sep 27 2006

Álftin, ormurinn og fljótið

Gréta Ósk Sigurðardóttir

EFTIR Lagarfljóti heitir Fljótsdalur og Fljótsdalshérað eftir dalnum. Fljótið er lífæð Héraðsins og í því býr sál þess í líki Ormsins. Frá upphafi byggðar hefur það verið örlagavaldur. Halldór Laxness yrkir um ,,fljótsins dreymnu ró“. ( Helgi Hallgrímsson: LAGARFLJÓT)

Í júlí sl.var gönguhópur Augnabliks á ferð niður með Jökulsá í Fljótsdal. Áin geymir fegurstu fossaröð Íslands, nú eign ALCOA. Hún er aurminnsta jökuláin öfugt við stöllu sína Jökulsá á Brú sem er aurugust. Því varðveittist þessi einstæða fossaröð.

Gengið var niður með ánni og áð við hinn magnaða foss Faxa. Sumir gengu niður að fossinum, aðrir tóku upp nesti. Ég ráfaði eitthvað um, sá örfáar kindur framundan og þótti ein hafa æði skrýtið vaxtar- og göngulag, ekki kindarlegt. Þarna kjagaði álft með blessuðum skjátunum. Hugsaði ég ekki meir útí það en settist hjá fólkinu.

Sem við sitjum þarna þá flýgur álftin yfir, segir „gvak“ og svo rakleitt í fossinn. Þögn sló á hópinn og leitt að sjá blessaða skepnuna farast í fossinum. Veltu menn vöngum en komust ekki að niðurstöðu. Kona stóð við fossinn og sýndist henni álftin reyna að bremsa sig af áður en hún hvarf í iðuna. Þegar við héldum af stað á ný sá ég hvar álftin duggaði í ánni hinumegin við bakkann og kom í ljós að hún var lifandi og spræk. Hvar sem þessi saga var sögð þótti mönnum undrum sæta.

Mánuði seinna er ég enn á ferð þarna og er gengið upp með ánni, frá Glúmsstaðaseli. Þegar við komum að Axaránni sjáum við álftina á klettasyllu í brattri hlíðinni fast við fossinn, einsog að hún lægi á hreiðri sem var auðvitað ekki raunin. Fylgdist hún stóísk með okkur. Var þetta undarlegur staður fyrir álft að halda sig á. Sagði ég Helga Hallgrímssyni alla álftarsöguna þegar ég kom til byggða. Hann spyr hvort ég sé skyggn. Ég neita og bendi á að allir hafi séð álftina. Þá segir Helgi að sagt sé að Lagarfljótsormurinn birtist gjarnan í álftarlíki á undan stórtíðindum. Finn ég strax að skýring Helga muni rétt.

Um miðjan ágúst er ég á ný í ferð niður með ánni. Heitt er í veðri og allt eins unaðslegt og á verður kosið, geti maður gleymt því að ALCOA fékk fossana að gjöf og ætlar að múlbinda þá. Það er lenska í þessum ferðum að taka fjaðrir sem á vegi verða, aðallega gæsafjaðrir og skreyta sig með þeim. Er þá stundum sem fari þar indíánahópur! Ég leita að álftinni minni, orminum mínum, en sé hann hvergi. Þá liggur allt í einu fyrir fótum mér drifhvít álftarfjöður sem enginn hafði komið auga á. Veit ég um leið að þar eru komin skilaboð frá Orminum til mín að nú sé hann kominn í ormshaminn og því finni ég hann ekki í álftarlíki. Var ég hrærð og glöð og huggun að vita að nú sé hann kominn á vaktina að verja sitt Fljót. Ekki hafa Héraðsbúar í sér döngun að reyna að halda hlífiskildi yfir lífæð síns Héraðs, þeirri náttúruperlu og Héraðsstolti sem Fljótið er og ætti að vera. Malda þeir ekki í móinn yfir að foraðinu, Jöklu blessaðri skuli veitt milli vatnasviða, sem er skýrt lögbrot og siðlaust með öllu. Má vart á milli sjá hvort það er meiri móðgun fyrir Jöklu eða Fljótið. Það er eins rangt og hugsast getur að raska þannig jafnvægi Móður Náttúru sem veit hvað hún syngur.

En hún tekur til sinna ráða og Austfirðingar kalla hefnd hennar yfir þjóðina með því að heimta álversskrímslið, Héraðsbúar með að verja ekki sitt Hérað, ríkisstjórnin með siðspillingu og þjóðin með að fljóta sofandi að feigðarósi og vilja ekki vita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jökla hefnir sín með Dauðalóni (Hálslóni). Gróðri og náttúruperlum verður drekkt, dýra- og fuglalífi raskað, leirfok spillir lífsgæðum á Héraði um ókomna tíð. Lagarfljót breytist úr dulúðugu vatnsfalli í drullupoll. Ekki þarf skyggnigáfu til að sjá að Austfirðingar verða lagðir í einelti þegar fram líða stundir fyrir að heimta þennan skerf þjóðaeignarinnar með offorsi. Fari á versta veg getur orðið hamfarahlaup. Er þá ekki spurt að leikslokum.

Allt leggst á eitt um að vara okkur við að halda þessari virkjun til streitu, og enn er hægt að hætta við. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að ,,Kárahnjúkavirkjun … muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin muni fyrirsjáanlega hafa…“ Alþjóð veit að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og gaf falleinkunn. Að auki er eitthvað bogið við að ekki megi tala um nýtt arðsemismat en þjóðin neydd til fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmdinni. Ekki er seinna vænna að vakna til vitundar og hlusta á viðvaranir, þessa heims og annars.

Að lokum er góð ábending frá Landsvirkjun af kortinu ,,Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell“. Þar er bent á að eyða ekki né spilla gróðri, trufla ekki fugla- og dýralíf og ekki hlaða vörður (bara stíflur!). Svo koma gullvæg orð sem ég bið þá sjálfa og alla íbúa þessa lands að íhuga: MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER ENGIN SKÖMM AÐ ÞVÍ AÐ SNÚA VIÐ Í TÍMA.

Höfundur er bóndakona á Vaði í Skriðdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Náttúruvaktin