júl 19 2004

Ávarp Þorleifs Haukssonar við stjórnstöð Landsvirkjunar á degi hálendisins 19. júlí 2004

Þessa blíðviðrisdaga hefur aragrúi fólks streymt út um land til að njóta dásemda íslenskrar náttúru sem skartar sínu fegursta. Samt er þessi dagur, sem hefur verið útnefndur dagur hálendisins, merktur sorg og reiði. Þennan dag í fyrra drógu landverðir upp fána, sína eigin fána, í hálfa stöng á hálendinu í minningu samninganna við Alcoa – og fengu bágt fyrir hjá stjórnvöldum. Nú drögum við okkar eigin fána í hálfa stöng á flaggstengur Landsvirkjunar, sem okkur skilst að sé í eigu okkar allra.

Þetta fyrirtæki hefur í umboði stjórnvalda þröngvað inn á okkur hrikalegustu náttúruspjöllum Íslandssögunnar á örfáum síðustu árum, án þess að gefa okkur eigendum sínum neitt tóm til að afla okkur upplýsinga um stærð, umhverfisáhrif og afleiðingar þessara risaframkvæmda.

Mikið hefur verið talað um lýðræði á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Manni skilst á stjórnvöldum að þau telji lýðræðið því traustara sem almenningi er haldið fjær allri ákvarðanatöku. Þetta kemur svo sem engum á óvart sem kynnir sér tildrög Kárahnjúkavirkjunar.

Það hefur aldrei gefist kostur á að kjósa um Kárahnjúkavirkjun, gagnstætt því sem haldið hefur verið fram. Málið var ekki nefnt fyrir kosningar 1999. Á því kjörtímabili sem í hönd fór var því þrælað í gegn með því augljósa markmiði að þjóðin stæði frammi fyrir orðnum hlut í kosningum 2003. Meira að segja var byrjað á framkvæmdum rúmu ári áður en Alþingi tók ákvörðun um virkjunarleyfi, eins og sést á eftirfarandi stiklum:

– Alþingi afgreiddi lögin 8. apríl 2002.
– Í febrúar 2001 sendi Landsvirkjun Skipulagsstofnun drög að matsáætlun Kárahnjúkavirkjunar.
– 3. og 4. maí 2001 kynnti Skipulagsstofnun tillöguna um Kárahnjúkavirkjun til umsagnar almennings.
– Sama dag, 3. maí 2001 bauð Landsvirkjun út undirbúningsframkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Í lok maí 2001 mátti lesa eftirfarandi fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Stærsta útboð á verkfræðiþjónustu“. Þar með var búið að gera fjárhagsskuldbindingu upp á 1 miljarð og 153 milljónir króna til undirbúnings Kárahnjúkavirkjunar án neinnar formlegrar ákvörðunar til þess bærra aðila. Þetta var áður en kynningartími Skipulagsstofnunar var útrunninn, áður en athugasemdirnar, sem reyndust á 4ða hundrað, höfðu borist og áður en Skipulagsstofnun hafði haft tóm til að kveða upp úrskurð sinn. Sá úrskurður birtist 1. ágúst 2001. Þar segir meðal annars að Kárahnjúkavirkjun „muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa. Ennfremur að upplýsingar skorti um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar“. Ekkert felst í lokaúrskurði umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 sem breytir þessu hógvært orðaða mati.
Þegar Alþingi fær málið til meðferðar á vormánuðum 2002 er búið að fjárfesta 1,2 milljarða í framkvæmdinni og búið að vekja upp miklar væntingar í Fjarðabyggð. Aldrei á öllu þessu stutta en snarpa ferli fór fram nein almenn kynning á vegum umhverfisráðuneytisins sem gæfi kjósendum kost á að meta þessa „mestu framkvæmd Íslandssögunnar“. Þess í stað var reynt að knýja hana svo hratt fram að sem allra minnst tóm gæfist til umhugsunar og hugsanlegra andmæla. Það var hreinlega valtað yfir allt og alla. Náttúruverndarráð, sem hafði verið með múður, var lagt niður 14. desember 2001, og þrengt var að frjálsum umhverfissamtökum. Og áfram var haldið. Svo mikið lá á að semja við Alcoa eftir að Norsk Hydro hafði dregið sig til baka að hreinsiútbúnaður á fyrirhuguðu álveri þess var undanþeginn umhverfismati enda þótt vitað væri að þar væri stuðst við allt aðra og miklu frumstæðari tækni en Norsk Hydro hafði lagt fram.

Gerum okkur grein fyrir stærð þessara framkvæmda. Væntanlegt álver í grennd við byggð í Reyðarfirði, þessum þrönga og lygna firði, er nálega tvöfalt stærra en álverið í Straumsvík er nú, eða með 322 þúsund tonna framleiðslu á móti 170 þúsund tonnum í Straumsvík.

Allar þessar umdeildu framkvæmdir, jafnt á hálendi sem í byggð, eru réttlættar með því að þær stuðli að atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Þau rök hafa verið marghrakin og sýnt fram á hvernig hægt hefði verið að skapa miklu fleiri og vænlegri störf fyrir aðeins brot af þeim kostnaði sem virkjunin og bygging álversins leiða af sér, og er þá fórnarkostnaður í náttúruauðlindum ekki innifalinn. Hve mörg hin raunverulegu störf verða er auk þess óvíst, enda er nú stefnt að byggingu á afgirtu þorpi fyrir ódýrt erlent vinnuafl í Reyðarfirði á vegum Bechtel eins og hjá Impregilo í Kárahnjúkum. Orkan sem Kárahnjúkavirkjun gefur af sér verður seld á útsöluverði því Landsvirkjun hefur skuldbundið sig til að selja hana til Alcoa næstu áratugi.

Það er verið að fórna stórfenglegum, óafturkræfum náttúruverðmætum. Í nálægum löndum, t.d. í Noregi, harma menn nú hversu langt var gengið í harkalegri umgengni við náttúruna með vatnsaflsvirkjunum í Norður-Noregi, og voru þær framkvæmdir þó barnaleikur miðað við hamfarirnar á Austurlandi.

Þessar framkvæmdir minna helst af öllu á atvinnustefnu Sovétríkjanna sálugu þar sem megináhersla var lögð á þungaiðnað sem byggður var upp á vegum ríkisins. Tillitsleysi við náttúru og umhverfi var algert og arðsemi jafnvel aukaatriði. Stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi eru ekki til þess fallnar að hækka menntunarstig og treysta þannig grunn að þekkingarsamfélagi sem væri margfalt arðbærara en það hráefnissamfélag sem nú er lögð öll áhersla á að þróa. Byggðastefna af þessu tagi er dæmd til að mistakast. Hún er umhverfis- og samfélagsslys.

Kannski tekst okkur ekki að afstýra Kárahnjúkavirkjun. Hugsanlegt er að náttúran geri það sjálf; svo ófullnægjandi eru þær rannsóknir sem fram hafa farið á vettvangi í öllu þessu óðagoti að enginn veit upp á hverju hún gæti tekið. Og hvar er þjóðin þá stödd, með 100 milljarða fjárfestingu, í skiptum við þau erlendu risafyrirtæki sem samið hefur verið við og hafa sýnt sig að óbilgirni og ófyrirleitni í skiptum sínum við þróunarríki? Strengjum þess heit að standa vörð um aðrar náttúruperlur sem er ógnað. Langasjó, Þjórsárver, Torfajökulssvæðið við Landmannalaugar, Laxá, Skjálfandafljót, jafnvel Jökulsá á Fjöllum.

Sprengingin fræga við Kárahnjúka vorið 2003 sem við sáum svo að segja í beinni útsendingu var hugsuð sem styrkleikapróf Landsvirkjunar, ábending til háttvirtra kjósenda að þetta mál væri ekki lengur til umræðu, baráttan væri þegar glötuð. Látum þetta ekki henda okkur aftur, að missa móðinn. Guðmundur Páll Ólafsson birtir mynd af þessari sprengingu á öftustu síðu bókar sinnar Um víðerni Snæfells. Við hlið myndarinnar setur hann eftirfarandi ljóðlínur Jóhannesar úr Kötlum í kvæði frá 1940:

Náttúra, vagga alls og einnig gröf,
yngdu mig, vertu sálu minni hlíf.
Gefðu mér aftur gleði mína og söng,
gefðu mér aftur trúna á þetta líf.
Geymum þessi orð í minni.

Náttúruvaktin