okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar

Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Náttúruvaktin