Archive for október, 2005

okt 31 2005

Mannréttindabrot yfirvalda gagnvart mótmælendum eftir Jón Karl Stefánsson


Gagnauga.is
31. október 2005

Barátta fyrir verndun mannréttinda og gegn ofríki, hvort sem það er að hálfu yfirvalda eða annarra, er ekki bundin við fjarlæg heimshorn og s.l. sumar opinberaðist staða þessara mála er yfirvöld skáru upp herör gegn fólki sem mótmælti smíði Kárahnjúkavirkjunar og álvers í Reyðarfirði. Rétt er að tíunda atburðarrásina í samhengi við mannréttindayfirlýsingu SÞ.

Úr heimsyfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi:

9. grein.

Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera útlæga.

12. grein.

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. grein.

1) Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.

19. grein.

Hver maður skal frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra. [1]

Eftirfarandi lýsing er fengin frá vitnum, opinberum skjölum, Indymedia.org og SavingIceland.org. Lýsingin er ekki tæmandi og ber að teljast yfirlit.

Aðgerðir mótmælenda

19. júlí héldu 11 mótmælendur inná vinnusvæði Kárahnjúkavirkjunar. Lögregla mætti á staðinn en enginn var handtekinn og enginn kærður.

26. júlí stöðvaði hópur mótmælenda vinnu við Kárahnjúkavirkjun í 5 klukkustundir, hlekkjuðu sig við vinnuvélar og stöðvuðu þannig ferð þeirra og annarra sem biðu fyrir aftan. Lögregluþjónar mættu á svæðið um kl 14:30. Þeir virtust ekki vera vanir slíkum aðgerðum né vilja eiga nokkurn orðastað við mótmælendurna, skipuðu bílstjórum vinnuvélanna sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við að kveikja á vélunum og lögðu þannig líf þeirra í stórhættu. Bílstjórarnir voru ekki íslenskumælandi og samskipti milli manna voru því takmörkunum háð. Því næst hófu þeir að færa þá burt með valdi. Margir mótmælenda voru snúnir niður og lögreglan ásamt öryggisvörðum drógu mótmælendur í lögreglubíla. Einhverjir kvörtuðu undan barsmíðum af höndum lögreglu. Þrír mótmælendur voru handteknir og sakaðir um árás á lögreglu, en þeim var sleppt án kæru enda var einn þeirra hlekkjaður við vinnuvél meðan meint árás átti sér stað. Um kl. 17 leitaði lögregla án heimildar í öllum tjöldum í mótmælendabúðunum að eiturlyfjum, en án árangurs. Klukkan 22 færði lögreglan mótmælendum skipun um brottflutning frá búðunum, án þess að hafa lagaheimild. Næsta dag skipaði lögregla mótmælendum að yfirgefa búðirnar innan þriggja tíma með vísan í lög um öryggi almennings. [2]

Búðirnar voru því næst færðar í land bónda við Vað í héraði og 4. ágúst héldu þrettán mótmælendur til byggingarsvæðis álverksmiðju Alcoa í Reyðarfirði. Þar klifruðu þrír þeirra upp í byggingarkrana og hengdu þar borða með mótmælaslagorðum. Það tók lögreglu nokkurn tíma að ná mótmælendunum niður, og voru þeir handteknir og færðir í gæsluvarðhald en var að lokum sleppt án ákæru.

Lögreglan hóf nú stöðugt eftirlit með tjaldbúðum mótmælenda og víkingasveitin var send á staðinn. Lögreglumenn á ómerktum bílum eltu mótmælendur, og þá sem komu í heimsókn til heimilisfólks á Vaði, hvert sem þeir fóru. Til dæmis voru mótmælendur stöðvaðir á leið sinni til messu í Skriðdal þann 10. ágúst, sem auglýst var að væri öllum opin. Þegar ljóst var að engin lög geta hindrað fólk í að ferðast á opnu svæði brugðu lögreglumenn á það ráð að tefja för hópsins með því að láta stóran sendiferðabíl keyra löturhægt á undan hópnum og hindra þá í að keyra framhjá.

Búðirnar voru teknar niður um miðjan ágúst og margir mótmælenda héldu þá til Reykjavíkur. Lögregluþjónar eltu mótmælendur, suma þeirra alla leið, einnig þá sem fóru á puttanum. Eftirlitið hélt áfram í Reykjavík. Lögreglan neitaði því í fjölmiðlum að hún stundaði eftirlit með mótmælendunum, en fréttamaður RÚV náði myndum af því sem virtist vera ómerktur lögreglubíll að elta tvo íslenska mótmælendur um götur höfuðborgarsvæðisins. Stuttu eftir komu mótmælendanna til Reykjavíkur gaf sýslumannsembætti Eskifjarðar út tilskipun til dómsmálaráðuneytisins um að vísa þeim 21 erlenda ríkisborgara, sem lögreglan hafði skráð eftir mótmælaaðgerðir, úr landi. Til þess þurfti að koma brottvísunarpappírum til fólksins og fá það til að skrifa undir. Með það að yfirskyni voru mótmælendur og þeir sem umgengust þá eltir hvert sem þeir fóru. Um starfann sáu m.a. óeinkennisklæddir sérsveitarmenn. 16. ágúst var einn mótmælandi þannig handtekinn og ákærður fyrir árás á lögregluþjón þegar hann varði vinkonu sína fyrir árás ókunnugs manns, sem reyndist vera óeinkennisklæddur lögregluþjónn. Bæði voru handjárnuð og færð harkalega í lögreglubíl og allan tímann neitaði lögreglan að tjá sig við fólkið á nokkurn hátt. Stúlkunni var sleppt úr varðhaldi klukkustundum síðar án nokkurra skýringa. Manninum var hinsvegar haldið í sólarhring og að sögn hans fékk hann ekki að borða. Þrír vegfarendur fóru á lögreglustöðina þar sem honum var haldið til að kanna hvort brotið væri á réttindum hans. Lögreglan brást harkalega við og nokkrir lögregluþjónar færðu þá út með valdi. Þetta varð til þess að einn þeirra, háskólaprófessor á áttræðisaldri, féll með höfuðið í gangstétt og missti meðvitund. Lögreglumenn neituðu bón þeirra sem uppi stóðu um að hringja á sjúkrabíl og lögðu líf mannsins þannig í stórhættu, en hann hafði hlotið höfuðkúpubrot fyrr á ævinni. Fyrir mildi komst hann á endanum undir læknishendur, en ekki er enn ljóst hvort hann hefur hlotið varanlega skaða af.

Aðgerðir lögreglunnar héldu áfram og um kvöldið, 16. ágúst, ruddust 3 einkennisklæddir og 3 óeinkennisklæddir inn á svefnstað hóps mótmælenda. Þeir létu það ekki hindra sig þótt þeim væri tjáð að þeir hefðu ekki samþykki til húsleitar, en lögum samkvæmt verður lögregla að fá leyfi húsráðenda til þess ef hún hefur ekki húsleitarheimild [3].

illegal cops

Þeir réðust nokkrum dögum síðar aftur á verustað fólksins og hótuðu manni sem neitaði að tæma vasa sína að hrista úr þeim inni á stöð með því að hengja hann upp á fótunum, lýstu vasaljósi beint í augun á fólki og ógnuðu því. Svo mætti lengi halda áfram.

Rangar sakagiftir

Margir hafa ranglega eignað þessum hópi þegar klippt var á rafmagnsstreng og mokað yfir aftur. Þau eignaspjöll voru framin þegar eftirlit með mótmælendum var stíft og enn er ekki vitað hver eða hverjir voru að verki. Annað sem farið hefur hátt er eyðilegging vinnuvéla. Óljóst er hvernig sú saga fór á kreik, en líklega er átt við það þegar bensínleiðslu var kippt úr vinnuvél sem mótmælendur höfðu hlekkjað sig við. Slíkt telst ekki eyðilegging vinnuvélar og hafa ber í huga að þar sem lögregluþjónar höfðu skipað bílstjórum að kveikja á vélunum var lífi mótmælenda stefnt í hættu. Loks ber að nefna atvik þar sem maður úðaði slagorð með málningu, m.a. á styttu Jóns Sigurðssonar og ýmsar opinberar byggingar í Reykjavík. Sá sem fyrir því stóð var ekki á lista þeirra sem vísa átti úr landi.

Orðið „atvinnumótmælendur“ hefur verið notað oftar en einu sinni um þennan hóp, en engar upplýsingar liggja fyrir um að nokkur þeirra hafi hlotið borgun fyrir mótmæli sín og teljast slík ummæli því rógburður.

Átylla lögreglunnar fyrir þessum aðförum er beiðni um brottvísun fólksins frá landi, en enginn þeirra hefur hlotið ákæru og því eru mótmælendurnir jafn saklausir og hver annar gagnvart lögum. Þetta bendir til þess að í raun geti hver sem er lent í slíkum ofsóknum yfirvalda. Lögfræðingur hópsins fékk í hendurnar afrit af símbréfi frá Hildi Dungal, forstöðumanni Útlendingaeftirlitsins, til embættis ríkislögreglustjóra, þar sem þess er krafist að lögreglan elti uppi „neðangreinda einstaklinga“ og fái þá til að skrifa undir „meðfylgjandi bréf“. Bréfið er dagsett 11. ágúst og stimplað af Útlendingaeftirlitinu. 20. ágúst þverneitaði Hildur því í viðtali við DV að til væri listi yfir fólk sem Útlendingaeftirlitið vildi vísa úr landi. [4]

Aðferðir yfirvalda í þessu máli ættu að vera öllum umhugsunarefni. Þeir sem þurfa í framtíðinni að berjast fyrir réttindum sínum, t.a.m. launþegar fyrir kjörum sínum eða aðrir sem telja að órétti sé beitt, eiga á hættu að verða fyrir svipuðum árásum vegna krafna sinna. Þeir sem vilja halda völdum geta alltaf fundið afsakanir fyrir því að skerða frelsi annarra, stunda eftirlit með þeim og refsa þeim sem ógna stöðu þeirra; þessar afsakanir geta verið í formi verndar gegn hryðjuverkum eða öðrum glæpum, skjótrar ákvörðunartöku o.s.frv. Fólk skyldi ætíð vera á verðbergi gagnvart slíkum yfirhylmingum og vilja til að viðhalda völdum og auka við þau. Þegar öllu er á botninn hvolft er það á okkar ábyrgð að berjast fyrir réttindum okkar og friði til að nýta okkur þau og því þurfa allir sem vettlingi geta valdið að ljá krafta sína baráttunni fyrir mannréttindum, frelsi og réttlæti.

fuckyou

1. http://www.un.dk/icelandic/IS_Menneskerettighedserkl/is_men_frame.htm

2. Police endanger Iceland dam protestors, IndyMedia, 26.07.2005

3. Deportations, IndyMedia, 17. ágúst 2005; Police harassment, savingiceland.org, 17. ágúst 2005

4. Surprise, surprise!, savingiceland.org.

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Náttúruvaktin