Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Morgunblaðið
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson skrifar um stóriðju og ímynd Íslands: „Allt tal um ál sem „græna málminn“ er þáttur í ímyndarherferð valdhafa og áliðnaðarins. Hvað skiptir raunverulegu máli í umræðunni um álframleiðslu?
Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, skrifaði í Morgunblaðið þann 24. júlí, grein um álframleiðslu, þar sem hann gerir lítið úr raunverulegum áhrifum hennar; umhverfis- og samfélagstengdum, sem og hnattrænum. Það vekur athygli að kvöldið áður átti sér stað fyrirlestur Andra Snæs og Samarendra Das í Rvk. Akademíunni, en fundurinn fjallaði einmitt um báxítgröft og samhliða menningarleg þjóðarmorð í þriðja heiminum, og leiddi af sér þónokkra almenningsumræðu um hvort tveggja.
Árni talar um álið – „græna málminn“ – sem einhvers konar töfralausn við þeim umhverfisvandamálum sem steðja að öllu lífi hér á jörð. Hann bendir réttilega á að flest allt sem unnið er úr áli er endurvinnanlegt en bætir svo sjálfur við að einungis þriðjungur þess sem framleitt er sé endurnýtt. Til að framleiða 1 tonn af áli þarf á bilinu 4-6 tonn af báxíti, sem þýðir að 2,6-4 tonn af báxíti eru grafin til þess eins að enda sem landfylling. Hvað eru það mörg tonn á ári?
Svona erum við blekkt. Hver einasta vara sem inniheldur ál er sögð vera endurvinnanleg, því það er jú hægt að endurvinna álið. En kostnaðurinn er einfaldlega oft of mikill og því flóknari sem varan verður, með mörgum lögum af mismunandi efnum, verður erfiðara og dýrara að endurvinna álið. Samt sem áður er okkur talið í trú um að varan sé umhverfisvæn og skaðlaus vegna möguleikans á endurvinnslu.
Jakob Björnsson, fyrrverandi orkumálastjóri segir í grein 28. júlí að ég átti mig ekki á því að á endanum sé það neysla okkar sem ræður úrslitum um framleiðslu áls. Auðvitað stjórnast framleiðslan að mestu leyti af neyslu okkar, en ekki bara persónulegum ákvörðum neytenda heldur neyslumenningunni í heild sinni. Mörkin milli framleiðslu og neyslu eru allt of óljós til að hægt sé að kenna öðru hvoru um. Samfélagið er skipulagt með það að leiðarljósi að hver og einn einstaklingur keyri um á einkabíl, hverjum 250 gr. af mat er pakkað í plast, pappír, ál eða allt þrennt, og fólk er hvatt til þess að kaupa sér „einnar helgar síma“ líkt og Vodafone gerði nú fyrir verslunarmannahelgina. Hvar liggur þá ábyrgðin? Hjá neytandanum eða framleiðandanum? Hvort kom á undan, hænan eða eggið? Málið er ekki svo einfalt að hægt sé að kenna öðrum aðilanum um umfram hinn.
En aftur að Árna, sem kynnir svo til leiks svokallaða „upplýsta umhverfissinna“, sem samkvæmt honum ræða gagnrýni sína á álframleiðslu út frá þremur grunnum, þ.e. eyðileggingu náttúru vegna virkjanaframkvæmda, sjónmengunar álversbygginga og losun gróðurhúsalofttegunda.
Mikið rétt, gífurlega miklum og stórum landsvæðum er fórnað undir vatn alls staðar í heiminum fyrir uppistöðulón, einstök jarðhitasvæði eru skemmd fyrir orkuframleiðslu, álver eru yfirleitt forljótar byggingar og það er satt að álframleiðsla leiðir af sér mikla losun gróðurhúsalofttegunda. En að halda því fram að þetta séu einu vandamálin sem álframleiðslan leiðir af sér er mikil blekking og lýsir vel því afskiptaleysi sem einkennir umræðuna um álframleiðslu hér á landi.
Útlit álvera er ekkert áhyggjuefni samanborið við raunveruleg umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslunnar. En með því að leggja áherslu á að gera álverið fallegt og fá til þess umhverfis- og byggingalistamenn eins og Árni stingur upp á, er einungis verið að fela raunveruleg áhyggjuefni og breiða yfir skítinn.
Skýrslan Ímyndakjarni Íslands sem kom út á vegum forsætisráðuneytisins í vor fjallar um hvernig hægt sé (og einfaldlega þurfi) að skapa Íslandi ímynd; „hreina“ og aðlagandi. Í skýrslunni segir m.a. að ímyndir landa geti byggst á staðreyndum, getgátum og jafnvel ranghugmyndum, en fyrst og fremst þurfi að skapa ímyndina og til þess er svo stungið upp á vægast sagt ógeðfelldum aðferðum. Þennan sama leik spila álfyrirtækin og hagsmunaaðilar þeirra. Falleg álversbygging í stíl við umhverfi sitt er fyrst og fremst ímynd, sköpuð til þess að leiða hugann frá raunveruleikanum.
Ef það er eitthvað til sem heitir upplýstir umhverfissinnar, hljóta það að vera þeir sem setja hlutina í hnattrænt samhengi. Upplýstir umhverfissinnar myndu þá setja upp (eins og Árni) lista yfir þrjú atriði sem þarf að hafa í huga við framleiðslu áls. Hvaðan kemur hráefnið, hver eru heildaráhrif framleiðslunnar og hvað á að framleiða? Án þessara þátta er ekki hægt að fjalla um álframleiðslu.
„Íslenskt ál“ er ekki til og í rauninni er eiginlega ekkert til sem er alveg íslenskt. Að tala um álframleiðslu eins og hún sé einkahagsmunamál Íslendinga, jafnvel bara Húsvíkinga eða Keflvíkinga, er skammsýnt. Álver á Bakka mun krefjast báxíts frá þriðja heiminum, flutnings súrsáls til Íslands, orku frá Þeystareykjum og Kröflu, jafnvel Skjálfandafljóts og Jökulsár á Fjöllum, og flutnings álsins héðan. Álið endar svo út um allan heim í hverri þeirri vöru sem framleidd er úr því.
Græni málmurinn er ekkert grænn. Vel má vera að ímynd álframleiðslu hér á landi sé hrein og „græn“ en sú ímynd er bara þáttur í ímyndarherferð íslenskra valdhafa, sem álfyrirtækin taka virkan þátt í. Ímyndin er blekking sem verður að uppræta.