júl 23 2008

Álframleiðslan í hnattrænu samhengi

Snorri Páll Jónsson, Morgunblaðið, 23. Júlí

Í bæklingnum ‘Norðurál og samfélagið‘ sem Norðurál gaf út er m.a. sagt frá hnattrænu ferli álframleiðslu. Century Aluminum, eigandi Norðuráls, er með sínar báxítnámur í Jamaíka og hyggst nú opna eina slíka í Vestur Kongó í samvinnu við eina spilltustu ríkisstjórn heims.

Það vekur strax athygli að í bæklingi Norðuráls er ekki nokkru orði minnst á báxít og samkvæmt skýringarmynd sem á að sýna framleiðsluferli áls frá byrjun til enda, hefst álframleiðslan þegar súráli er landað í stórt hafnarsíló.

Hvers vegna skyldi svo vera? Er Norðurál svo umhverfisvænt fyrirtæki að það þarf ekki einu sinni að grafa eftir báxíti til þess að framleiða ál? Hefur Norðurál einhverjar aðrar aðferðir en önnur álfyrirtæki? Nei, það er neflilega þetta sem kallað er grænþvottur.

Það er stórfurðulegt að höfundum þessa bæklings – forsvarsmenn Norðuráls – skuli detta í hug að reyna að blekkja lesendur á eins ódýran hátt. Á meðan Alcoa montar sig af báxítgreftri sínum í textanum ‘Allt hefst á leðju’ virðist Norðurál vera að reyna að fela þá staðreynd að fyrirtækið er viðriðið eyðileggingu regnskóga, drykkjarvatns og heilsufars fólks og dýra á Jamaíka. Hvorki í bæklingnum fyrrnefnda né á heimasíðu Norðuráls er minnst á báxít, forsendu þess að álframleiðsla eigi sér stað. Þess í stað er sagt frá því að ál finnist víða í náttúrunni, m.a. í leir og bergi á Íslandi.

Hvað nú? Er fyrirtækið að gefa í skyn að álframleiðsla þess sé íslensk; að álið frá Norðuráli sé ‘hrein íslensk vara’? Þvílík blekking! Álframleiðsla er alþjóðleg og áhrif hennar sömuleiðis.

Það sem hingað til hefur vantað í umræðuna um álframleiðslu hér á landi er alþjóðlega samhengið; hnattrænar afleiðingar stjóriðju. Það er ekki hægt að tala um álframleiðslu sem íslenskt fyrirbæri þó álver séu reist hér á landi og keyrð áfram af íslenskum náttúruspjöllum. Ál-vara ferðast þvert og endilangt um hnöttinn áður en hún endar á áfangastað. Hráefni í sprengju finnst á Jamaíka eða Indlandi, er svo unnið á Íslandi, sprengjan kláruð í Bandaríkjunum og á endanum er henni fleygt á þorp í Írak. Íslenskt hvað?

Í viðtali við Morgunblaðið sl. Laugardag segir Bubbi Morthens að það séu alvarlegri vandamál en álversframkvæmdir hér á landi, svo sem fátækt og atvinnuleysi, og gagnrýnir svo Björk og Sigur Rós fyrir að halda ekki tónleika gegn fátækt. Þetta er eflaust algengt viðhorf hér á landi.

En málið er ekki svo einfallt að það sé annað hvort um að velja fátækt eða álver, atvinnuleysi eða álver. Álfyrirtækin eru hluti af kapítalísku hagkerfi sem byggist á því að einhverjir græði á meðan aðrir tapi. Starf í álveri getur mögulega haldið uppi fjölskyldu hér á landi en á sama tíma leitt af sér hörmungar annars staðar í heiminum. Að afneita þeim afleiðingum og horfa algjörlega framhjá þeim er eigingirni. Skiptir það engu máli hvaðan peningar koma, hver græðir á hverju? Ef svo er, getum við þá ekki allt eins reist vopnaverksmiðju og barnknúna saumastofu hér á landi?

Í bæklingnum segir einnig að eina raunverulega leiðin til að draga úr losun gróðurhúsalottegunda og annarar mengunnar sé ,,að menn dragi sjálfir úr notkun á tækjum og efnum sem stuðla að menguninni, svo sem plasti, stáli, áli o.s.frv. Á meðan eftirspurn eftir áli heldur áfram að vaxa þarf að reisa ný álver einhvers staðar í heiminum.“

Það er auðvelt fyrir iðnað sem stendur fyrir eins mikilli eyðileggingu og áliðnaðurinn gerir, að reyna að höfða til persónulegrar neyslu fólks og kenna henni um þau umhverfisspjöll sem alþjóðakapítalismi leiðir af sér. Það er alveg rétt að einstaklingar geta auðveldlega dregið verulega úr neyslu sinni en þessi fullyrðing Norðuráls er samt sem áður útúrsnúningur. Fyrirtækið setur sig í spor einhvers konar góðgerðarhóps, sem bara svarar kalli almennings; ,,Á meðan þið þið biðjið um ál…framleiðum við það!“

Ál er nú lofað og upphrópað sem einhvers konar galdralausn við umhverfisvandamálum. Álfyrirtækin boða engar raunverulegar breytingar, ekkert róttækt neyslustopp, heldur sömu neyslu í sama magni… bara allt úr áli. Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri, skrifaði fyrir ekki svo löngu síðan grein í Morgunblaðið, þar sem hann talaði fyrir hönd íslensku þjóðarinnar og sagðist ekki vera tilbúinn til að slaka á þeim lífsgæðum sem við búum við. Fyrir utan það að hann hefur auðvitað enga heimild til þess að tala fyrir hönd 300.000 manns, er það alveg ljóst að ef lífsgæði okkar stuðla að fátækt og umhverfisraski annars staðar í heiminum, er það ekki okkar einka ákvörðun hvort við slökum á eða aukum þessi svokölluðu ‘lífsgæði’.

Það þarf að beina augunum frá íslenskum neytendum, að þeim sem álframleiðslan skaðar? Norðurál ætti að tala þá íbúa Jamaíka sem hafa misst land sitt, heilsu og drykkjarvatn vegna álframleiðslu; innfædda í Orissa héraðinu á Indlandi þar sem menningarleg þjóðarmorð eiga sér stað; fórnarlömb stríðsrekstur sem að stórum hluta til er drifinn áfram að álframleiðslu. Norðurál ætti að spyrja þetta fólk hvort þeim sé sama – hvort þau gefi samþykki á ‘græna og hreina’ álframleiðslu á Íslandi.

Náttúruvaktin