Það er áhugavert að sjá hvernig íslenska fjölmiðlasamfélagið mótar með sér skilning á náttúruverndarsamtökunum Saving Iceland en fulltrúar þeirra aðhyllast borgaralega óhlýðni og hefur gjarnan verið lýst sem atvinnumótmælendum í samtímaumræðunni. Hér eru fyrst tvær almennar skilgreiningar á hugtakinu. Höfundar eru Ingi Geir Hreinsson og Birkir Egilsson:
„Ofdekraður, ofmenntaður einstaklingur sem aldrei hefur unnið handtak á sinni ævi, aldrei migið í saltan sjó eða tekið skóflustungu […]. Fjölmiðlasjúk fyrirbæri sem koma vælandi inn í kerfið sem þau eru að mótmæla. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr þeirra málstað. Það er fólk sem virkilega trúir og vill breytingar. Ég legg til að þau skilji sig frá þessu fólki, eins og Saving Iceland, það er þeim bara til minnkunar.“
„Atvinnumótmælandi er nútíma hippi. Hann er frjálslegur og beitir óhefðbundnum aðferðum. […] „Dredd lokks“ eru ekki óalgeng sjón á meðal þeirra, þeir klæðast aldrei jakkafötum og sjaldan „eðlilegum“ klæðnaði heldur klæðast þeir helst einhverju sem er skítugt, götótt eða margra ára gamalt. […] Þeir láta yfirleitt ekki út úr sér margt gáfulegt en eru þó eins og áður kom fram mjög ástríðufullir fyrir „málstaðinn“. ÉG er nú ekki sammála því að þetta sé allt fólk úr 101 RVK, heldur koma þeir alstaðar [svo] að. […] Ég hef þó heyrt að oft þegar atvinnu mótmælandinn [svo] af einhverjum ástæðum getur engu mótmælt, láti hann oft gott af sér leiða fyrir heiminn, eins og til dæmis í ýmsum hjálparstörfum.“
Rétt eins og orðabókarhöfundarnir tveir vill Óskar Þorkelsson ekki gera lítið úr málstað mótmælendanna þótt honum sé illa við einstaklingana sem framfylgja honum: „Það sem ég hef gegn þeim er að þeir líta út eins og atvinnumótmælendur … málstaður þeirra er hinsvegar góður og gildur.“ Örn Bergmann Jónsson kaupmaður tæki undir þá kenningu Birkis að líklegast búi liðsmenn Saving Iceland ekki allir í 101 Reykjavík, því að fíflalæti hópsins í Kringlunni gefa til kynna „að þetta séu aðeins atvinnumótmælendur og krakkar úr austurbæ Reykjavíkur“ (Mbl. 28.7.).
Mörgum er ofarlega í huga þroskastig þeirra sem tilheyra samtökunum. Egill Helgason telur að þeir séu „upp til hópa kjánar“, á meðan bloggarinn og háskólaneminn „Herr Schnabel“ segir: „Hvaða fjandans vit hafa þessir trjáafaðmandi [svo] hippadjöflar um björgun Íslands? Þetta skítuga pakk kemur hingað til þess eins að trufla okkur og festa sig við vinnuvélar með keðjum.“ Vilhjálmur Andri Kjartansson, frjálshyggjumaður og laganemi við HÍ, bloggar: „Merkilegt að þetta eru bara krakkar sem ekki nenna eða kunna að vinna og eflaust með IQ um og fyrir neðan 30. Það er sorglegt að menntakerfið hefur algjörlega brugðist þessu fólki, þrátt fyrir alla milljarðana sem við dælum í það.“ Af orðum Kolbrúnar Bergþórsdóttur má einnig ráða að hún telji lítið vit í aðgerðum hópsins sem hún segir berjast „gegn velmegun“ (Blaðið, 17.7.).
Atvinnumótmælendurnir nenna samkvæmt órökstuddri staðalmyndinni ekki að vinna, eins þversagnarkennt og það kann að hljóma. Ólafi Björnssyni „fyndist nær að þetta fólk myndi reyna að finna sér vinnu hér á Íslandi“ en hann hefur þá „trú að margir þessara mótmælenda hafi sjaldan eða aldrei stungið hendinni í kalt vatn“. Agnes Bragadóttir blaðamaður er líklega á svipaðri skoðun, en hún kallaði félagana í Saving Iceland atvinnuauðnuleysingja í Kastljósþætti nú í sumar og Guðmundur Andri Thorsson teflir þeim fram gegn hinum vinnusama Íslendingi í sérkennilegum pistli í Fréttablaðinu (13.8.) þar sem hann líkir hópnum við stjórnleysingjana sem ógnuðu rússneskri hástétt á 19. öld með skefjalausu ofbeldi: „Þetta eru náttúrlega stjórnleysingjar – anarkistar, nihilistar. Slíkt fólk hefur eiginlega aldrei þrifist í íslensku samfélagi þar sem ekki hefur verið borgarmyndun að heita má og hvað þá aðalsstétt heldur bara misefnaðir dugnaðarforkar. Nihilistum hafa verið gerð best skil í skáldsögu Dostojevskís Djöflunum þar sem segir frá hinum útsmogna og gjörspillta Stavrogin og leikbrúðum hans sem eru landeyður úr aðalsstétt að ærast úr margra ættliða iðjuleysi. Hér á landi var náttúrlega enginn grundvöllur fyrir þess háttar hugarástandi – fyrr en þá ef til vill nú á síðustu árum þegar kvótaaðall í þriðja lið er hugsanlega farinn að velta sér upp úr tilgangsleysi allra hluta.“
Liðsmenn Saving Iceland eru bersýnilega hættulegir því að annars væri þarflaust að vísa í útsmogna og gjörspillta stjórnleysingja úr sögu eftir Dostojevskí. Undir slík sjónarmið tæki Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem hefur iðulega varað við mótmælendunum. Í pistli sem hann skrifar í Morgunblaðið 30. apríl síðastliðinn vegna komu eins af útlendu liðsmönnum Saving Iceland til landsins segir hann: „Ég hef jafnframt lagt áherslu á, að gæsla öryggis Íslendinga hvílir nú meira á íslenskum stjórnvöldum en nokkru sinni fyrr – ekki síst vegna þess að hættur hafa breyst og er reynslan á Austurlandi til marks um það.“ Andrés Magnússon blaðamaður tæki undir það sjónarmið því að í bloggfærslu líkir hann mótmælendunum við fótboltabullur og segir að best væri að niðurlægja þá á almannafæri með opinberri flengingu. Til vara leggur Andrés til að þeim sé vísað úr landi og sett verði nokkurra ára bann á ferðalög fólksins til Íslands og innan Schengen-svæðisins. Þórhallur Hróðmarsson segir mótmælendurna vera málaliða líkt og Jón Kaldal gerði fyrstur manna í leiðara Fréttablaðsins fyrir réttum tveimur árum (27.7. 2005). Þórhallur notar þó uppnefnið af tillitssemi, því að hinn kosturinn væri að „kalla þá glæpamenn (þeir sem brjóta lög) eða hermdarverkamenn“. Mótmælendurnir eru líka „rumpulýður“ og Þórhallur telur að „þeir Íslendingar, sem fá útlendinga til að gera atlögu að íslensku réttarkerfi og lýðræði, séu ekkert annað en landráðamenn“ (Mbl. 3.8.). Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri segir í bloggfærslu að sitt hvað séu „mótmæli annarsvegar og skemmdarverk eða hryðjuverk hinsvegar“ þegar hann gagnrýnir þá varfærnislegu kenningu Jóns Ólafssonar að þolmörkin „gagnvart mótmælum“ séu hugsanlega lægri á Íslandi en víðast annarsstaðar (sjá Lesbókina 11.8.). Þegar þessi stórhættulegi skríll tafði umferð á Snorrabrautinni nú fyrir skömmu með dansi og söng fór hrollur um margan lýðræðissinnann. Í umsögn um atburðina (á visir.is, 15.7.) segir „Bjarki“: „Er ekki bara kominn tími á það að hleypa þessu fólki ekkert inní landið, svipað og var gert með mótorhjólagengin [svo].“
Birgir Dýrfjörð varar við hugmyndum sem þessum og segir „fráleitt að vilja svipta mótmælendur tjáningarfrelsi með þeim hætti að reka þá úr landi“. Í brjósti Birgis kraumar ekki hatrið sem brýst fram í blaðagreinum og á bloggsíðum um allan bæ, heldur blundar þar mjólkurhvít meðaumkunin með aumingjunum í Saving Iceland: „Ég held að mörg þeirra, sem eru hér til að mótmæla, skilji lítið í náttúruvernd. Ég held að þau eigi bágt og séu félagslega veikburða einstaklingar í hlutverkaleik. Og það er svo sannarlega hægt að styrkja sjálfsmynd sína og finna sig nokkurs virði í þeim leik að maður sé hetja að bjarga heiminum“ (Mbl., 11.8.).
Einstaklingarnir í Saving Iceland hafa verið gagnrýndir fyrir að sniðganga málefnalega umræðu, sem hér má sjá í allri sinni mikilfenglegu dýrð. Þeir eru líka skítugir, heimskir og hættulegir, andstæða hinnar sívinnandi íslensku þjóðar (dugnaðarforkanna sem viðhalda velmegun í landinu), atvinnuauðnuleysingjar, atvinnuletihaugar, landeyður og útlendingar sem á að reka úr landi. Í svona samtökum eru aðeins þroskaheftir kjánar með brostna sjálfsmynd. Hópinn má leggja að jöfnu við glæpaklíkur, fótboltabullur, málaliða og hryðjuverkamenn. Liðsmennirnir búa líklegast ekki allir í 101 Reykjavík og eru krakkar úr austurbænum. Réttast væri að hýða þá opinberlega og þeir sem tala máli hópsins eru landráðamenn. Mótmælendur hafa meira að segja verið rændir hugsjónaréttinum, því þeir hafa atvinnu af iðjunni og eru athyglis- og fjölmiðlasjúkir einstaklingar í hlutverkaleik.
Á þennan hátt hefur hópur ungs fólks markvisst verið sviptur mannleika sínum. Á svona plani er umræðan um jafn veigamikið lýðræðismál og borgaraleg óhlýðni hlýtur að teljast. Umræðan hefur líka verið flestum þeim sem tóku þátt í henni til minnkunar.
gudnieli@hi.is
Sá sem er smáborgaralegur er, samkvæmt Íslenskri orðabók (Árni Böðvarsson 1983), „smámunalegur, þröngsýnn (og hégómlegur) í háttum og viðhorfum.” Þetta orð er gjarnan notað um þá sem óttast það mest að skera sig úr fjöldanum. Hinir smáborgaralegu eru yfirleitt gagnrýnislausir á viðtekin gildi eða viðhorf í umhverfi sínu og haga lífi sínu samkvæmt þeim. Á hinn bóginn geta þeir verið fljótir að dæma þá sem hafna þessum viðteknu gildum og skera sig úr hópnum. #
Finnst þetta viðeigandi þessa dagana þegar smáborgarar landsins fríka út vegna mótmæla.
Matthías Ásgeirsson
http://www.orvitinn.com/2007/07/15/01.36/
Veit hann Guðmundur Andri ekkert um samtímasögu!?
Hefur hann í það minsta ekki lesið Moggann eða blaðað í gegnum Time Magazine af og til á flugvöllum eins og við hin?
Ætli Guðmundur Andri hafi alveg misst af mótmælunum miklu gegn World Trade Organization í Seatle árið 1999? Missti hann þá líka af öllum mótmælunum gegn G8 fundunum síðastliðin ár?
Á maður að trúa því að það hafi farið algjörlega fram hjá Guðmundi Andra að víða um veröldina hefur á síðustu 15 til 20 árum risið mikil fjöldahreyfing anarkista sem berst gegn hnattvæðingu, umhverfiseyðingu og stríðsrekstri?
Ætli hann haldi virkilega að allir þessir and-kapítalistar nútímans séu bara „landeyður úr aðalsstétt“ og skaðræðis terroristar og morðingjar?
GM mun hafa grautað eitthvað í nítjándualdar höfundinum Dostojevskí en hefur hann ekkert lesið um rússnesku byltinguna? Ef svo er þá hlýtur hann að vita að í Úkraínu barðist heill her anarkískra bænda, bæði við hvítliða og rauðliða. Þeir munu hafa skipt tugum þúsunda. Og hvað með anarkistana í spænsku borgarastyrjöldinni sem skiptu hundruðum þúsunda? Það voru verkamenn og bændur.
Eða getur það verið að GM sitji inni með upplýsingar um að þessar fjöldahreyfingar anarkista hafi bara verið einhver laumu „aðalsstétt að ærast úr margra ættliða iðjuleysi“. Ætli þetta fólk hafi þá brotist úr alsnægtum til fátæktar?
Hvernig getur eiginlega verið að GM sjái enga tengingu á milli fólksins í Saving Iceland og samtímans sem við lifum í?
Það er engin furða að öll umræða hér á landi skuli vera eins ömurlega fábrotinn og einsleit og hún er þegar gáfnaelíta landsins leyfir sér svona málflutning.
Það er eitthvað meira en bara sjónvörpin sem eru biluð.
Biluð sjónvörp: http://visir.is/article/20070813/SKODANIR04/108130033/1222/SKODANIR