ágú 22 2009

Illgresið og öfgarnar

Björg Eva Erlendsdóttir

Tekið af Smugunni – „Íslenskur öfgahópur veldur nýsköpunarfyrirtæki milljóna tjóni,“ er fyrirsögn fréttar á Vísi af spjöllum sem unnin voru á tilraunaakri ORF í Gunnarsholti, þar sem erfðabreytt bygg er ræktað.

Lögbrot, öfgahópar, skemmdarverk og glæpastarfsemi eru vinsæl orð hjá þjónum valdsins þegar minnihlutahópar grípa til sterkari meðala, en að skrifa greinar í blöð sem birtast eftir dúk og disk og enginn les .

Kverúlantar sem gagnrýna vald mega hrópa sig hása, en enginn hlustar. Valdið fer sínu fram, með réttu eða röngu, og helst umræðulaust. Óhefðbundin barátta gegn því kallar strax á harða dóma.

Þeir sem sletta grænu skyri eru skemmdarverkamenn. Þeir sem rjúfa bankaleynd til að koma upp um fjármálasvikara eru samfélagsógn. Þeir sem sletta málningu á hús auðmanna eru níðingar sem virða ekki griðastað saklausra. Þeir sem þvælast fyrir virkjunum og stóriðjustefnu eru náttúruverndartalíbanar sem helst á að handtaka á staðnum.

Þó blasir við að íslensk stjórnvöld voru langhættulegasti öfgahópurinn. Lög voru túlkuð eftir geðþótta og eiginhagsmunum innvígðra, en notuð sem svipa á almenning. Öfgahópur valdstjórnarinnar mátti sveigja lögin af því hann hafði afl til þess.

Samtök sem kalla sig Illgresi, lýsa nú yfir ábyrgð á að hafa eyðilagt erfðabreytt bygg í Gunnarsholti. Viðbrögðin eru eins og ætlast er til. Íslenskur öfgahópur vann skemmdarverk og lögregla rannsakar málið.

Spyrja má hver viðbrögðin voru þegar öfgalaust fólk og sérfræðingar um erfðabreytt matvæli reyndu að kveikja umræðu um afleiðingar ræktunarinnar? Fór hún fram?

Spyrja má hvar umræðan var um öfgahópana í bankakerfinu, í orkugeiranum og í ræningjabæli ríkisfrjálshyggjunnar? Og hversvegna eru fjölmiðlar svona tregir til að fella dóma yfir öfgahópum hrunsins, jafnsnöggir og þeir eru að dæma önnur skemmdarverk?

Nokkrar milljónir eru sagðar hafa tapast á tilraunaakri ORF. En hvað kostuðu öfgahóparnir sem ræktuðu tilraunaakur fjármálafrelsisins. Öfgamennirnir sem sitja áfram í Kastljósinu, skrifa greinar um endurreisn í Moggann og mótmæla eigin Icesave skuldum á Austurvelli.

Það getur vel verið að lögreglan geti upprætt Illgresið sem réðist á erfðabreytta byggið. Þó er það aðeins arfakló miðað við gamalt og nýtt illgresi sem veður yfir Ísland. Daglega heyrist af endurreisn eyðingaraflanna, þar sem öfgamennirnir eru alls ekki kallaðir sínum réttu nöfnum. Þeir eru ennþá áhrifamenn á flestum sviðum samfélagsins. Þó ekki auðmenn. Nú eru þeir blankir og geta ekkert lagt til endurreisnar. En þeir þurfa ekki að biðjast afsökunar. Þetta er illgresið sem verður að uppræta. Um iðrun verður varla að ræða, enda ekki vitað til þess að illgresi hafi samvisku.

Björg Eva Erlendsdóttir

Náttúruvaktin