júl 14 2007

‘Stóra samhengið’ eftir Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing

Virkjanaæði stjórnvalda stefnir fiskimiðum landsins í voða

Handan stærstu stíflu veraldar, í Kína, er afkróað hráefni sem nærir heilt vistkerfi.
J. Marshall. “Þriggja Gljúfra stíflan ógnar fengsælli veiðislóð”. 2006

Þann 25. febrúar 2006 birtist sláandi grein í New Scientist um niðurstöður kínverskra náttúrufræðinga sem fylgst hafa með vistkerfi Austur-Kínahafs frá árinu 1998 með það í huga að geta sagt til um áhrif Þriggja Gljúfra stíflu á lífríki hafsins. Vatnssöfnun í lónið hófst árið 2003.

Tveimur mánuðum síðar stórminnkaði magn svifþörunga í Kínahafi en þeir eru undirstaða vistkerfisins og þar af leiðandi fiskveiða – líkt og hér. Núna, þremur árum síðar, álíta sjávarlíffræðingar að stíflan ógni fengsælum veiðibanka Austur-Kínahafs; „Selvogsbanka“ þeirra og miðum.

Sjaldan hefur birst eins afdráttarlaus rannsóknarniðurstaða um neikvæð áhrif stíflna og uppistöðulóna í aurugum fljótum eftir jafn skamman líftíma virkjunar. Ástæða fyrir hruninu er minna ferskvatnsstreymi, engin náttúruleg flóð og þá ekki síst dvínandi uppleyst næringarefni í árvatninu, af völdum stíflunnar. Þótt erfitt hljóti að vera fyrir valdhafa að kyngja niðurstöðunni má hrósa Kínverjum fyrir öguð vinnubrögð, án pólitískra afskipta.

Vert er að hafa í huga að niðurstaðan er ekki aðeins ískyggileg fyrir Kínverja og virkjanagraða Indverja, heldur fyrir allar þjóðir sem af kappi en lítilli forsjá virkja aurug fallvötn, að ekki sé talað um þær þjóðir sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, strandveiðum einkanlega, eins og gildir um Íslendinga.

Margoft hefur verið bent á að vistfræðileg áhrif af stífluðum jökulvötnum eru neikvæð og víðtæk. Undarleg fjölmiðlaþögn hefur samt verið um þau afdrifaríku áhrif á sjávarnytjar hér á landi þrátt fyrir upplýsinguna en alvarlegust er grafarþögn Hafrannsóknastofnunar.

Strax árið 1993 benti Ólafur S. Andrésson lífefnafræðingur á afgerandi tengsl á milli Skeiðarárhlaupa og stærðar þorsksárganganna í greininni “Hlaupaþorskar” (Mbl. 7.júní 1993). Ólafur áttaði sig, fyrstur allra, á ótvíræðu samhengi á milli Skeiðarárhlaupa og óvenju stórs þorskstofns. Í Mbl. 9. ágúst 2001 hafði Jón Ólafsson haffræðingur í frammi þungar áhyggjur af áhrifum Kárahnjúkavirkjunar á lífríki sjávar; Sigurður Reynir Gíslason og félagar sendu frá sé merka grein í Geology í janúar 2006. Fleiri hafa komið við sögu.

Hér skal aðeins drepið á þrennskonar áhrif af stíflun jökulfljóta á lífskilyrði í sjó.

1. Uppleyst næringarefni stíflaðra jökulfljóta skila sér verr til sjávar. Frumframleiðsla svifþörunga í sjó minnkar og dregur úr þrótti allrar auðlindarinnar.

2. Vor- og haustflóð truflast, jafnvel hverfa; dægursveiflur hætta. Þetta þýðir að þegar næringarefni fallvatna gusast til sjávar á vorin stilla þau takt sjávarlífs, sjálfan lífsrytmann. Dægursveiflur jökulvatna viðhalda ástandinu. Í yfirborði strandsjávar myndast af þessum sökum ferskvatnshimna vegna minni eðlismassa og eðlisþyndar ferskvatns en á mörkum þess og brimsalts sjávar myndast einskonar næringarteppi þar sem svifþörungar og svifdýr dafna best. Við næringarsturtuna margfaldast svifþörungar og á sama tíma klekjast svifdýr og þessum takti fylgja seiði margra nytjastofna. Sjávarlíf er þannig drifið áfram af þrótti svifþörunga og virkjanir jökulvatna skaða starfsemi þeirra.

3. Í svifaur jökulvatna eru uppleyst efni sem binda koltvísýring í hafinu og mynda kalk fyrir sjávarlíf.

Nokkrum árum eftir að Þjórsá var virkjuð við Búrfell (1970) birti Hafrannsóknastofnun svonefnda “Svarta skýrslu” um ástand þorskstofnsins (1975). Á þeim tíma áttuðu fáir sig á samhenginu og jafnvel eftir að grunsemdir vöknuðu var lengi óljóst hve afdrifarík næringarsturta og ferskvatnsstreymi jökulvatna væri fyrir lífríki strandsjávarins.
Þjórsá er slagæð Selvogsbanka og trufla næringarflæði frá henni til svifþörunga er næg ástæða og afar sennileg fyrir dvínandi gengi þorskstofnsins. Fleiri virkjanir í Þjórsá munu enn draga úr streymi svifaurs til sjávar, og þess vegna eru virkjanir í Þjórsá ákaflega óskynsamlegar með Selvogsbanka í næsta nágrenni. Miklu fremur er ástæða að hella úr Sultartangalóni sem er að fyllast af næringarefnum hvort eð er heldur en að virkja meira. Þjórsá og þorskstofninn eiga nána samleið og þegar Skeiðará hleypur er von á óvenju stórum árgangi, sé allt með felldu. Samhengið á milli jökulfljóta og auðlindarinnar í hafinu er ótvírætt og að eyðileggja aurugasta jökulvatn á Íslandi með Kárahnjúkavirkjun ætti að vera sjómönnum, útgerðarmönnum og öllum er huga að efnahag og velferð Íslands mikið áhyggjuefni. Vafalítið hafa Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti þegar unnið íslenskum sjávarútvegi og atvinnulífi óbætanlegt tjón og mál að linni.

Hafrannsóknastofnun er einn mikilvægasti þekkingarbanki Íslendinga. Stofnunin á að vera grundvöllur víðtækrar þekkingar um vistfræði hafsins en hér hefur margt geigað í stjórn. Til dæmis er ótrúlega mikil áhersla á ómarkvissar og gagnslausar vísindaveiðar á hvölum samhliða sóun á mannafla og fjármunum sem mætti nýta ólíkt betur til að skilja vistfræði hafs og lands og hafa skýringar á reiðum höndum til dæmis um það hvers vegna sandsílisstofninn hrundi við Suður- og Vesturlandi í fyrra með keðjuverkandi árhifum á fugla og fiska. Hafrannsóknastofnun með sína ágætu vísindamenn má heldur ekki lengur sitja hjá í opinberri umræðu um virkjanir rétt eins og fallvötn skipti engu máli fyrir þrótt sjávarauðlegðarinnar.

Slakt gengi þorskstofnsins er ákall um ferska hugsun og vitundarvakningu. Hafrannsóknastofnun, Háskóli Íslands og Náttúrufræðistofnun verða að taka höndum saman og rannsaka vistfræðilega samhengið í þaula og Hafrannsóknastofnum verður að taka fræðilega afstöðu til virkjana – ekki síst frekari geldingar Þjórsár. Ég hvet sjávarútvegsráðherra til að sýna öflugt og ábyrgt frumkvæði. Ótækt er að kenna loðnu í felum, hvölum og selum – ef ekki stjórnmálamönnum – um minnkandi þorskstofn. Samhengið er djúpstæðara.

Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur

Sjá einnig:

‘Three Gorges dam threatens vast fishery’

‘Role of river-suspended material in the global carbon cycle’ is here in pdf

‘Hydropower Disaster for Global Warming’ by Jaap Krater


‘Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin’ eftir Grím Björnsson jarðeðlisfræðing

‘Glacial Rivers Reduce Pollution on Earth’ by Gudmundur Pall Olafsson

Hydroelectric Power’s Dirty Secret Revealed – New Scientist

Virkjanir í jökulám óhagstæðar fyrir loftslagsvernd, eftir Hjörleif Guttormsson
– Enn ein falsrökin fyrir Kárahnjúkavirkjun hrakin

Náttúruvaktin