apr 12 2003

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum

Andri Snær Magnason
Morgunblaðið
Laugardaginn 12. apríl, 2003

Þjóðin hefur eignast nýjan ríkisfjölmiðil. Þetta er frétta- og upplýsingavefur sem heitir star.is og er rekinn af iðnaðarráðuneyti, Landsvirkjun og fleiri aðilum sem mynda STAR, opinbera undirbúningsnefnd fyrir virkjun og álver fyrir austan. Ef menn opna star.is og velja „allar fréttir“ kemur í ljós að hann lýtur einkennilegum lögmálum. Hér er dæmi: „Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar beita lygum og ósannindum“. Undir fyrirsögninni er birt opið bréf sem á að „vekja athygli á þeirri lygaþvælu sem spunnin er gegn virkjuninni við Kárahnjúka“. Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur er sakaður um „lygar“ þegar hann bendir á tengsl Kárahnjúkavirkjunar við mögulega virkjun Jökulsár á Fjöllum. Lygar Guðmundar Páls eru sagðar „hliðstæðar lygar og Kolbrún Halldórsdóttir alþingismaður hafði uppi í Kastljósi þegar hún talaði um lónstæðið sem eldvirkt svæði“. Lygi er meiðandi orð og yfirleitt ætla menn fólki mismæli eða misskilning í opinberri umræðu en hér er því ekki að heilsa. Star.is hafði áður fjallað um Guðmund Pál og námskeið hans um náttúrufar norðan Vatnajökuls með orðunum: „Endurmenntunarstofnun HÍ í áróðursstríði gegn Kárahnjúkavirkjun!“ Með námskeiði Guðmundar er Háskólinn sagður hafa „lagt sitt af mörkum í áróðri gegn Kárahnjúkavirkjun“.

Þar er á ferðinni gróf atlaga opinberra aðila að málfrelsi, starfsheiðri og lífsafkomu fræðimanns og rithöfundar. Star.is hefur að engu þær reglur sem gilda um ríkisfjölmiðla sem samkvæmt lögum skulu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. STAR getur eflaust komið í veg fyrir svona „áróður“ í framtíðinni með því að verða „bakhjarl“ Háskólans. Afhending íslensku tónlistarverðlaunanna varð ýmsum vettvangur til að tjá andstöðu sína við fyrirhuguð virkjunaráform. Það verður star.is langsótt tilefni niðrandi orða um Ögmund Jónasson(!) sem kom hvergi nærri athöfninni: „Hugsið ykkur andköfin í Ögmundi með tilheyrandi upphlaupi í ræðustól Alþingis utan dagskrár!“ Enginn er skrifaður fyrir þessum ummælum, ekki heldur fyrirsögninni: „Vinstri-græn örvænting í þingsölum. – Vinstri-grænir á Alþingi fóru illa út úr útvarps- og sjónvarpsumræðunni um þá tillögu sína að bera framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls undir þjóðaratkvæði.“ Má fjölmiðill iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar beita nafnlausum áróðri gegn þingmönnum og störfum þeirra?

Fyrirsögnin „Ungt fólk á Austurlandi er hlynnt Kárahnjúkavirkjun“ vísar í skoðanakönnun. Rúmur helmingur er fylgjandi virkjun, heil 34% eru á móti og það á Austurlandi. Eru þessi 34% óvinir Austurlands? Draumar ungra Austfirðinga eru væntanlega jafn fjölbreyttir og framtíðardraumar ungmenna á öllu Íslandi en enginn virðist spyrja hvort í unga fólkinu búi sú framtíðarsýn eða frumkraftur sem gæti breytt samfélaginu. Menn fá svörin sem þeir vilja: 60% töldu sig vilja vinna í álveri. Getur verið að af öllum heimsins tækifærum hafi 60% ungmenna sett ál í fyrsta sæti? Er „hvað langar þig að verða…?“ of opin og hættuleg spurning?

Það er sama hvar borið er niður. Ómar Ragnarsson er sagður í „heilögu stríði gegn virkjunum og stóriðju“. Steinunn Sigurðardóttir er sögð hafa „hallað réttu máli“ í Kastljósinu. María Ellingsen er sögð hafa farið með ósannindi á Bylgjunni. Toyota-umboðið er hvatt til að „láta auglýsingamanninn Egil Ólafsson lesa með tilþrifum“ tilkynningu þess efnis að Toyota hafi ekki styrkt Umhverfisvini og þar með Jakob Frímann. Formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands fær verstu útreiðina, orð hans eru sögð „þvæla og vitleysa“ og þarna má sjá fyrirsagnir eins og „Enn skrökvar Árni Finnsson og það duglega“. „Árni Finnsson, formaður NSÍ, hikar ekki við að fara langt út af braut sannleikans í baráttu sinni gegn virkjunum.“ Vitnað er í Friðrik Sófusson sem segir Náttúruverndarsamtök Íslands vera handbendi útlendinga og vinna gegn „íslenskum hagsmunum“. Eiga forstjórar ríkisfyrirtækja að nota svona þjóðernislega orðræðu og sníða „íslenska hagsmuni“ að sínum eigin?

Enginn fær að svara fyrir sig en öllu sem snertir virkjun og stóriðju er snúið á jákvæðan og nánast trúarlegan veg. „Hér hitti ég bara brosandi fólk,“ segir Smári Geirsson. „Á sama tíma og flestir landsmenn fögnuðu undirskrift“ flögguðu landverðir í Drekagili í hálfa stöng. „Á sama tíma og þorri íslensku þjóðarinnar fagnar ákvörðun stjórnar Alcoa…“ Fær enginn gæsahúð? Erum við í Norður-Kóreu? Ósjálfstæðisbaráttan gengur lengst þegar vitnað er með lotningu í Alcoa-menn: „Þá er rétt að minna á þau orð upplýsingafulltrúa Alcoa, Jake Siewert að í allri nálgun Alcoa að málinu hafi verið tekið mjög mikið mið af umhverfisþáttum.“ Var hann að tala um stóru strompana? Var hann að hrósa tálbeitu iðnaðarráðuneytisins: „hagkvæmar umhverfiskröfur“? Var hann að tala um land, ímynd og áhættu sem er einskis metin?

Star.is er opinbert vald sem beitir sér gegn nafngreindum persónum og starfsheiðri þeirra, leggur fæð á stjórnmálamenn og frjáls félagasamtök og ónafngreindir skrifarar kalla nafngreinda menn lygara. Þarna er beitt orðum og aðferðum sem síðasta öld á að hafa kennt okkur að nota ekki og það sem verra er: Hagsmunahópur skrumskælir tjáningarfrelsið með því að hertaka orðið „Austfirðingur“ og nota sem samnefnara yfir „eina þjóð með einn vilja“ þrátt fyrir að margir hörðustu fylgismenn verndunar séu einmitt þeir Austfirðingar sem þekkja landið best og ættu að öllu eðlilegu að vera gild rödd í sínu samfélagi. Á star.is er orðsending Félags um verndun hálendis Austurlands sögð „taktlaus“ og gefið í skyn að á bak við hana standi „einhverjir aðrir en Austfirðingar“.

Málflutningur star.is nær fjögur ár aftur í tímann og hann ætti að fá menn til að íhuga alvarlega hvaða aðferðum og valdi var beitt til að veita þessum framkvæmdum brautargengi, hversu margir hafa kosið að þegja í stað þess að segja hug sinn opinberlega og hversu mikið mark er takandi á þeim upplýsingum og rannsóknum sem aðstandendum STAR var falið að afla og miðla. Fari endurmenntunarnámskeið í taugarnar á mönnum getur fátt verið heilagt í samskiptum við vísindamenn með óþægilegar niðurstöður. Star.is er aðeins toppurinn á ísjakanum, aðeins brot af þeim tugmilljónum sem hefur verið eytt til að að koma „upplýsingum“ til almennings gegnum almannatengslafyrirtæki þar sem fyrrverandi fréttamenn virðast lausir undan siðareglum blaðamanna. Áróðurinn er greiddur af þjóðinni til að tryggja vilja meirihlutans og þar með „lýðræðislega niðurstöðu“. Menn hljóta að spyrja hverjir skrifa þennan nafnlausa áróður, hvað hann hefur kostað þjóðina og hvaða stjórnmálamenn bera ábyrgð á þessari hræðilegu þróun.

Forstjóri Alcoa sagði að það væri „alltaf til fólk sem er á móti framförum“. Ef star.is er aðferðin til að keyra framfarir í gegn þá er fórnin ekki aðeins náttúra Íslands heldur lýðræðið sjálft.

Höfundur er rithöfundur.

Sjá einnig:

Slanderous Athygli Get a Much Deserved Hit

Star.is – Further analysis of Star.is – pdf

Náttúruvaktin