Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, upphaflega birt í Morgunblaðinu –
Í grein sinni „Er nóg komið af áli í heiminum?“ bendir Jakob Björnsson á að „langsamlega stærstur hluti álnotkunar í heiminum í dag er í núverandi iðnríkjum þar sem 25% jarðarbúa eiga heima.“ Og að þegar Kína og Indland hafa iðnvæðst munu 62% mannkyns búa í iðnríkjum og að hin 38% séu á sömu leið; vilji njóta lífskjara iðnvæddu ríkjanna, dreymi jafnvel um bíla og bjórdósir. Þetta eru mjög nauðsynlegar staðreyndir.
Það er tvennt sérstaklega áhugavert við grein Jakobs. Hann segir það raunhæfan möguleika að allir jarðarbúar geti náð þeim lífsgæðum og -háttum sem vesturlandabúar búa við. Og að jöfnuður milli mannfólks sé mögulegur innan þess kerfis sem við búum í.
Vestrænt samfélag hefur verið kennt við velmegun sem er sögð af hinu góða. Hún er sögð vera merki um velgengni og framsækni. En hverju byggist velmegunin á? Hverju er fórnað fyrir lífsgæðin svokölluðu?
20% jarðarbúa nota um 80% af nýttum auðlindum jarðarinnar. Vistfræðilegt fótspor vesturlandabúa er svo stórt að til þess að allir jarðarbúar gætu lifað á sama hátt þyrfti nokkrar plánetur í viðbót. Með það fyrir augum að óiðnvædd lönd séu að nálgast okkur hvað varðar iðnvæðingu, framleiðslu og neyslu, er breytinga sannarlega þörf.
Og breytingarnar geta ekki innihaldið nýjar „tæknilausnir“ sem eiga að leysa umhverfisvandann. Þær geta ekki verið plat sem gefur til kynna að vestrænn lífsstíll geti verið umhverfinu til góðs; að við getum raunverulega haft jákvæð áhrif án þess að breyta okkar neyslumynstri. Staðreyndin er þessi: Við þurfum að bakka!
Því þessi lífsstíll er ekki sjálfbær og verður aldrei. Svo einfalt er það. Orðið sjálfbærni á ekki við samfélag okkar í nokkru samhengi. Kapítalisminn gerir ekki ráð fyrir sjálfbærni. Hann snýst um stöðugan gróða og samhliða sífelldan aukinn ágang. Þess vegna getur kapítalískt samfélag aldrei verið umhverfisvænt.
Stórfyrirtæki og yfirvöld kynna ýmsar aðgerðir sem raunverulegar lausnir en þær gera aldrei ráð fyrir raunverulegum, róttækum breytingum. Þær snúast fyrst og fremst um áframhaldandi framleiðslu; kaup og sölu. Þegar t.d. er talað um græna bíla er framleiðsluferlið ekki nefnt á nafn. Námugröftur, hráefnisflutningur, gífurleg vatnsnotkun og láglaunað vinnuafl í þriðja heiminum; öllum undirstöðuatriðum framleiðslunnar er litið framhjá.
Markmiðið er auðvitað fyrst og fremst að halda neyslumynstrinu gangandi í stað þess að ráðast að rótum vandans. Fólk er ekki hvatt til þess að keyra minna, jafnvel hætta að keyra. Enn er gert ráð fyrir því að fólk kaupi nýja, vel útlítandi bíla á nokkurra ára fresti og samfélagið er enn skipulagt með hagsmuni bílstjóra að leiðarljósi. Nýjir vegir eru svo sífellt lagðir og aðrir stækkaðir.
Þennan lífsstíl og menningu geta allir jarðarbúar ekki tekið upp. Jörðin er ekki þess megnug. Það þýðir að við þurfum að draga til baka ef allir jarðarbúar eiga að komast á nokkurn veginn sömu línu. Við getum hvorki haldið áfram á þeirri braut sem við erum né setið kyrr.
En þá kemur einmitt að seinni punkti Jakobs; að með tímanum verði jöfnuði mögulega náð innan þess kerfis sem við búum í. Ég efast um að hann trúi þessu sjálfur og í raun efast ég um að hann, einn helsti talsmaður áliðnaðarins hér á landi, vilji jöfnuð. Kapítalisminn gerir ekki ráð fyrir jöfnuði heldur þvert á móti þrífst á ójöfnuði. Álfyrirtækin þrífast á ójöfnuði rétt eins og stórir matvæla- og vöruframleiðendur. Infæddir íbúar Orissa héraðsins á Indlandi eru gott dæmi.
Jakob segir þá vera á leið til iðnvæðingar eins og aðrir Indverjar. Þeir íbúar Orissa sem ég hef áður talað um búa á bauxítauðlindum og berjast kröftuglega gegn námugreftri, eyðileggingu vistkerfa og sinni eigin útrýmingu. Það eina sem námugröfturinn gerir þeim er að land þeirra og lifibrauð verður lagt í rúst ásamt lífsháttum þeirra, tungu og menningu. Fátækt þeirra verður ekki útrýmt heldur verður þeim beinlínis ýtt í fátækt. Fólk verður hrakið úr sjálfbærum samfélögum sínum í borgirnar þar sem ekkert bíður þess nema vinna í verksmiðjum og fátækt. Líklegast er þó að það muni berjast fyrir lífi sínu til síðasta blóðdropa. Þannig er kapítalisminn.
Coca Cola hefur mengað drykkjarvatn á Indlandi og staðið að morðum á verkalýðsleiðtogum í verksmiðjum fyrirtækisins í Kólumbíu. Grunnþarfir starfsfólks Alcoa í Hondúras eru virtar að vettugi, starfsfólk er rekið fyrir að skipuleggja verkalýðsfélög og til að bæta gráu ofan á svart standa laun þess rétt undir þriðjungi kostnaðar þess að halda uppi fjölskyldu og heimili. Er þetta kannski jöfnuðurinn sem Jakob var að tala um? Fataframleiðendur starfrækja verksmiðjur sínar í þriðja heiminum svo hægt sé að borga starfsfólki lægri laun en ella og stór landsvæði, skógar og vötn eru lögð í rúst til þess að framleiða lúxusmatvörur fyrir Vesturlönd.
Kapítalismi annars vegar og jöfnuður og sjálfbærni hins vegar eiga ekki samleið. Hvorugt gerir ráð fyrir hinu og þau einfaldlega virka ekki saman. Umbótalausnir innan kerfisins munu engum árangri skila, enda ekki ætlaðar til þess. Eina raunverulega lausnin er útrýming kapítalismans.