Eggin.is
Mánudagur, 09 júlí 2007
Höfundur: Einar Rafn Þórhallsson
Annar dagur ráðstefnu Saving Iceland hófst á fallegum sunnudegi. Spáð var regni en sólin skein á ráðstefnugesti. Séra Billy hóf dagskrána með krafti, þar sem hann messaði yfir fólki og sagði Ísland vera að stefna sömu leið og Bandaríkin þar sem við gleymum okkar eigin menningu og upphefjum falskar hetjur sem eyðileggja landið okkar. Þess vegna þarf Ísland rödd til þess að það verði ekki drepið í þögn. Við – ráðstefnugestir – erum þessi rödd.
Eigum í stríði við ill öfl!
Fyrsti gestur á svið var Guðmundur Beck. Hann var með búskap í Reyðarfirði allt fram til að álverið kom. Hann er einn af miljónum sem hafa þurft að yfirgefa landið sitt vegna stóriðju í heiminum. Guðmundur talaði um sögu álæðisins á Reyðarfirði, og Austurlandi öllu, þar sem hann sagði að fólk ætti í stríði við ill öfl og það hefði ekki hugmynd um hvað það hafi beðið um. Að lokum kom hið stóra mannvirki Kárahnjúkavirkjun. Andstæðingar hennar mótmæltu en voru þaggaðir niður. „Núna búum við í skugga eyðileggingar,“ sagði hann.
Hann talaði um Kárahnjúka sem hryðjuverk en ekki byggingarframkvæmd og sagði að Íslendingar væru að fara aftur um 70 ár, eða til iðnbyltingarinnar, þar sem stjórnvöld vilja ráða hvar við búum og hvernig og við hvað við lifum. Tók hann dæmi um að á Reyðarfirði mátti ekki reka litla fiskvinnslu vegna mengunar á sumrin, en hinsvegar mátti reisa 322.000 tonna álbræðslu rétt hjá bænum. Þrátt fyrir að Alcoa haldi öðru fram, þá sýna rannsóknir að mikil mengun kemur frá þessari starfsemi, enda má ekki búa nálægt álbræðslunni sjálfri.
Einnig talaði Guðmundur um allt hið góða fólk sem hefur komið hingað til Íslands og fórnað sér fyrir landið, en yfirvöld hafa verið því mjög erfið og sendu meðal annars 20 manna lögreglulið að Kárahnjúkum í fyrra, sem beitti oft og tíðum valdníðslu.
Hann lauk erindi sínu með því að segja við ráðstefnugesti: „Þið eruð vonarneistinn sem mun lýsa upp skugga eyðileggingar.“
Raforkuverð í Suður Afríku
Næst á dagskránni var Lerato Maria Maregele frá Suður-Afríku.
Hún var með áhugavert erindi um stöðu mála í Suður-Afríku og hvað Alcan er að gera þar í samstarfi við stjórnvöld. Samtökin sem hún vinnur í gegnum kalla sig Earth Life South Africa.
Í samstarfi við ríkisstjórnina er Alcan að byggja álbræðslu í Port Elizabeth. Í umræðunni á Íslandi hefur mikið verið talað um að almenningur eigi að hafa aðgang að upplýsingum um raforkuverð. Sömu sögu er að segja frá Suður-Afríku. Samningur Alcan og ríkisins er leynilegur og fær fólkið í landinu ekki að vita nein atriði þessa samnings. Það sem Lerato og fleiri eru m.a. að reyna að ná fram er að fá fullar upplýsingar um þennan samning.
Hún talaði einnig um efnahagsstefnu Suður-Afríku. Þar hefur nýfrjálshyggja verið höfð að leiðarljósi síðan 1994. Þetta hefur leitt af sér meiri fátækt, meira atvinnuleysi og einkavæðingu opinberrar þjónustu og stofnana. Nú þarf meðal annars að kaupa kranavatnið af einkaaðilum. Já það er ekki hægt að skrúfa frá og fá ókeypis vatn. Það er erfitt fyrir Íslendinga að ímynda sér að geta ekki fengið vatn úr krananum vegna peningaskorts.
Varðandi Port Elizabeth, þá sagði hún að fólkið þar sé orðið mjög meðvitað um hætturnar af þessarri framkvæmd og berjist gegn henni. Þau halda marga fundi, þar á meðal fræðslufundi um álver, hvernig þau virka og hvernig þau hafa áhrif á samfélagið. Það sem virðist vera öðruvísi í Port Elizabeth miðað við Ísland er að fjölmiðlar eru samúðarfullir.
Markmið þeirra:
1. Fullar upplýsingar um samning Alcan og ríkistjórinnar.
2. Að auka umræðu um orkunetið.
3. Nýtt umhverfismat á álverinu.
4. Að hætta byggingu háspennulína fyrir Alcan.
Áætlun þeirra:
1. Að halda áfram að virkja fólk og mótmæla.
2. Byggja upp alþjóðlegt stuðningsnet.
3. Auka fræðslu um málið, sérstaklega í grasrótinni, fyrir aðgerðarsinna.
4. Byggja upp rautt/grænt bandalag á milli félagslegra umbótasinna og umhverfisverndarsinna.
5. Að stoppa byggingu annarra álvera.
Að lokum sagði hún að baráttan í Suður-Afríku væri erfið vegna bandalags ríkisstjórnarinnar og alþjólegs stórfyrirtækis. Hún verður löng, en hefur kveikt í fólki víðsvegar og heldur áfram að gera það.
Pallborðsumræður
Næst á dagskrá voru pallborðsumræður, þar sem Íslendingar komu og ræddu meðal annars um samstöðu umhverfissinna á Íslandi, hvernig fólk væri dregið í dilka, sérstaklega af fjölmiðlum, í stað þess að einblína á málefnin.
Þar á eftir var óskað eftir umræðum utan úr sal þar sem maður frá Bretlandi sagði áhugaverðan punkt um lagaumhverfið: „When laws are unjust, break them. If you were in Nazi Germany there were laws telling you to hand over Jews so they could be killed. Would you obey that law?”
Eftir hlé voru síðan erindi um stíflur í Indlandi og áhrif þeirra á líf fólks þar sem þúsundir manna þurfa að yfirgefa heimili sín nauðugir og fá yfirleitt litlar skaðabætur. Fyrirlesarinn ferðaðist um svæðið fyrir 2 mánuðum og kynntsist MBA sem eru samtök gegn stíflum sem berjast að hætti Gandhi gegn stíflunum. Einnig voru fleiri erindi sem undirritaður missti af, þar á meðal frá Brazilíu.
Í heildina séð var þetta vel heppnaður ráðstefnudagur, fagmannleg erindi og líf og fjör þess á milli.
Takk fyrir mig.
Einar Rafn Þórhallsson