feb 21 2008
Þegar vorið vaknar
Ávarp Guðmundar Páls Ólafssonar rithöfundar á baráttufundi gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá 17. febrúar 2008. Fundurinn var haldinn á vegum Sólar á Suðurlandi.
Þegar vorið vaknar við strendur Íslands flykkjast fuglar í varplönd og fiskar synda í torfum til varplanda í sjó þar sem þeir hrygna. Þannig hafa fuglar og fiskar vitjað hér vors frá ómunatíð. Vitneskjan er gömul; allir vita þetta – og samt …
Og samt eru aðeins örfá ár síðan rann upp fyrir mönnum að þorskurinn hrygnir framan við ósa jökulánna um allt land og er háður þeim. Sú jökulspræna er varla til sem ekki lokkar þorskinn til hrygningar og það veit hver þorskur þótt ekki sé talinn „skepna skýr“ að hann á samleið með jökulánum. Hann veit að við jökulár henta aðstæður hrygningu og klaki. Þannig eru jökulfljót einskonar skapanornir þorsksins. Þær búa honum aðstæður og örlög og munar þar einna mest um systur þrjár: Ölfusá, Þjórsá og Skeiðará.