nóv 27 2009
Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?
Sigmundur Einarsson
Í október birtist grein eftir mig undir fyrirsögninni Hinar miklu orkulindir Íslands.
Megininntak greinarinnar er ábending til íslensku þjóðarinnar og ráðamanna þess efnis að orkulindir Íslands séu ekki eins miklar og af er látið. Jafnframt er ítrekað það sem ýmsir höfðu áður bent á að tvö 360 þús. tonna álver myndu soga til sín alla jarðhitaorku á Suðvesturlandi og Norðausturlandi og reyndar gott betur. Viðbrögð hafa verið á ýmsa lund. Athyglisvert er að viðkomandi stjórnvöld, þ.e. iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun hafa engin viðbrögð sýnt en þagað þunnu hljóði.
Þann 30. október sl. rituðu tveir starfsmenn HS-Orku, þeir Guðmundur Ómar Friðleifsson yfirjarðfræðingur og Ómar Sigurðsson forðafræðingur, eins konar varnarræður í Morgunblaðið og Fréttablaðið. Yfirjarðfræðingurinn er stóryrtur og fer með himinskautum en forðafræðingurinn er öllu jarðbundnari og heldur sig við efnið í megindráttum. Það sem einkum hefur raskað ró þeirra eru annars vegar efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar og hins vegar sú skoðun mín að fyrirliggjandi mat á orkugetu jarðhitasvæðisins í Krýsuvík og nágrenni sé allt of hátt. Ekki ætla ég að elta ólar við stóryrðin. Efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar eru hvorki frumlegar né mín uppfinning heldur fengnar beint úr umsögn Orkustofnunar um matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar stækknunar (VSÓ Ráðgjöf 2009) en þar segir: „Að öllu samanlögðu er þetta vinnslusvæði fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma“. Starfsmenn HS-Orku eru sýnilega allt annað en ánægðir með álit Orkustofnunar en þar er ekki við mig að sakast. Af einhverjum ástæðum virðist þetta vera viðkvæmt mál. Ég ætla ekki að ræða Reykjanesvirkjun frekar en gera nánari grein fyrir mati mínu á orkugetu Krýsuvíkursvæðisins. Read More