Archive for febrúar, 2009

feb 19 2009

Gjaldþrota stóriðjustefna


Hjörleifur Guttormsson

Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn.

Bundið fyrir bæði augu

Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Read More

feb 13 2009

Úlfur í gjaldeyrissjóðsgæru


Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

World Bank (WB) og International Monetary Fund (IMF), eða Heimsbankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru fjármálastofnanir sem voru stofnaðar árið 1944 með mjög skýrt markmið: að standa saman að uppbyggingu og endurbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld og að lána reiðufé til landa í fjárhagserfiðleikum.

Fljótega byrjuðu þessar stofnanir að sníða skilyrðin fyrir aðstoð, að aðstæðum í lántökulöndunum. Yfirleitt snerust þessi skilyrði um einkasamninga við erlend fyrirtæki, oftast bandarísk, um framkvæmd uppbyggingar, ásamt brunaútsölu ríkisfyrirtækja, sem voru þá keypt upp af erlendum aðilum með hagvöxt að leiðarljósi en ekki hag fólksins. Yfirleitt hefur þetta leitt til lækkunnar launa, hækkaðs verðs á vörum og þjónustu, yfirtöku auðlinda og gereyðingu lífsgæða í viðkomandi landi.

Skilyrðin eru að meðaltali 114 og eru í megindráttum eins fyrir öll lönd, en þó alltaf sveigð aðeins til eftir aðstæðum og auðlindum hvers lands. Nokkur atriði eru þó eins í öllum tilfellum. Viðskiptahömlur og verndartollar eru fjarlægðir, þjóðarbúið selt í hendur erlendra fjárfesta, velferðarkerfið skorið verulega niður og vinnumarkaðurinn gerður sveigjanlegur (sem í reynd þýðir að leggja niður stéttarfélög). Read More

Náttúruvaktin