LJÓSI VARPAÐ Á GRÆNÞVOTT ÁLIÐNAÐARINS
Í gærmorgun, mánudaginn 11. febrúar, kl. 08:30 truflaði Saving Iceland opnun tveggja daga ráðstefnunar Metals: Energy, Emissions and the Environment í Brussel.
Um tuttugu manns lokuðu tímabundið aðgangi að Radison Sas Royal Hótelinu þar sem ráðstefnan fór fram, með keðjulásum og ál-sorpi. Aðgerðinni var beint að ALCOA, Rio Tinto-ALCAN og Hydro, sem á þessari ráðstefnu kynna ál sem ‘grænan’ og sjálfbæran málm.
,,Ál hjálpar við að halda aftur að orkuneyslu og losun gróðurhúsalofttegunda“ heldur Lasse Nord (Hydro) fram, en hann er einn af þátttakendum í pallborðsumræðum ráðstefnunnar.
,,Einmitt hið gagnstæða“ segir Anneleen Varmeers, talsmaður Saving Iceland. ,,Álfyrirtækin reyna hvað sem þau geta til að grænþvo ímynd sína, en áliðnaðurinn verður samt sem áður alltaf jafn orkufrekur. Til þess að fullnægja aukinni orkuþörf mengandi álvera verður að virkja allar helstu jökulsár Íslands. Þær risastíflur sem reisa þarf eru algjör umhverfisstórslys og stuðla á beinan hátt að auknum gróðurhúsaáhrifum en samt sem áður eru þær sífellt kallaðar umhverfisvænir orkugjafar.“
Nokkrir einstaklingar fóru einnig inn á hótelið og ráðstefnusalina og dreifðu þar bæklingum sem innihéldu m.a. vísindalegar staðreyndir og skýringarmyndir um losun áliðnaðarins á CO2 og öðrum enn skaðsamari gróðurhúsalofttegundum (sem Kyoto sáttmálinn inniheldur ekki) auk annara eiturefna.
Nokkru seinna rak starfsfólk hótelsins óboðna gestina út og kl. 09:15 voru dyr ráðstefnunnar opnar. Lögreglan hótaði handtökum á meðan mótmælendur héldu áfram að dreifa bæklingum fyrir utan hótelið auk þess sem slagverksleikarar léku samba tónlist. Eftir allt saman var enginn handtekinn.
Saving Iceland er alþjóðleg umhverfishreyfing sem hefur í nokkur ár mótmælt stóriðju uppbyggingu. Hreyfingin nýtur m.a. stuðnings Hollenska og Belgíska arms Earth First!: Groenfront!
Myndband frá aðgerðinni:
[kml_flashembed movie="http://www.youtube.com/v/GekCnR0T6-A" width="249" height="212" wmode="transparent" /]