sem er kennt við yfirboðara. Líklega hefur íslenska þjóðin sjaldan staðið andspænis eins miklum vanda og um þessar mundir. Hún er algerlega sjálfstæð, óbundin af hersáttmálum eða hugmyndafræðilegri þjónkun við erlend stjórnmálaöfl sem íbúarnir báru á sínum tíma lítð skynbragð á, nýkomnir í hringiðu nútímans, ekki af eigin vilja og getu til þátttöku heldur vegna heimsstyrjaldar sem jók aðeins hagsmunina. Hið sorglega við það að vera þjóð sem er ekki lengur öðrum háð er hvað hún er hirðulaus, ekki aðeins um landið sem náttúru heldur um hugsanagang og stjórnmál á öðrum sviðum en hagnýtum smámunum. Í öðrum en þeim er flest látið draslast.

ÞJÓÐ SEM HÖRFAR

Það eru hvorki stjórnmálamenn né mikilmenni sem móta eðli þjóða. Þær gera það að miklu leyti sjálfar upp á eigin spýtur í tímans rás. En hin svonefndu mikilmenni og stjórnmálamenn geta aftur á móti fundið hugsun hjá þjóð sinni og ráðstafað efnahag og fjármunum hennar og þykjast því vera alls megnugir. Það sem þeir gera segjast þeir gera með hliðsjón af henni og ytri aðstæðum, þótt þeir fylgi því sem þeir sjálfir telja hagkvæmast. Stundum stjórnast verk þeirra af þrýstingi frá öðrum þjóðum, oft vegna vopnavalds eða einhvers í undirvitundi ættlandsins eða sögulegra tengsla við þjóðir sem þrýsta á aðgerðir og efnahaginn, eins og hér í svokölluðum stórvirkjunarmálum. Þau eru innst inni lítið annað en þáttur í því sem við höfum lifað á, ef marka má lygina, að vilja vera stór þjóð í fámennu landi. Þetta teljum við okkur trú um að við höfum verið, séum enn og munum vera á meðan heimurinn stendur. Stundum gengur þetta svo langt í vímu orðaflaums að hægt væri að halda að heimurinn geti ekki staðið á löppunum án okkar, máttar og megin, eins og dæmið um erfðafrumudrauminn átti að sanna en endaði sem venjulegur nþjóðarrembingur. Hinar rammíslensku einangruðu frumur gegnum aldirnar, sem lágu eins og opin bók fyrir vísindamenn fjölmennu þjóðanna, áttu að geta með söluhagnaði fyrir okkur bjargað mannkyninu frá sjúkdómum, einkum geðklofa og liðagigt.

Þannig var þegar mest gekk á í dulinni kynþáttastefnu í sölu á orku úr elstu og hreinustu frumum á hnettinum. Allur heimurinn var viðfangsefnið. En nú hefur sviðið þrengst og einskorðast við tvö lönd. Vegna sögulegra tengsla í blíðu og stríðu við Noreg og Bandaríkin höfum við leitað til þeirra, eða leyft þeim að ganga á eftir okkur með bæn um vatnsorku. Í staðinn fyrir að vera stór og virkja okkar vötn höfum við hörfað eins langt og hægt er án þess að í algert óefni sé komið, en það er stutt í það.
Þannig hefur þetta jafnan verið í sögu okkar, en við höfum bjargast með dugnaði á sviði hefðbundinna atvinnugreina, sjómennsku og landbúnaðar. Í þeim eru bjargvættir efðanna. Aðrar greinar eru lítið annað en slök afleiðing af þeirri blindu sem við köllum menntun en virðist stundum vera hæpin skólaganga út í loftið fremur en hún hafi að markmiði annað en það að telja sér trú um að hún skapi „mannauð“ eins og sagt er í ræðum. Þessi mannauður menntunarinnar gerir lítið annað á sviði atvinnumála en láta nýstofnuð yrirtæki, lofsungin í fjölmiðlum, fara á hausinn í veruleikanum. Ungt fólk fer til mennta á hagnýtum sviðum, að læra eitthvað í vissum tilgangi, byggðum á kenningum um að tengja beri skóla og atvinnulíf, en þegar það hefur aflað sér þekkingar á hinu rétta sviði, nær það mátulega með prófið út úr háskólunum til að sjá fyrirtækin fara á hausinn eða til Kanada eins og landnemarnir á eymdartímunum forðum daga.
Menntun á Íslandi tengd stórum draumum er viss tegund af lélegum harmleik. Einn þáttur í þessum harmleik er leikinn núna á hálendinu vegna óreiðu og úrræðaleysis á láglendinu. Hann er samleikur blinds dugnaðar fyrrverandi bænda og sjómanna og þeirrar áköfu blindni sem ráðvillt þekking hefur í för með sér. Þannig er harmleikur íslenska draumsins, að vilja vera mikill en enda sem lítill trítill en láta samt eins og ekkert hafi í skorið í vaxtarmálum og trúa að trítill sé tröll. Fyrir bragðið er sagt hástöfum með stolti en ekki ögn af blygðun:

Þetta eru mestu stórframkvæmdir í sögu landsins sem munu líklega veita hvorki meira né minna en sex hundruð manns vinnu!

Um leið er gengið fram hjá því sem víst er og mælanlegt, að hálendið er stærsta ósnortna svæðið í Evrópu og ástæða til að fyllast þjóðarstolti vegna þess.

Hvers vegna erum við ekki hreykin af hinum óneitanlega veruleika?

Í blindum ofmetnaði er allt sem er gert það mesta í sögu landsins: Núverandi einkavæðing er sú mesta í sögu landsin. Fiskeldið átti að vera mesta átak sem unnið hefði verið. Ekki fyrir löngu átti það að selja íslenska raforku um sæstreng að vera mesta afrek í sögu landsins og lyftistöng fyrir allan evrópskan iðnað sem færi í hundana ef rammíslenska orkan bærist ekki til Danmerkur eða Noregs og þaðan um Evrópu, ef ekki hnöttinn eins og hann leggur sig.

Þetta væri auðvitað broslegur skopleikur um Bjargvættinn mikla á mörkum hins byggilega heims, ef ekki væri um náttúruna, spjöll á henni og örlög hennar að ræða.

Sá er munur á flónsku og níðingsverkum sem unnin eru á manninum og náttúrunni, að þótt óhæfuverk sé unnið á manni eru möguleikar á því að hann rétti úr kútnum, eignist afkvæmi og lífið haldi áfram í kyni hans. Annað gerist í náttúrunni. Fjall fæðist aldrei af fjalli. Ef fjalli er jafnað við jörðu, rís það aldrei upp í fyrri mynd. Náttúran er ekki nema að litlu leyti lifandi og endurnýjanleg og verður ekki líkt við okkur nema á vissan hátt. Hún vinnur aldrei fólskuverk á neinum. Maðurinn vinnur fólskuverk á henni, og í þessu sem öðru eru þau verst sem unnin eru innan fjölskyldunnar, þau sem þjóð vinnur á landi, náttúru og eðli sínu. Í þessu gilda svipuð lögmál og í stjórnmálum eða útlendingahatri. Það er á vissan hátt eðlilegt að hafa andúð á öðrum, andúð er oft tengd smekk og fegurðarskyni, en það er óeðlilegt að koma illa fram við sína nánustu, þjóð sína, ættland sitt og náttúru þess. Jafnvel einræðisherrar eru ekki dæmdir nema í einstaka tilvikum eftir framkomu sinni við erlendar þjóðir, heldur hvernig þeir koma fram við sína eigin þjóð sem níðingar. Þannig koma íslensk stjórnvöld fram, sem einræðisherrar erlends og innlends auðmagns og framkvæmda í þágu þess.

En þeim er kannski vorkunn.

Hvað hefur hin mikla menntun og mannauður sem kemur úr skólunum fram að færa á sviði atvinnumála? Hafa þau í rauninni upp á annað að bjóða en stóriðju á vegum útlendinga? Er ekki nauðsyn og skylda, ef barist er gegn ákveðinni trú og guðum í von um að fólk taki við betri, að sýna í verki, helst kraftaverki, fram á hvað sú nýja hefur fram yfir þá sem fella þarf? Er nóg að vera á móti virkjunum og hafa ekki upp á annað að bjóða en andstöðu, eitthvað sem enginn getur lifað á, líkamlega séð?

Líklega er andstaðan ekki nóg sem lifibrauð.

En það að bjóða ekki upp á ákveðna guði sem búa að baki óánægjunnar hefur sinn kost. Einn guð á ekki að taka við af öðrum í endalausri hringrás guðanna. Þess vegna er hugsanlegt að ef ekki kæmi til stóriðju, sem lausn frá útlöndum, myndi innlendur mannauður og menntun loksins bjarga sér á öðru en fyrirtækjum draumóra og loftkastala sem hrynja en fljóta áfram vegna bænda og sjómanna og auðlegðar á landi og sjó, sem enginn maður hefur búið til en getur haldið á lífi. Fiskeldi hefur farið á hausinn, en hafið lifir.
Eitthvað raunhæft verður að bjóða fólki til að lifa á annað en andstöðu. Ekki er nóg að halda að hægt verði að bjarga þorpum úti á landi með því að íbúar þeirra saumi hulstur utan um farsíma frá Finnlandi eða hanka á flöskur sem fólk hefur með sér til að geta drukkið þrjá lítra af vatni á dag að ráði lækna sem hafa þetta eftir síðustu rannsóknum í Bandaríkjunum, að það að fara ekkert án flöskunnar sé hollt fyrir vatnsbúskap líkamans sem menntamenn virðist hafa meiri áhuga á en öðrum búskap, enda neyslufrekir þrælar líkamans. Ekki bara það heldur orkufrekir. Þegar allt kemur til alls er hálendinu fórnað vegna neyslufrekju þeirra.
Hvers vegna er svona mikil fórnarlund í fari okkar, fórnarlund í bland við stórlyndi byggðu á fjöllyndi, að hefjast handa áður en heilinn er farinn að hugsa?

Eins og margir vita en vilja síst viðurkenna, erum við með trúskiptingaáráttu. Hún er okkur í blóð borin, sögulega séð, að skipta umsvifalaust um trú en taka aldrei nýja af heilum hug. Við köllum þetta ekki flótta undan því að hugsa af viti heldur fjölbreytni í hugsun. Venjulega er gripið til þeirrar skilgreiningar, ef hugsunar er þörf eða þess að sjá framtíðina í ljósi fortíðar og þess sem á að lifa um aldir alda.
Í tengslum við þetta langar mig að nefna íslenskar skyndiákvarðanir sem hafa haft sögulegar afleiðingar.
Okkur er kennt í barnaskóla, sem sögulega staðreynd, að þjóðin hafi orðið kristin á einni nóttu. Maður lagðist fyrir alla þjóðina undir feld, hundheiðinn, en spratt undan honum sannkristinn. Ekki er getið hvað umskiptin tóku hann marga tíma eða um hvað hann hugsaði; eða svaf hann á sitt græna eyra? En þetta nægði. Hann reis upp og henti sínum heiðnu goðum í foss og um leið gerðist undrið. Þjóðtrúin varð til sem andstæða við nýju kirkjustofnunina: Fossar, lækir, íslensk náttúra varð heilög á augabragði og alþýðan fór að beina bænum sínum til hennar, ekki Maríu meyjar, sem henni hefði þá átt að vera skylt samkvæmt nýju guðstrúnni sem einræðisherrann kom á þegar hann fór undan feldinum. Landið, steinar og fjöll hafa verið lofsungin fram á þennan dag sem eitthvað saklaust, heilagt og ósnertanlegt af hendi eyðileggingarinnar.
Auðvitað er sagan um kristnitökuna kaþólsk helgisögn, kraftaverkasaga, sem enginn heilvita maður gæti tekið mark á nema sem dæmisögu um stofnanatrú og alþýðutrú, ekki sem sögulegan sannleika. Erum við þá blind á hann? Við hverju er að búast af raunveruleikafirrtri þjóð?

Eitt helsta goð okkar í bókmenntum hafði fyrir andlega lausn og hjálpræði í efasemdunum, að skipta látlaust um skoðun án þess að kanna efa sinn og ráðvillu til hlýtar. Hann kvaðst af miklum gorgeir ekki vilja fá í sig steinbarn. Annað goð á svipuðum stjórnmálaslóðum, vopnaður penna, sagðist hafa orðið kommúnist á einni nóttu. Að vísu var lagt hart að honum af öðrum og hann lá ekki einn undir teppi.

Allt er þetta samkvæmt hefðinni.

Í samtímanum ákvað borgarstjóri að bjóða sig fram þannig til kosninga að hann gæti setið að völdum á tveimur ólíkum stöðum í einu og verið jafn mikill í sínu pólutíska hjónabandi og í pólutíska framhjáhaldinu. Að sögn komst hann að þessari niðurstöðu eftir að hafa rætt við mann yfir helgi. Síðan gerðist það að hann gat ekki setið með báðar kinnar á tveimur stöðum og var neyddur til að hafa allan rassinn á einum stað og halda sig þannig á mottunni. Samt kom hann borubrattur út frá þessari athöfn og sagði við fréttamenn með stolti sem blindan vekur:

Ég er þannig manneskja að ég hef mína óhagganlegu skoðun og beygi mig aldrei.

Arftaki þessa borgarstjóra vann afrek í þeim dúr sem hefðirnar segja fyrir um. Það tók hann nokkrar mínútur að ákveða sig, líklega í gegnum farsíma frá símafyrirtæki sem hann hafði veitt forstöðu en ekki sett á hausinn fyrir kraftaverk.

Er þetta dugnaður, íslenskt vit eða dæmi um stórbrotna skapgerð þjóðar sem á ekki annað í hugarheimi sínum en vilja hafa nóg að bíta og brenna og andskoti mikið að gera til þess að depast ekki úr leiðindum eða þurfa að hugsa, enda er hugarstarf dugnaðinum framandi?

Þannig þjóð hoppar ekki hæð sína í öllum herklæðum andans, en hún gæti tekið heljarstökk niður í jörðina og grafið sig. Eftir þannig jarðarför grefur enginn sig upp til nýs lífs nema í dæmisögum, sem notaðar eru til að vara afglapa við hættum sem þeir skapar sér. Þetta er líka til í lygasögum og ævintýrum sem lina fávísum þjóðum þá skömm sem þær hafa áskapað sér í veruleikanum.

Stjórnmálamenn geta ekkert gert án samþykkis þjóðar sinnar. Samþykki hennar getur verið þegjandi, með atkvæðagreiðslu á kjördegi eða áhugaleysi á milli kosninga. Þjóðir tjá hug sinn með ýmsum hætti, með reist höfuð eða grafið í sand. Enginn þjóð er alsaklaus, síst eftir að komið var á almennum kosningarétti. Engu að síður breytist lítið hvað óskhyggjuna varðar. Það er einkenni sumra að vilja fá allt án þess að leggja á sig andlegt erfiði. Draumar alþýðunnar eru oft svipaðir því sem segir í væintýrum, að finna sjóð í steinum, fjöllum, gimsteina í maga fisks eða á annan hátt tengdan náttúrunni. Vandinn er sá að finna staðinn þar sem auðurinn leynist og kunna að grípa gæsina á meðan hún gefst og eignast börn og buru með prinsessunni og liggja síðan í leti og monta sig ævilangt. Til að blekkja almenning segja stjórnvöld þjóðinni núna að þannig ævintýri sé að gerast hennar vegna uppi á hálendinu; ekki harmleikur.

Auðvitað verður gæfan ekki nema stöku sinnum á vegi manns, en blindan í augum þess sem aldrei fær neitt er ódrepandi. Hún teymir okkur endalaust á asnaeyrunum. Öldum saman, á meðan náttúran var bara náttúra og fegurð, höfum við sungið grátklökk ættjarðarljóð um fossa og fjöll og heiðardali, og við gerum það jafnvel núna á meðan við snúum við blaðinu og segjum: „Náttúran er auðlind.“ Í ættjarðarástinni, eins og öðru, erum við trúskiptingar og svíkjum hugsjónir fyrir drauma um auðlegð. Og ef okkur er bent á gerðir okkar, þá vitnum við í vitringa samtímans, dýrlinga í listum, andans menn og segjumst fylgja fordæmi þeirra:
Við viljum ekki ganga með hugsjón sem breytist í steinbarn heldur fé.

Kannski er sannleikurinn sá að við kunnum ekki, höfum ekki hæfileika, hugvit til að halda lífi í steininum og nota hann á ýmsa vegu án þess að eyðileggja. Við höfum eyðilagt hraunin. Við höfum eyðilagt gömul hús. Við höfum eyðilagt eins mikið af menningu okkar og við höfum komist yfir með lítilli tækni. Við höfum rifið og skemmt allt sem við höfum kallað „gamalt drasl“, að minnsta kosti eftir að sá tími gekk í garð sem hefur verið kallaður: „Þegar Ameríkaninn kom.“

Sú list að breyta um leið og er varðveitt verður líklega seint kölluð sérkenni íslensks hugvits. En frjósamt líf og hugsun byggist á þessu, að kunna að varðveita og auðga lífið í hugsjóninni, í barninu, í steinunum. Það á ekki að kasta þessu ef eitthvað bjátar á og segja með ásökun í garð annarra:

Þú ert sekur, ég er saklaus.

Getur verið að þjóðir vilji fara illa með sig af sjálfsdáðum? Eða vilja þær láta aðra fara illa með sig? Eða hvort tveggja í senn. Ef svo er: Hvers vegna? Vilja þjóðir vera frjálsar svo þær geti farið illa með sjálfar sig af fúsum og frjálsum vilja? Vilja þær koma eigin sök á stjórnmálamenn sem þær kjósa í frjálsum kosningum, bara til þess að hafa þá að blóraböggli?

Það er erfitt að svara þessu. Enn sem komið er hefur ekki verið fundin upp sú grein innan vísindanna sem hægt væri að kalla þjóðarsálfræði eða sálfræði stjórnmálanna. Félagsvísindi eru annað. Hegðun þjóða og leiðtoga þeirra er ekki hægt að skilgreina með sagnfræði eða félagsvísindum, eins og hefur verið gert hingað til.

Ástæðan fyrir hegðun okkar, þjóðarinnar, eru líklega djúpstæð en falin vonbrigði og skömm. Vonbrigði og skömm einkenna okkur um þessar mundir og sálarlíf okkar sem félagsverur. Það að þjóðin telji sig vera í skoðanakönnunum hamingjusömustu þjóð veraldar bendir til þess. Sá sem er hamingusamur í raun og veru, ef slíkur maður er til, finnur ekki fyrir hamingjunni, hún er of samgróin honum til þess, heldur finnur sá fyrir hamingju eða óhamingju sem er oftast vansæll innra með sér og ringlaður. Vegna þess að hann finnur mun á sér í hvert sinn sem hann gleðst.

Ef einhver leiðir í alvöru hugann að hugarfari þessarar þjóðar, gerir hann sér grein fyrir því að hún hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum og vonbrigðum í samtíðinni hvað varðar hugsjónir, einkum í stjórnmálum. Þetta stafar af því að þeir sem aðhylltust fyrir nokkrum áratugum kommúnismann næstum af tilgerðarlegri ástríðu hafa snúið við blaðinu, eru annaðhvort í felum, þegja, hafa fengið sé grímu, farið í endurvinnslu undir einhverju teppi og komið undan því öfugir við það sem áður var. Svipaða sögu er að segja um þá sem voru á vegum auðvaldsins og Bandaríkjanna en hafa bjargað sér með upplyftingu einka- og heimsvæðingar. Kvennahreyfingin, femínisminn gekk sér líka til húðar á svipaðan hátt með nokkrum manneskjum. Eftirlegukindum hennar finnst nú vera furðulegt að meiri kröfur séu gerðar til kvenna en karlmanna í stjórnmálum, ef marka má rannsóknir Háskóla Íslands í kynjafræðum. En slík krafa, að vera öðrum betri, er ekki aðeins tengd konum og femínisma. Svipaðar kröfur voru gerðar á sínum tíma til kristinna manna. Sömu sögu var að segja um vinstrisinna. Þannig kröfur eru gerðar til allra sem komast til valda með boðskap um heiðarleika og þykjast hafa flett ofan af óheiðarleika annarra.

Fólk sem vill landinu heill verður að taka mið af þessu og virða náttúruna í eigin gerðum. Að öðrum kosti eykur það bara vonbrigðin og skömmina þannig að allir lenda í sömu súpunni.

Ef til vill er eitthvað gott eða í lagi með vonbrigðin á sviði stjórnmála og valdabrölt framámanna. Almenningur fer þá kannski með tímanum að hugsa sjálfstætt, ekki á flokksnótum eða kynjanótum. Fari svo, þá hefur mikið unnist og spor stigið í framtíðarátt til einstaklingsbundinnar hugsunar sem gæti orðin næstum öllum til góðs.

Það er eins með Kárahnjúka og stóriðnaðinn, ef hann bregst eða honum verður aldrei komið á, byrja innlendir athafnamenn eflaust að hugsa sjálfstætt, fá í sig kjark, finna mátt frá því sem hægt væri að kalla frumlegt sköpunarstarf. Menn neyðast kannski loksins til að hugsa og skapa á vegum sinnar þjóðar. Um leið hættir hún að vera þjóð sem hörfar á flestum sviðum á flótta frá eigin veruleika í faðminn á veruleika og auðlegð annarra. Aðeins þannig er hinn fundni fjársjóður, ekki ævintýra og sjálfshóls, heldur veruleikans og nokkurn veginn rétts mats á raunverulega getu okkar.

Sjá einnig: „Blue Eyes in a Pool of Sharks“.

‘Blue Eyes in a Pool of Sharks’ by Guðbergur Bergsson

Náttúruvaktin