Archive for 2006

des 21 2006

‘Stórfyrirtæki, lýðræði og beinar aðgerðir’ eftir Sigurð Harðarson


1

Hlutverk stórfyrirtækja er alltaf að færa eigendum sínum aukinn auð og völd. Því stærri og umsvifameiri sem fyrirtæki verða því meiri áhersla verður á þetta. Sama á við um öll kerfi og stofnanir manna sem ætlað er að stýra samfélagi, því stærri sem þau verða, því meira snúast þau um að viðhalda sjálfum sér. Má vera að til séu stór fyrirtæki sem þetta á ekki við um en þau eru svo fá að þau ná ekki að hafa áhrif á valdaskipulag markaðarins. Read More

nóv 17 2006

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif beinna aðgerða


STOP!

 

Andspyrna.org

Þegar vandamál koma upp í lýðræðislegu samfélagi þannig að fólki finnst vegið að frelsi sínu eða réttlætiskennd sinni misboðið, er fyrsta hugsun flestra að ríkisstjórnin eigi að gera eitthvað í málinu. Þegar hinsvegar þessi sama ríkisstjórn eða einhver stofnun hennar bera ábyrgð á óréttlætinu er hugað að kosningum – að kjósa betur næst – vitandi að í grundvallaratriðum mun það ekki breyta neinu. Read More

sep 27 2006

Vantaði bara leiðtoga?


Helga Katrín Tryggvadóttir

Í gærkvöldi, þann 26.september, söfnuðust einhvers staðar á bilinu 8.000-15.000 manns saman í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla virkjunar- framkvæmdum við Kárahnjúka. Mörgum myndi finnast það seint í rassinn gripið þar sem til stendur að byrja að hleypa vatni í Hálsalón tveimur dögum síðar. Hvers vegna er fólk tilbúið að mótmæla framkvæmdunum nú þegar það virðist vera orðið of seint? Read More

sep 27 2006

Álftin, ormurinn og fljótið


Gréta Ósk Sigurðardóttir

EFTIR Lagarfljóti heitir Fljótsdalur og Fljótsdalshérað eftir dalnum. Fljótið er lífæð Héraðsins og í því býr sál þess í líki Ormsins. Frá upphafi byggðar hefur það verið örlagavaldur. Halldór Laxness yrkir um ,,fljótsins dreymnu ró“. ( Helgi Hallgrímsson: LAGARFLJÓT)

Í júlí sl.var gönguhópur Augnabliks á ferð niður með Jökulsá í Fljótsdal. Áin geymir fegurstu fossaröð Íslands, nú eign ALCOA. Hún er aurminnsta jökuláin öfugt við stöllu sína Jökulsá á Brú sem er aurugust. Því varðveittist þessi einstæða fossaröð.

Gengið var niður með ánni og áð við hinn magnaða foss Faxa. Sumir gengu niður að fossinum, aðrir tóku upp nesti. Ég ráfaði eitthvað um, sá örfáar kindur framundan og þótti ein hafa æði skrýtið vaxtar- og göngulag, ekki kindarlegt. Þarna kjagaði álft með blessuðum skjátunum. Hugsaði ég ekki meir útí það en settist hjá fólkinu.

Sem við sitjum þarna þá flýgur álftin yfir, segir „gvak“ og svo rakleitt í fossinn. Þögn sló á hópinn og leitt að sjá blessaða skepnuna farast í fossinum. Veltu menn vöngum en komust ekki að niðurstöðu. Kona stóð við fossinn og sýndist henni álftin reyna að bremsa sig af áður en hún hvarf í iðuna. Þegar við héldum af stað á ný sá ég hvar álftin duggaði í ánni hinumegin við bakkann og kom í ljós að hún var lifandi og spræk. Hvar sem þessi saga var sögð þótti mönnum undrum sæta.

Mánuði seinna er ég enn á ferð þarna og er gengið upp með ánni, frá Glúmsstaðaseli. Þegar við komum að Axaránni sjáum við álftina á klettasyllu í brattri hlíðinni fast við fossinn, einsog að hún lægi á hreiðri sem var auðvitað ekki raunin. Fylgdist hún stóísk með okkur. Var þetta undarlegur staður fyrir álft að halda sig á. Sagði ég Helga Hallgrímssyni alla álftarsöguna þegar ég kom til byggða. Hann spyr hvort ég sé skyggn. Ég neita og bendi á að allir hafi séð álftina. Þá segir Helgi að sagt sé að Lagarfljótsormurinn birtist gjarnan í álftarlíki á undan stórtíðindum. Finn ég strax að skýring Helga muni rétt.

Um miðjan ágúst er ég á ný í ferð niður með ánni. Heitt er í veðri og allt eins unaðslegt og á verður kosið, geti maður gleymt því að ALCOA fékk fossana að gjöf og ætlar að múlbinda þá. Það er lenska í þessum ferðum að taka fjaðrir sem á vegi verða, aðallega gæsafjaðrir og skreyta sig með þeim. Er þá stundum sem fari þar indíánahópur! Ég leita að álftinni minni, orminum mínum, en sé hann hvergi. Þá liggur allt í einu fyrir fótum mér drifhvít álftarfjöður sem enginn hafði komið auga á. Veit ég um leið að þar eru komin skilaboð frá Orminum til mín að nú sé hann kominn í ormshaminn og því finni ég hann ekki í álftarlíki. Var ég hrærð og glöð og huggun að vita að nú sé hann kominn á vaktina að verja sitt Fljót. Ekki hafa Héraðsbúar í sér döngun að reyna að halda hlífiskildi yfir lífæð síns Héraðs, þeirri náttúruperlu og Héraðsstolti sem Fljótið er og ætti að vera. Malda þeir ekki í móinn yfir að foraðinu, Jöklu blessaðri skuli veitt milli vatnasviða, sem er skýrt lögbrot og siðlaust með öllu. Má vart á milli sjá hvort það er meiri móðgun fyrir Jöklu eða Fljótið. Það er eins rangt og hugsast getur að raska þannig jafnvægi Móður Náttúru sem veit hvað hún syngur.

En hún tekur til sinna ráða og Austfirðingar kalla hefnd hennar yfir þjóðina með því að heimta álversskrímslið, Héraðsbúar með að verja ekki sitt Hérað, ríkisstjórnin með siðspillingu og þjóðin með að fljóta sofandi að feigðarósi og vilja ekki vita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jökla hefnir sín með Dauðalóni (Hálslóni). Gróðri og náttúruperlum verður drekkt, dýra- og fuglalífi raskað, leirfok spillir lífsgæðum á Héraði um ókomna tíð. Lagarfljót breytist úr dulúðugu vatnsfalli í drullupoll. Ekki þarf skyggnigáfu til að sjá að Austfirðingar verða lagðir í einelti þegar fram líða stundir fyrir að heimta þennan skerf þjóðaeignarinnar með offorsi. Fari á versta veg getur orðið hamfarahlaup. Er þá ekki spurt að leikslokum.

Allt leggst á eitt um að vara okkur við að halda þessari virkjun til streitu, og enn er hægt að hætta við. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að ,,Kárahnjúkavirkjun … muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin muni fyrirsjáanlega hafa…“ Alþjóð veit að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og gaf falleinkunn. Að auki er eitthvað bogið við að ekki megi tala um nýtt arðsemismat en þjóðin neydd til fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmdinni. Ekki er seinna vænna að vakna til vitundar og hlusta á viðvaranir, þessa heims og annars.

Að lokum er góð ábending frá Landsvirkjun af kortinu ,,Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell“. Þar er bent á að eyða ekki né spilla gróðri, trufla ekki fugla- og dýralíf og ekki hlaða vörður (bara stíflur!). Svo koma gullvæg orð sem ég bið þá sjálfa og alla íbúa þessa lands að íhuga: MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER ENGIN SKÖMM AÐ ÞVÍ AÐ SNÚA VIÐ Í TÍMA.

Höfundur er bóndakona á Vaði í Skriðdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 14 2006

‘Er Mogginn „öfgafullur“?’ eftir Hlyn Hallsson


Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa hinn nafnlausa dálk sem kallast „Staksteinar“ í Morgunblaðinu. Þessi skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar eru nefninlega gjarnan svo vandræðaleg og full af bulli að óþarfi er að leggja sig niður við að lesa eindálkinn. Þegar maður sér hinsvegar sjaldan Morgunblaðið og eitt eintak berst svo í hendurnar á manni til Berlínar, fellur maður í þá gryfju að lesa blaðið helst upp til agna og svo fór með mig og Moggann frá fimmtudeginum 10. ágúst. Þar fer hinn ónafngreindi Staksteinahöfundur mikinn við að lýsa ógurlegri vandlætingu sinni á „öfgafullum“ náttúruverndasinnum (sem eru víst útlenskir í þokkabót).

Þetta fólk hefur verið að mótmæla mesta slysi íslandssögunnar af manna völdum: Kárahnjúkavirkjun. Hinn nafnlausi höfundur Staksteina bendir lögreglunni á að „spila“ ekki uppí hendurnar á mótmælendum, því það sé einmitt það sem þeir vilji. Svo er haldið áfram í dálkinum að telja upp hvað þessi virkjun sé ofboðslega lögleg og að yfirgnæfandi meirihluti alþingismanna hafi samþykkt hana og svo framvegis.

Friðsamleg mótmæli Read More

ágú 10 2006

Harkalegar aðgerðir yfirvalda á Íslandi


Einar Rafn Þórhallsson
Morgunblaðið
Ágúst 2006

Undanfarin misseri hefur lögreglan verið með mjög mikla löggæslu á hálendinu, nánar tiltekið norðan Vatnajökuls á svonefndu Kárahnjúkasvæði. Þar er mesta hitamálið Hálsalón sem er 57 ferkílómetrar að stærð og mun rafmagnsframleiðslan af þessum virkjanaframkvæmdum renna óskipt í að knýja álver Alcoa í Reyðarfirði.

Þetta sumar hefur verið mikill ferðamannastraumur á svæðið norðan Vatnajökuls þar sem fólk vill sjá og njóta stórbrotinnar náttúru sem senn fer undir vatn. Einnig hefur safnast saman stór hópur af fólki, bæði íslensku og erlendu, til að mótmæla þessum framkvæmdum ríkisstjórnarinnar. Í júlí stóðu Íslandsvinir og Saving Iceland fyrir fjölskyldubúðum við Snæfell þar sem yfir 200 manns tjölduðu og sýndu hug sinn í verki. Búðunum lauk 31.júlí en staðfastur hópur hélt áfram að mótmæla. Allan tímann hefur lögreglan haft mikinn viðbúnað sökum mögulegra mótmæla.

Read More

ágú 05 2006

Ógnandi framkoma lögreglu


Fréttablaðið

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“

júl 11 2006

Frumvinnsla áls – Lýsing á hinni mengandi og orkufreku framleiðslu álbarra


Hlaðið niður PDF skránni hér.

Þýtt úr “Foiling the Aluminum Industry

maí 29 2006

Íslandsvinir spyrja þig


Upplýsingabæklingur Íslandsvina.

Vissir þú að …

1)…eftirfarandi svæði eru í bráðri hættu eða verða fyrir umtalsverðu raski vegna stóriðjuframkvæmda; Torfajökulssvæðið, Landmannalaugar, Skjálfandafljót, Skaftá, Jökulsár Skagafjarðar, Kerlingafjöll, Brennisteinsfjöll, Krísuvík, Langisjór, Þjórsá, Aldeyjarfoss, Lagarfljót, Þeistareykir, Gjástykki, Töfrafoss, Lindur, Jökla og Dynkur. Ótal fleiri svæði eru í bráðri hættu.

2)…Landsvirkjun hefur sótt um rannsóknarleyfi á eftirfarandi stöðum: í Brennisteinsfjöllum, á Gjástykki og nágrenni. Einnig á vatnasviði Skjálfandafljóts, Tungnaár ofan Sigöldu, Þjórsár neðan Búrfells, Efri hluta Skaftár og Vestari- og Austari Jökulsár í Skagafirði.

3)…önnur raforkufyrirtæki hafa sótt um rannsóknarleyfi á Reykjanesskaga, í Reykjadölum, í Rangárþingi ytra, í Kerlingafjöllum, í Brennisteinsfjöllum, á Vatnasviði Hólmsár í Skaftárhreppi, á vatnasviði Austari-og vestari Jökulsár í Skagafirði, Skjálfandafljóti, á og við Grændal og í Fremrinámum. Read More

maí 09 2006

Partí umhverfisverndarsinna 15. maí


Alþjóð er boðið í Partí þann 15. Maí við Nordica Hotel til þess að mótmæla þeirri stefnu sem ríkisstjórnin og frammámenn viðskiptalífsins hafa markað í iðnaðar og viðskiptamálum.

Hafið þið velt fyrir ykkur hvers vegna svo fáir mæta í íslensk mótmæli? Við höfum svarið við því. Það er vegna þess að þau eru svo leiðinleg og molluleg að þau eru betur fallin til þess að drepa niður baráttuandann fremur en hitt.

Einhverra hluta vegna virðist hafa skapast hefð fyrir því að íslenskir mótmælendur standi stirðir og þegi þunnu hljóði hvar sem þeir koma saman, og í okkar huga vekur það spurningar eins og: hver hlustar á þá sem þegja? Þessu viljum við breyta og höfum við því ákveðið að gera tilraun til þess þann 15. Maí. þegar The Economist heldur ráðstefnu sem kostuð er af ALCOA, FL Group, Landsbankanum og KOM (sjá nánar: http://www.ogmundur.is/news.aspid=658&news_ID=2601&type=one Read More

Náttúruvaktin