Archive for nóvember, 2008

nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu


NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI: Read More

nóv 11 2008

Hlutabréf Alcoa lækka vegna framleiðsluminnkunnar


Í dag lækkuðu hlutabréf Alcoa um 7,6% eftir að fyrirtækið tilkynnti að það myndi minnka framleiðslu um 350 þúsund tonn á ári. Niðurskurðurinn fer fram í álverum Alcoa í Ferndale, Washington og Baie Comeau, Quebec. Fyrir ekki svo löngu síðan greindi fyrirtækið frá 256 þúsund tonna niðurskurði í Rockdale, Texas sem þýðir að samdráttur á framleiðslu Alcoa er 15%.

Alcoa tilkynnti einnig að 2,2 milljón tonna stækkun álvers í Wagerup, Ástralíu yrði frestað. Áætlaður kostnaður verkefnisins er á bilinu 3-4 milljónir dollara og sagði Alcoa að verkefninu yrði frestað þar til markaðshorfur verða betri. Sérfræðingar segja að enn sé offramleiðsla á áli.

Read More

nóv 11 2008

Búðarhálsvirkjun og framleiðsluaukningu Rio Tinto Alcan frestað


Landsvirkjun hefur tilkynnt að útboð vegna framkvæmda við Búðarhálsvirkjun verði frestað um þrjá mánuði. Það þýðir að fyrirhuguð framleiðsluaukning Rio Tinto Alcan í Straumsvík verður ekki að veruleika á næstunni. Landsvirkjun hyggst reisa Búðarhálsvirkjun í Tungnaá, vestan við Langasjó.

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun munu kosta um það bil 25 milljarða króna og á virkjunin að geta framleitt 85 MW af raforku. Rio Tinto Alcan hyggst auka framleiðslu sína um 40 þúsund tonn á ári án þess að stækka álverið. Fyrirtækið vill samt sem áður ennþá stækka álverið þrátt fyrir að íbúar Hafnarfjarðar hafi kosið gegn stækkuninni í íbúakosningu vorið 2007. Gagnaver Verne Holding hefur einnig skrifað undir samning við Landsvirkjun um orku frá Búðarhálsvirkjun.

Read More

Náttúruvaktin