okt 15 2009
Orkudraumar á teikniborði Norðuráls – kostuleg niðurstaða
Sigmundur Einarsson
Í grein minni „Hinar Miklu Orkulindir Íslands“ sem birtist í Smugunni (ásamt heimasíðu Saving Iceland-rit.) sagði ég m.a. að stóri sannleikurinn um hinar miklu orkulindir Íslands væri tómt plat. Þetta væru skýjaborgir, byggðar á raupi óábyrgra manna. Nú hefur hluti þessara óábyrgu manna stigið fram í dagsljósið undir merkjum Norðuráls. Þann 12. október sl. birtist á heimasíðu fyrirtækisins pistill undir yfirskriftinni „Yfirdrifin orka fyrir Helguvík“. Þar kemur fram að margir hafi viðrað þá skoðun síðustu daga að erfitt verði að afla orku fyrir álver í Helguvík og á eftir fylgir þessi makalausa setning: „Þær skoðanir virðast flestar byggjast á mjög lítilli gagnaöflun eða þekkingu“.
Þar sem ætla má að pistill Norðuráls sé hugsaður sem einhvers konar svar við grein minni tel ég rétt að svara því sem óneitanlega verður að teljast „raup af hálfu óábyrgra manna“. Það er ekki hægt að láta Norðurál komast upp með að bera á borð fyrir íslenska þjóð ósannindi sem síðan eru lapin upp gagnrýnislaust í fjölmiðlum. Í raun þyrftu iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun að grípa í taumana ef þau vilja ekki feta í fótspor Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Sofandaháttur gæti kallað yfir þjóðina orkuhrun, ofan á efnahagshrunið.