mar 22 2004
Kárahnjúkavirkjun mótmælt á Tate Modern sýningu Ólafs Elíassonar
Morgunblaðið 22. mars 2004
Virkjun mótmælt á lokadeginum
EFNT var til mótmæla gegn Kárahjúkavirkjun í Tate Modern-safninu í gær á síðasta sýningardegi Ólafs Elíassonar. Hópur fólks, bæði Bretar og Íslendingar búsettir í London, safnaðist saman í túrbínusalnum upp úr hádegi og opnaði regnhlífar á gólfi salarins á meðan bréfmiðum var hent ofan af svölum og niður á gólf.
Áletranir með slagorðum gegn virkjuninni voru á regnhlífunum og á miðunum var vitnað í ummæli Ólafs í blaðinu Guardian frá desember sl. þess efnis að Alcoa væri að eyðileggja hálendi Íslands með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Vöktu þessi mótmæli mikla athygli, en voru friðsöm að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem staddur var á sýningunni í gær.
Meðal áletrana voru: „Don’t let the sun go down on Iceland“ og vísað þar til sólarinnar í verki Ólafs. Í tilkynningu frá mótmælendum segir að með Kárahnjúkavirkjun sé verið að stíga skref aftur til 20. aldar.
Sjá nánar (á ensku): Umbrella Protest in Tate Modern