Ég hef ekki lagt það í vana minn að lesa hinn nafnlausa dálk sem kallast „Staksteinar“ í Morgunblaðinu. Þessi skrif sem eru á ábyrgð ritstjóra Morgunblaðsins Styrmis Gunnarssonar eru nefninlega gjarnan svo vandræðaleg og full af bulli að óþarfi er að leggja sig niður við að lesa eindálkinn. Þegar maður sér hinsvegar sjaldan Morgunblaðið og eitt eintak berst svo í hendurnar á manni til Berlínar, fellur maður í þá gryfju að lesa blaðið helst upp til agna og svo fór með mig og Moggann frá fimmtudeginum 10. ágúst. Þar fer hinn ónafngreindi Staksteinahöfundur mikinn við að lýsa ógurlegri vandlætingu sinni á „öfgafullum“ náttúruverndasinnum (sem eru víst útlenskir í þokkabót).
Þetta fólk hefur verið að mótmæla mesta slysi íslandssögunnar af manna völdum: Kárahnjúkavirkjun. Hinn nafnlausi höfundur Staksteina bendir lögreglunni á að „spila“ ekki uppí hendurnar á mótmælendum, því það sé einmitt það sem þeir vilji. Svo er haldið áfram í dálkinum að telja upp hvað þessi virkjun sé ofboðslega lögleg og að yfirgnæfandi meirihluti alþingismanna hafi samþykkt hana og svo framvegis.
Friðsamleg mótmæli
Nú hefur margsinnis verið bent á að það sé í mesta lagi umdeilanlegt hvort öllum framkvæmdum við Kárahnjúka og ferlinu fram að þeim ákvörðunum að reisa stýfluna miklu, flytja til jökulár og sökkva einstöku landsvæði, hafi ekki einmitt verið unnið í æðibunugangi og af þvílíkum æsingi af virkjunarsinnum að teljast má til öfga. Einnig að úrskurður skipulagsstofnunar var gerður afturrækur og svo má lengi telja. Það hefur einnig verið bent á lýðræðislegan rétt fólks til að mótmæla. Það voru mótmæli fólks um allan heim sem að lokum stöðvuðu hernað Bandaríkjanna í Víetnam. Mótmæli hafa einnig oft komið í veg fyrir umhverfisslys eins og virkjun Gullfoss, að Eyjabökkum yrði sökkt og einnig Þjórsárverum og sama má segja um Laxárdal. Það að hlekkja sig við vinnuvélar er ekki ofbeldi heldur táknræn mótmæli en ekki hugsuð til að koma endanlega í veg fyrir framkvæmdir. Það er hinsvegar öfgafullt af lögreglunni að ráðast á mótmælendur og ferðafólk á hálendinu. Það að hundelta fólk og yfirheyra það eins og ég og sonur minn fengum að sannreyna á leið frá Snæfelli að Kárahnjúkum fyrir 12 dögum getur einnig ef til vill talist „öfgafullt“. Það er hinsvegar sérstaklega ánægjulegt að fjöldi fólks hefur tekið þátt í að mótmæla á sinn hátt á svæði sem tilheyrir okkur öllum, enda er aukinn stuðningur við náttúruvernd meðal annars þessu fólki að þakka. Þegar meðlimir Sigurrósar slást í hópinn og halda magnaða tónleika við Snæfell er mikilvægum áfanga náð.
Fólk áttar sig á öfgunum
Sem betur fer var í sama Morgunblaði frábært opið bréf Ómars Ragnarssonar og boð til ráðamanna í skoðunarferð um svæðið við Kárahnjúka sem fer undir vatn sem andsvar við boðsferðum Landsvirkjunar. Hvort ráðamenn þyggja boð Ómars efast ég hinsvegar um en óskandi væri að þeir gerðu það og kynntu sér raunverulega allar hliðar málsins. Draumaland Andra Snæs Magnasonar á einnig stóran þátt í því að fólk er að átta sig á hvílík mistök ráðamenn þjóðarinnar gerðu með því að knýja í gegn með „öfgafullum“ hætti samþykki fyrir stýflunni stóru. Fullyrðingin um að stóriðjustefna ríkisstjórnar framsóknar og sjálfstæðisflokks sé ekki lengur til er í mesta lægi lélegur brandari en um leið stórhættulegur. Það er ekki nema nokkrir mánuðir síðan núverandi utanríkisráðherra og þáverandi iðnaðarráðherra fór um Norðurland og lofaði fleiri virkjunum og álbræðslu sem nú er verið að undirbúa á Bakka við Húsavík. Það getur enginn stöðvað stóriðjustefnu ríksistjórnarinnar nema kjósendur. Og aðeins með því að kjósa Vinstri græn, sem eru þau einu sem staðið hafa þétt gegn áformum stjórnvalda um að sökkva hálendinu, stöðva jökulár og reysa fleiri álbræðslur.