Andrea Ólafsdóttir
22 janúar 2007
Fréttastofa RÚV sýndi mikla hlutdrægni í áramótaannál og sveik þar með skyldu sína og almenning í landinu. Ein meginskylda Ríkisútvarpsins skv. lögum er að það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Hlutleysið eða óhlutdrægnin er greinilega ekki til staðar í hvívetna og í annál RÚV kom í ljós alger þöggun og skýr afstaða fréttastofu (eða þeirra starfsmanna sem tóku saman efnið í annálinn) með stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Það mætti því spyrja í framhaldinu hvort fréttastofa RÚV sé í raun og veru búin að lýsa sig vanhæfa í að flytja fréttir um allt er varðar stóriðju? Svona rétt eins og fréttastofan dæmdi Ómar Ragnarsson úr leik frá öllum fréttaflutningi um umhverfismál þegar hann tók opinberlega afstöðu gegn stóriðjustefnunni og frekari álvæðingu. Ómar bloggar nú um virkjanafíkn íslendinga, kíkið endilega á síðuna hans. Blessaða kryddsíldin á stöð 2 var ágæt að sumu leyti, en þó var erfitt að horfa upp á tvískinnunginn þar sem í einni andrá var Ómar heiðraður sem maður ársins, en í næstu andrá komu auglýsingar frá Alcan í hverju auglýsingahléi og yfirlýsingar um að þeir væru styrktaraðilar þáttarins. Í því sambandi væri kannski rétt að spyrja hvort eðlilegt sé að fréttir eða frétta- og stjórnmálaskýringaþættir séu kostaðir eða styrktir sérstaklega af stórfyrirtækjum? Eða hvort þá sé eðlilegra að enginn sérstakur aðili styrki slíka þætti, heldur séu bara almennar auglýsingar í hléum?
Mikil vonbrigði beinast hins vegar að hinum „hlutlausa“ sjónvarpsmiðli landsmanna allra, RÚV, sem kaus að sýna aðeins mjög lítið brot af þeim mótmælum sem virkjanamálin hafa kallað fram hjá þjóðinni á árinu – og það á einu mesta mótmælaári í sögu landsins! Vart hafa sést önnur eins og margmenn mótmæli í sögu lýðveldisins, nema þá á Kvennafrídeginum og gagnvart hernum – en friðsamleg mótmæli þúsunda og tugþúsunda íslendinga á árinu fannst fréttastofunni ekki fréttnæm. Í annálnum valdi Rúv að sýna mjög skýrt fram á hlutdrægni sína í fréttamati og flutningi. Það sem sýnt var af mótmælum var kallað „brambolt“ á Kárahnúkasvæðinu og tekið fram að mótmælendur hefðu hlotið fangelsisdóma og sektir.
Sýnt var frá því er innan við 50 Húsvíkingar héldu „Álvöku“ og fögnuðu og lýstu yfir stuðningi við álversframkvæmdir á Húsavík – en fréttastofan lét liggja milli hluta að sýna mótvægið sem kom stuttu síðar, sem var „Ál-andvaka“ sem haldin var af Húsvíkingum ásamt Reykvíkingum á höfuðborgarsvæðinu og var í það minnsta jafn fjölmenn og álvakan á Húsavík. Í fréttinni um Kárahnúka töluðu starfsmenn Landsvirkjunar um „stærstu virkjun hér á landi“, „stærsta fallvegginn“, „lengstu borgöngin“ o.s.frv, og risavaxið Hálslón var sýnt fagurhvítt undir snjóþekju eins og jólakort.
Ekkert var talað um stórtónleikana í Laugardalshöll sem mörg þúsund manns sóttu og ekki var minnst einu orði á göngu Íslandsvina á kosningadag. Þeir sem fylgdust vel með annálnum hafa því væntanlega spurt sig hvort fréttastofan „hlutlausa“ hafi ákveðið að sýna í staðinn opinberun Ómars Ragnarssonar sem var kosinn maður ársins af þjóðinni og fleirum, gönguna miklu sem hann efndi til og fylgikálf Morgunblaðsins sem hann lét prenta á eigin kostnað. EN – NEI – það var ekki einu orði minnst á gönguna hans Ómars, þar sem um 11-15.000 manns tóku loks af skarið og lýstu yfir óánægju sinni og andstöðu við stóriðjustefnuna, ásamt Ómari, Vigdísi Finnboga og Andra Snæ, sem leiddu gönguna.
Þessi þöggun er þó alveg í takt við fréttaflutning af Íslandsvinagöngunni og Ómarsgöngunni á sínum tíma, en varast var að segja frá því þegar þær voru í undirbúningi og fréttastofan flutti fyrst fréttir af Ómarsgöngunni þegar hún var hafin, líklega til að tryggja að færri kæmu – að ekki sé minnst á þöggunina sem átti sér stað á kosningadag þegar Íslandsvinir gengu saman, um 2-3000 manns. Þá ákvað fréttastofan „hlutlausa“ að sýna ekki fréttina fyrr en kvöldið eftir (sem þó var tekin upp um miðjan dag og var tilbúin til útsendingar). Ætli efnið hafi þótt of eldfimt á kosningadag? Ársannáll RÚV í þetta skiptið staðfesti því enn á ný þöggun og hlutdrægni fréttastofu allra landsmanna. Það má því spyrja sig hvort það hafi verið fréttamennirnir sem sáu um annálinn eða aðrir yfirmenn sem lögðu línurnar á fréttastofunni sem á skv. lögum að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð.
Hver eru skilaboð RÚV með þessu?
„RÚV styður stóriðjustefnuna“?
„RÚV þykir margþúsundamótmæli á árinu ekki fréttnæm“?
„Hafiði hljótt um skoðanir ykkar á stærstu framkvæmdum og stærstu náttúruspjöllum Íslandsögunnar“!?
Það hefði aldeilis þótt markvert og fréttnæmt ef milljónir manna hefðu farið á götur út til að mótmæla í Englandi eða USA – en ef fjöldinn er borinn saman við t.d. USA eða Stóra-Bretland eru þessar tölur eru sambærilegar við :
Íslandsvinaganga á kosningadag ca 1% þjóðarinnar = 3 milljón manns í USA
Ómarsgangan ef 11 þús. manns = 11 milljónir í USA
eða ef það voru 15 þús. manns = 15 milljonir manns í USA.
Um 60 milljónir búa í UK og þar hefði því þurft 2,2 – 3 milljónir manna til að það væri sambærilegt
Slíkt hefði nú þótt aldeilis fréttnæmt og sennilega á alþjóðavísu ef svo margmenn mótmæli hefðu orðið í USA.