mar 14 2008
Látið Þjórsá í friði! – Saving Iceland reisir stíflu við skrifstofur Landsvirkjunar
Í morgun reisti Saving Iceland stíflu við inngang skrifstofu Landsvirkjunar, sem kölluð var Háaleitisvirkjun. Starfsmenn Landsvirkjunar þurftu því annað hvort að stíga yfir stífluna eða fara inn um aðrar dyr til að komast inn fyrir. Með aðgerðinni var mótmælt fyrirhuguðum virkjunum Landsvirkjunar í neðri hluta Þjórsár og fullum stuðningi og samstöðu lýst yfir með þeim sem berjast fyrir verndun hennar.
Í dag er alþjóðlegur aðgerðadagur fyrir ár og fljót haldinn í 11. skipti um allan heim en í fyrsta skipti á Íslandi. Með deginum er athygli beint á mikilvægi áa og því að þær renni óbreyttar án þess að mannfólkið fikti við þær. Stíflur, lón og virkjanir hafa alvarleg áhrif á náttúru, lífríki og samfélög fólks sem við árnar búa og framkvæmdirnar verða ekki aftur teknar. Búast má við uppákomum, mótmælum og beinum aðgerðum um allan heim í tilefni dagsins. (1)