Fréttatilkynning frá Náttúruvaktinni
Fimmtudaginn 8. júlí verður tekin fyrsta skóflustungan að væntanlegu álveri við Reyðarfjörð. Þar með mun bandaríska risafyrirtækið Bechtel taka opinberlega við yfirráðum á byggingarsvæði fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Bætist þar enn eitt risafyrirtækið með vafasama fortíð að baki í hóp þeirra sem þegar eru viðriðin virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Bechtel hefur bæði verið bendlað við efnavopn í Írak og situr nú að milljarðaverkefnum þar á vegum Bandaríkjastjórnar. Fyrirtækið hefur reyndar einbeitt sér að nýtingu vatns fremur en olíu. Nýjasta afrekið á því sviði fólst í einkavæðingu vatnsveitna í Bólivíu og stórhækkun á verði þannig að vatn varð munaðarvara sem fátækar fjölskyldur urðu að neita sér um. Bechtel er ekki síður þekkt en Alcoa og Impregilo fyrir lítilsvirðingu á réttindum starfsfólks í ýmsum heimshlutum. Nú er fyrirtækinu falið að byggja upp farveg íslenskrar vatnsorku til mengandi stóriðjuframkvæmda.
Sú álverksmiðja sem Alcoa mun starfrækja í Reyðarfirði hefur fyrir sérstaka tilhliðrun stjórnvalda fengið undanþágu frá þeim mengunarvörnum sem Norsk Hydro var búið að skuldbinda sig til. Ekkert umhverfismat hefur farið fram á hreinsunarbúnaði væntanlegrar verksmiðju enda þótt vitað sé að þar sé stuðst við allt aðra og miklu lakari tækni.
Allar þessar umdeildu framkvæmdir, jafnt á hálendi sem í byggð, eru réttlættar með því að þær stuðli að atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Þau rök hafa verið marghrakin og sýnt fram á hvernig hægt hefði verið að skapa miklu fleiri og vænlegri störf fyrir aðeins brot af þeim kostnaði sem virkjunin og bygging álversins leiða af sér. Hve mörg hin raunverulegu störf verða er auk þess óvíst, enda er nú stefnt að byggingu á afgirtu þorpi fyrir ódýrt erlent vinnuafl í Reyðarfirði eins og að Kárahnjúkum. Orkan sem Kárahnjúkavirkjun gefur af sér verður seld á útsöluverði því Landsvirkjun hefur skuldbundið sig til að selja hana til Alcoa næstu áratugi.
Með þessari skóflustungu er haldið áfram að grafa gröf sem hætt er við að gleypi fleira en prúðbúna gestina órar fyrir. Það er verið að fórna stórfenglegum, óafturkræfum náttúruverðmætum. Í nálægum löndum, t.d. í Noregi, harma menn nú hversu langt var gengið í harkalegri umgengni við náttúruna með vatnsaflsvirkjunum í Norður-Noregi, og voru þær framkvæmdir þó barnaleikur miðað við hamfarirnar á Austurlandi. Hið náttúrlega umhverfi mun raskast í kjölfar þessara stórframkvæmda, andrúmsloft spillast, þær munu hafa ófyrirséð áhrif á t.a.m. gæsa- og hreindýrastofninn, á selastofna og yfirleitt líf í sjónum úti fyrir Austurlandi, að ógleymdri röskun á mannlífi í Reyðarfirði og á Austfjörðum.
Þessar framkvæmdir minna helst af öllu á atvinnustefnu Sovétríkjanna sálugu þar sem megináhersla var lögð á þungaiðnað sem byggður var upp á vegum ríkisins. Tillitsleysi við náttúru og umhverfi var algert og arðsemi jafnvel aukaatriði. Stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi eru ekki til þess fallnar að hækka menntunarstig og treysta þannig grunn að þekkingarsamfélagi sem væri margfalt arðbærara en það hráefnissamfélag sem nú er lögð öll áhersla á að þróa. Byggðastefna af þessu tagi sem byggir á úreltum kosningaloforðum er dæmd til að mistakast. Hún er umhverfis- og samfélagsslys.
Náttúruvaktin, baráttuhópur fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði, lýsir þungri ábyrgð á hendur stjórnvöldum fyrir þessar framkvæmdir sem þröngvað var upp á þjóðina í miklu flaustri, án viðhlítandi rannsókna og án teljandi lýðræðislegrar umræðu. Einhverju fegursta víðerni í Evrópu er spillt og um leið framtíðarauðlind þessa lands. Komandi kynslóðir munu gráta þessi skemmdarverk.
Náttúruvaktin, baráttuhópur fyrir náttúruvernd og virkara lýðræði