ágú 10 2008

Ergelsi talskonu

Miriam Rose, Morgunblaðið

Miram Rose skrifar um hugsjónir og aðgerðir Saving Iceland: „Aðferðir okkar eru eflaust ekki alltaf réttar og mega vel sæta gagnrýni. En hvað ætla Íslendingar að gera til að koma í veg fyrir tortímingu landsins?

Saving Iceland – rétt eða rangt?
Bara nafnið á hópnum er nóg til að gefa Íslendingum ærlegan hroll (stundum mér líka) því það kann að hljóma eins og hrokafullur trúboðahópur, kominn til að hjálpa vanþróuðum víkingunum upp úr fátækt og heimsku. En fæstir gera sér grein fyrir því að nafnið varð til þegar hópur íslenskra umhverfissinna sem var orðinn þreyttur á aðgerðaleysi samlanda sinna, kallaði eftir alþjóðlegri hjálp við að stöðva eyðileggingu íslenskra öræfa vegna orkuframleiðslu fyrir stóriðju.
Í kjölfarið komu saman umhverfis- og mannúðarsinnar alls staðar að frá Evrópu, söfnuðu pening, stunduðu rannsóknir og lögðu alla sína orku í að skilja og reyna að stöðva þetta stórslys. Með sömu aðferðum og hafa reynst árangursríkar í breskri náttúruverndarbaráttu, evrópskum herferðum gegn kjarnorkuframleiðslu og alþjóðlegri baráttu gegn stríði, var áætlunin að reyna að stöðva eyðileggingu vistkerfa þessarar einstöku eyju. En markmið þeirra reyndist á endanum mun erfiðara en þeir bjuggust við.


Íslenskt sinnuleysi

Skoðanakönnun Gallup frá 2007 sýndi að 58% þjóðarinnar voru andsnúin stóriðjuvæðingu Íslands, og nýjar kannanir gefa til kynna að sú tala fari hækkandi. Í lýðræðisríki eins og Íslandi ætti það að þýða eitthvað, en samt heldur ríkisstjórn landsins ótrauð áfram stóriðjuáætlun sinni, án þess að taka tillit til kosningaloforða og fyrrnefndrar andstöðu. Þá er vert að spyrja: hvernig ætla þessi tæpu 60% að láta andstöðu sína heyrast? Ætla þau kannski bara að sitja hjá og horfa á náttúru landsins hverfa, þrátt fyrir ósætti sitt? Og þegar SI gerir allt vitlaust einu sinni enn, ætla þessi 60% þá að láta reyna á sínar eigin aðferðir; skrifa bréf eða bloggfærslu? Eða einfaldlega gagnrýna allar þær tilraunir sem gerðar eru til að vinna fyrir málstað þeirra?

Ísland er eyja þar sem fólk er varkárt, oft efins og hrætt við að segja skoðun sína upphátt; þar sem utanaðkomandi ábendingum er tekið af tortryggni. Í þessu einstæða samfélagi hefur borgaraleg óhlýðni og beinar aðgerðir nú verið reyndar, en hvorki verið velkomnar né mætt skilningi.


Ergelsi talskonu

Eftir að hafa búið á þessu fallega landi í rúmt ár er ég farin að skilja íslenskt hugarfar betur og hvers konar skilningi aðgerðir SI mæta. Ólíkt öðrum Evrópulöndum, getum við búist við því að hvert smáatriði aðgerða okkar sé vandlega skoðað og birt í fjölmiðlum, jafnvel með nákvæmum upplýsingum um áform okkar, skoðanir og meiningu, en samt sem áður eru það gefnu jakkarnir, skrýtnar hárgreiðslur og asnaleg föt, sem verða umtalsefni eftir á.

Ég trúi því sjálf að aðferðir okkar hafi hugsanlega ekki alltaf verið í samræmi við aðstæður. Við höfum verið gagnrýnd fyrir að vera kærulaus, skemmt okkur og ekki viljað samræður, og þó ég skilji oft sjónarmið þessarar gagnrýni, verð ég mjög svekkt þegar ég sé ástríðufull skilaboð okkar týnast í þeirri umræðu. Trúið því sem þið viljið, en við erum að reyna að hreyfa við ástríðu fólks, brjóta múra hefðbundinna þögulla íslenskra mótmæla og fyrst og fremst reyna að stöðva þessi ómannúðlegu fyrirtæki frá því að tortíma einum af síðustu öræfum Evrópu. Á sama tíma bendum við á hvernig mannréttindi fólks í þriðja heiminum eru brotin aftur og aftur fyrir skammtímagróða íslensks samfélags.

Þó vel geti verið að margir Íslendingar skilji það ekki, er helsta áhyggjuefni sumra okkar að sjaldgæf og einstök náttúra Íslands tapist. Við einfaldlega getum ekki setið kyrr og horft á landið drukkna, brotna og hverfa. Eins og svo margir aðrir varð ég bókstaflega ástfangin af þessu landi um leið og ég steig hingað fæti og þykir jafnvænt um það og mitt eyðilagða heimaland.

Ég veit að flestir Íslendingar eru stoltir af náttúrufegurð þessa lands og finna fyrir sársauka og vanmætti þegar þeir sjá gljúfur sprengd í loft upp og fossum drekkt. En hvers vegna eru þá svo margir hræddir við að stíga örlítið skref fram á við, tjá skoðun sína og hjálpast að við að vernda landið? Að vera í fullu starfi og eiga fjölskyldu er vissulega tímafrekt, en að velja sér það að líta framhjá þeirri staðreynd að þetta stórslys á sér stað beint fyrir framan nefið á okkur, er óábyrgt fyrir okkur og komandi kynslóðir. Fyrsta skrefið getur verið að skrifa eitt bréf, bloggfærslu, tala við fjölskylduna, nágranna og vini. Því meira sem við gerum, því öflugri verður baráttan.

Sem talskona SI í sumar hef ég orðið vitni að lygum um sjálfa mig, áreiti á götum úti og morðhótunum á internetinu. Uppbyggjandi gagnrýni er okkur nauðsynleg en fyrrnefndar árásir eru ekki til neins. Búðir okkar, aðgerðir og aðferðir geta vel verið rangar fyrir íslenskt samfélag. En ef þið trúið á málstaðinn – eruð mótfallin þessari iðnvæddu nýlendustefnu – og vitið betur hvernig á að stöðva hana, hvet ég ykkur til að eyða ekki tímanum í að skálda upp lygasögur um SI og reyna að brjóta á bak aftur baráttu okkar. Heldur ekki sitja ein í þögninni, heldur gerið eitthvað sjálf. Hvað sem er, til þess að reyna að bjarga þessari einstöku náttúru frá glötun, því hún mun svo sannarlega hverfa ef ekkert er að gert.

Náttúruvaktin