jún 24 2008
Lygar og útúrsnúningar – Um hergagnaframleiðslu Alcoa
„Erna Indriðadóttir gefur það í skyn að Alcoa framleiði aðeins ál og hafi ekkert um framtíð þess og notkun að segja. Það eru lygar og útúrsnúningar.“
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Morgunblaðið, 24. júní 2008
Svar Ernu Indriðadóttur, upplýsingastjóra Alcoa Fjarðaáls, í Morgunblaðinu við skrifum Bjarkar Guðmundsdóttur er aumkunarvert og efni í frekari greinaskrif. Það sem stendur vissulega upp úr er útúrsnúningur hennar varðandi meinta hergagnaframleiðslu og mannréttindabrot Alcoa en Erna telur að Björk eigi þar við þá staðreynd ,,að ál er notað í nær öll farartæki undir sólinni, þar á meðal herflugvélar og bíla, geimferjur og eldflaugar.“ Hún heldur svo hvítþvottinum áfram með tali um samfélagslega ábyrgð fyrirtækisins og sjálfbærnisverkefni.
Til að nota orðalag Ernu kveður þarna við gamlan tón því þessum útúrsnúningi hefur Alcoa Fjarðaál alltaf beitt þegar fyrirtækið er sakað um bein tengsl við stríðsrekstur og hergagnaframleiðslu. Forsvarsmenn fyrirtækisins reyna að láta líta svo út fyrir að Alcoa framleiði bara ál og selji það, en hafi hins vegar ekkert um framhaldslíf þess að segja. Það er löngu kominn tími til að blása á þessa vitleysu.