sep 29 2008
Hræsni?
Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, upphaflega birt í Morgunblaðinu
„Veistu að hjólastólinn þinn er úr áli?“ sagði lögregluþjónn við einn þeirra sem stöðvuðu vinnu í Helguvík í sumar. Hann kaffærði rök álversandstæðinga fyrir fullt og allt, er það ekki? Eftir að grein Jakobs Björnssonar um Björk Guðmundsdótur og álnotkun hennar birtist í Morgunblaðinu tók ritstjórn blaðsins sig til og skrifaði Staksteina þar sem sagt er að flestir álversandstæðingar séu líklega ekki samkvæmir sjálfum sér. Flestir noti þeir ál dags daglega og meira að segja Saving Iceland eldi í álpottum og noti álstangir til að halda uppi tjöldum sínum. „Hræsni,“ sagði Mogginn.
Þessi gagnrýni er ekki ný. Hún hefur markvisst verið notuð gegn þeim sem eru mótfallnir frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi, eyðileggingu íslenskrar náttúru fyrir orkuframleiðslu og vistkerfa út um allan heim vegna báxítgraftar, og orkusölu til fyrirtækis sem montar sig af samstarfi sínu við bandaríska herinn. Auk þess þegar álversandstæðingar eru ásakaðir um að vilja færa íslenskt samfélag aftur til torfkofanna og byggja efnahag landsins á fjallagrasatínslu, hefur þessi gagnrýni verið sú fyrirferðarmesta. Sama hversu oft er búið að benda á þá staðreynd að a.m.k. 30% af áli eru framleidd fyrir hergagnaiðnaðinn (og þá skiptir engu hvort álfyrirtækið sjáft framleiðir vopnin eða ekki); sama hversu oft búið er að segja frá því hversu mikið ál endar sem landfylling eftir að hafa gegnt hlutverki sínu sem einnota drykkjarílát; þó búið sé að benda á samhengið milli lágs orkuverðs og þess hversu auðvelt það er fyrir okkur að framleiða ál, nota einu sinni, henda því svo og framleiða meira; ennþá er okkur sagt að við séum ekki sjálfum okkur samkvæm. Read More