Eftirfarandi grein mun birtast í þriðja tölublaði anarkistatímaritsins Svartur Svanur sem kemur út í desember.
Nú í desember fer fram fimmtánda lofstlagsráðstefna Sameinuðu Þjóðanna, Cop15, í Kaupmannahöfn. Búist er við miklu andófi við ráðstefnunni og fölskum lausnum hennar við umhverfisvandamálunum sem steðja að jörðinni. Svartur Svanur fjallar um ráðstefnuna, græna sjónleikinn, loftslagsbreytingar, endurlífgun kapítalismans, grunnhyggna umhverfissinna, einkavæðingu, kúgun og aukið eftirlit.
Við viljum í fyrstu taka það fram að við erum hvorki vísindamenn né sérfræðingar í loftslagsbreytingum. Líklega værum við alls ekki viðriðinn andófið gegn COP15 loftslagsráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna, ef sannleikurinn væri ekki sá að hinn stórkostlegi alþjóðlegi sjónleikur (e. spectacle) um loftslagsbreytingar snýst um endurreisn kapítalismans og alger yfirráð hans; endurlífgun stigveldisins, arðránsins, kynja-, kynhneigðar-, og kynþáttahyggjunnar, feðraveldisins, markaðs- og einkavæðingarinnar, kúgunarinnar, undirokuninnar, morðanna, lyganna og græðginnar.
Nú spyrja sig eflaust einhverjir hvort við höldum í alvöru að loftslagsbreytingar muni leiða til aukinnar kúgunar af hendi ríkisstjórna. Og hvers vegna þá að brjóta niður kapítalismann? Nú, við skulum við útskýra hvers vegna. Með þessari grein ætlum við að hnýta saman nokkra enda og gera bráðnauðsynlegar tengingar varðandi loftslagsbreytingar.
Í september á síðasta ári fór snarpur hrollur um skrokk kapítalismans á heimsvísu. Greinar einkenna hans og afleiðinga brotnuðu, en laust ekki niður í ræturnar. En einmitt þar liggur vandinn, rótgróinn! Ef kapítalisminn veikist vegna afleiðinga eigin gjörða er alls ekki svo flókið að setja plástra á ástandið sem af því hlýst. En ef fjölbreyttir hópar fólks brjóta niður kúgunaraflið með öllum tiltækum aðferðum og rífa upp með rótum, þá verður ómögulegt að eiga svo auðveldlega við ástandið.
Kapítalisminn er vandinn
Flest þeirra vandamála sem fylgja loftslagsbreytingum má rekja til útbreiðslu nýfrjálshyggjukapítalisma; markaðsvæðingar og einkavæðingar. Nú þegar olíuframleiðsla virðist hafa náð hámarki og auðlindum til að halda áfram framleiðslunni fer fækkandi, eru loftslagsbreytingar fullkomið tækifæri og vettvangur til að viðhalda heimsyfirráðum hins kapítalíska kerfis. Til þess nota valdhafar vandamálin sem þeir sköpuðu sjálfir, og snúa þeim sér í hag.
Til að mynda eru þessir sömu aðilar nú að ýta undir ,,sjálfbæra orkuframleiðslu“ til þess eins að geta haldið framleiðslu og neyslu á varningi í sama eða meiri mæli og áður. Nýjir orkugjafar verða að koma til sögunnar og hinn áhyggjufulli almenningur verður að samþykkja þá. Orkugjafar sem hafa jafn slæm ef ekki verri áhrif á umhverfið og olía – og leiða til enn frekari kúgunar fólks – eru kallaðir fölskum nöfnum. Fjölmiðlar hinna ráðandi afla eru, ásamt markaðssetningu, enn á ný notaðir til að drekkja okkur í áróðri. Hugtök á borð við ,,hrein kol“, ,,græna orku“, ,,umhverfisvænt“, ,,lífrænt“ og ,,kolefnisjafnað“ óma um samfélagið og verst af öllu er fullyrðingin um að loftslagsbreytingar munu leiða til frekari hryðjuverkaárása. Þessum áróðri er beitt til að stjórna hverri einustu hugsun okkar og öllum okkar gjörðum.
Fjölmiðlarnir eru auðvitað eitt nauðsynlegasta tækið í þessu öllu saman. Þeir stjórna öllu flæði upplýsinga. Vilji maður láta rödd sína heyrast í gegnum slíka miðla verður maður annað hvort að ritskoða sig eða verða fyrir ritskoðun annarra. Fjölmiðlar hafa allt vald til að endurskrifa og birta söguna eins og hentar þeim og eigendum þeirra; gelda hana og skapa ,,góðar“ stundir eða ,,slæmar“. Þess vegna búum við á tímum minnisleysis sem umlykur allar hliðar lífsins! Sí og æ taka ráðandi öfl endanlegar ákvarðanir fyrir okkar hönd, notast við eigin sérfræðinga til að útskýra fyrir okkur hvers vegna, og tilkynna okkur svo um ákvarðanir sínar í fjölmiðlum. Áður en við getum efast og spurt spurninga, er komið að næstu frétt á dagskrá og þar með er lokað á alla umræðu – og farið svo í auglýsingar.
Græni sjónleikurinn
Í bók sinni, Society of the Spectacle, segir Guy Debord: ,,Sjónleikurinn ber sig jafnóðum sem allt samfélagið, hluti samfélagsins og sem verkfæri sameiningar. […] Hann er hjarta óraunveruleika hins raunverulega samfélags. Í öllum sínum myndum, hvort sem hann birtist sem upplýsingar eða áróður, sem auglýsing eða bein neysla á afþreyingu, er sjónleikurinn líkan af hinu félagslega ráðandi lífi. […] Hann er sólin yfir heimsveldi nútíma óvirkni, sem aldrei sest. Hann nær yfir allt yfirborð jarðarinnar og baðar sig stanslaust í eigin dýrð.“
Og nú er sólarljósið orðið grænt! Í gær voru það stórir bílar, skyndibitafæði og monní, monní, monní. Í dag eru það sparneytnir bílar, lífrænn matur og ,,grænt“ monní, monní, monní. Hin forríka heimselíta verður nú vitni að því hvernig starandi augnaráð okkar verður grænt. Nú er markmiðið sko að ,,bjarga plánetunni“. Hún nýtir sér góðvilja mannsins og notar hann gegn okkur, hún notar verkfæri sín, fjölmiðla og tækni til að ýta okkur áfram sína leið. Hún dáleiðir okkur með orðum á borð við ,,grænt“ og ,,umhverfisvænt“ þangað til við getum ekki annað en verið alveg viss um að við séum að bjarga jörðinni með því að kaupa lygar elítunnar. Kjarni þessarar blekkingar er þessi nýja ,,græna“ og ,,umhverfisvæna“ leið til framleiðslu; markaðsvæðing náttúrunnar, upphafning kapítalískrar lífrænnar framleiðslu, lygarnar um græna orku, útþenslu hernaðarríkisins undir því yfirskini að loftslagsbreytingar leiði til ótryggs ástands. Allt þetta til þess að viðhalda og auka framleiðslu, gróða, og stjórnina yfir okkur.
Græni sjónleikurinn stendur nú andspænis raunverulegum loftslagsvandamálum okkar tíma. Hann býður okkur innantómar lausnir sem kynntar eru í handhægum verksmiðjuumbúðum og hægt er að selja okkur ef við gleypum við þeim eða höfum efni á þeim. Þannig getum við mengað með góðri samvisku. En ef við erum fátæk, eða ef við berjumst gegn þessum svokölluðu ,,lausnum“, erum við ekki einungis ógeðsleg í augum meirihlutans í samfélaginu heldur erum við líka að rústa jörðinni með því að kaupa ekki þessar fölsku lausnir. Hið ,,umhverfisvæna“ kapítalíska kerfi snýr raunverulegum vandamálum okkar á hvolf og framleiðir þess í stað auglýsingar og upplýsingar af svo miklum krafti að hægt er að troða þeim ofan í kok á okkur á hverri sekúndu með góðu eða illu, þangað til hið stórbrotna nýja alheimsskipulag (hins græna sjónleiks) hefur gjörsamlega gleypt okkur. Þannig verða loftslagsvandamálin að einu andartaki í græna sjónleiknum sem skapaði þau sjálfur og notar nú til aukinna viðskipta.
Tíminn! er peningar!
Sterkasta vopn valdhafa er tíminn. Eins og stendur hafa þeir fullkomið vald yfir tímanum, tímanum okkar. Langflest okkar þurfa að að halda áfram að vinna, vinna okkur inn peninga til að geta lifað af. Þannig erum við læst inni í samfélagsgerð sem er þröngvað upp á okkur, og höfum aðeins tíma fyrir neyslu á áróðri valdhafa og fölskum lausnum þeirra eftir vinnu.
Græni áróðurinn er framleiddur til þess að tryggja að hin svokallaða ,,framþróun“ og ,,lífsgæði“ á vesturlöndum haldist óbreytt. Vatn og matur eru nú þegar löngu orðin að sölu- og markaðsvöru, en nú er kominn til sögunnar ný og ósýnileg söluvara, sem er líklegri til arðbærni en nokkuð annað, þ.e.a.s andrúmsloftið. Sérstaklega eru viðskipti með kolefnislosunarheimildir og hin svokallaða kolefnisjöfnun álitleg. Brátt verður olía kúgari fortíðarinnar en grunnþarfir samfélagsins og undirstaða lífs verða uppistaðan að kúgun dagsins í dag.
Í gegnum fjölmiðla og auglýsingar skapar græni sjónleikurinn félagslega tilveru hins heilsusamlega og lífræna smáborgara, og birtir sem normið. Hann spókar sig á grænum svæðum, hönnuðum og skipulögðum af borgaryfirvöldum, notar sparperur, sparneytna bíla eða rafmagnsbíla, plantar trjám til að jafna kolefnislosun sína og þar fram eftir götunum. Hann tekur þátt í því að bjóða upp á þessar lausnir sem færa alla ábyrgð af herðum stórfyrirtækja og ríkisstjórna og setja þær á herðar einstaklinga. Svona sannfærir hinn normaliseraði smáborgari líka annað fólk um að það geti keypt sér leið út úr vandamálinu án þess að hugsa. Ef það bara vinnur aðeins meira fyrir yfirmenn sína og fyrirtæki getur það bjargað plánetunni með því að kaupa bestu vörurnar. Og þeir sem ekki geta það eru gerðir að glæpamönnum. Framleiðendur og verkamenn eru sannfærðir um að leita sér að ,,grænum“ störfum eða framleiða ,,grænar“ vörur. ,,Græn orka“ er svo auðvitað ódýrari en önnur orka og þannig geta verksmiðjur hæglega verið starfræktar fleiri stundir á dag og framleitt meira. Það hefur í för með sér enn frekari ágang á gæði jarðar og fleiri langar og leiðinlegar vinnustundir fyrir verkafólkið.
Fyrir skömmu fór fram fyrirlestur Dr. Rajenda K. Pachauri frá Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC) í hátíðasal Háskóla Íslands. Þar skýrði Nóbelsverðlaunahafinn frá því að vegna þess hversu ódýr ,,sjálfbær orka“ er gætu suður-afrískar konur í verksmiðjuvinnu nú unnið fleiri vinnustundir til að greiða reikningana. Eins og þær vilji vinna meira! Þær eru neyddar með valdi til að vinna sér inn meiri peninga til þess eins að borga hækkandi skuldir og leigu. Verkafólk er neytt til þess að þræla sér út fyrir sífellt lækkandi innkomu – framleiða meira fyrir minna til þess eins að lifa af.
Græna leiksviðið
Græni sjónleikurinn er leiksvið samfélags sem verður grænna og náttúrulegra með því að markaðssetja fölsku lausnirnar. Hann er til kominn vegna þess að óneitanlega er nauðsynlegt að gera eitthvað varðandi loftslagsbreytingar; vegna þess að eðli sjónleiksins er að endurskapa sig sífellt; og vegna þeirrar vitneskju að raunverulegar lausnir á loftslagsvandanum munu kollvarpa kapítalismanum, uppsprettu vandans. Tilgangur græna sjónleiksins er að kynna sífellt fölsku lausnirnar sem hinar raunverulegu og réttu. Þau sem ætla sér að berjast gegn kapítalisma og brjóta hann niður búa einnig í umhverfi sjónleiksins, fá upplýsingar frá fjölmiðlum og nota því oft svipað tungumál og aðferðir og sjónleikurinn gerir. Þess vegna kemur það fyrir að fólk sem berst gegn kerfinu festist í sérhönnuðu völundarhúsi þess að ráðast aldrei að rótum vandans heldur aðeins gegn einkennum hans. En einkennin birtast óhjákvæmilega alltaf aftur ef ekki er ráðist gegn upptökunum.
Þau sem ráðast að rótum vandans eru hins vegar álitin róttæk og öfgafull; þeim er fleygt út á jaðra samfélagsins. Þannig tekst hinum ráðandi öflum að skipta okkur upp í fylkingar ,,góðra“ og ,,slæmra“ mótmælenda – og vinna þannig bug á okkur. Aktívistar verða þátttakendur í sjónleiknum. Til að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað verðum við að átta okkur á þeim vandamálum sem eru til staðar og ráðast alltaf gegn þeim frá rótum. Það gerum við t.d ekki með því að segja að einn iðnaður sé betri en annar. Skilaboð okkar verða að vera skýr, sönn og sterk. Annars leikum við beinlínis eftir leikreglum óvinarins, og ruglum þau sem fylgjast með álengdar, í ríminu.
Í kjölfar græna sjónleiksins hafa margir náttúruverndarsinnar og aktívistar glatað hugmyndum djúprar vistfræði um að berjast fyrir náttúrunni, náttúrunnar vegna. Náttúruverndarsinnar hafa týnt sjálfum sér innan vísindanna. Það er nánast eins og okkur finnist við þurfa að vera sanngjörn við þau sem hafa völdin og bera ábyrgð á vandamálunum sem við glímum við. Og þannig vilja valdhafar núverandi kerfis að við hugsum. Þeir vilja að athygli okkar beinist að kolum og hversu slæm þau eru, svo þeir geti á sama tíma sannfært nógu marga til að tala jákvætt um vatnsafl. Á endanum fæst grænt ljós til að virkja jökulár og þannig fæst miklu ódýrari orka. Við erum að gefast upp fyrir herkænsku þeirra! Þeir geta auðveldlega tekist á við það þegar eitt lauf fellur af trénu, svo framarlega sem við rífum það ekki allt upp með rótum.
Shock and Awe!
Loftslagssjónleikurinn er nú orðinn hið endanlega Shock and Awe.[1] Síðastliðin þrjátíu ár hefur hræðsluáróðri verið haldið að okkur, með snilldarbeitingu yfirvalda á óttanum sem vopni. Nú þegar loftslagsbreytingar eru fólki ofarlega í huga eru þær notaðar til að hræða okkur á svipaðan hátt og við höfum áður verið hrædd – nema í þetta skiptið hefur allt það sem við höfum áður óttast verið samsett í stærsta óttann. Með ,,öryggi“ að yfirskini gengur nú allt líf á þessari plánetu í gegnum einkavæðingu og sölu, með þeim afleiðingum að samfélagi okkar er ýtt af fullum krafti inn í hreinræktaðan Milton Friedman kapítalisma Chicago-skólans.
Sem dæmi um þessa þróun má nefna hina endalausu einkavæðingu á vatni. Vatn er einkavætt og virkjað til að framleiða ,,hreina orku“ fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki en almenningur nýtur hvorki góðs af vatninu né orkunni. Á sama tíma er vistkerfum breytt og heilu samfélögin færð úr stað, íbúar þeirra hraktir úr stað með valdi af samborgurum. Gróðurinn sem fer undir lónstæði vatnsaflsvirkjanna rotnar, sem verður til þess að uppistöðulónin senda frá sér gróðurhúsalofttegundina metan sem er margfalt skaðlegri fyrir andrúmsloftið en koltvísýringur.
Í augum kapítalsins er vatnið hin nýja olía og með það er braskað sem hverja aðra söluvöru á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði. Auk þess að geta keypt vatnsréttindi geta einstaklingar og fyrirtæki í Bandaríkjunum nú einnig fjárfest í hlutabréfum alls kyns fyrirtækja og fjárfestingarsjóða, sem einbeita sér að frekari viðskiptum með vatn og vatnsréttindi. Þetta eru t.d. tæknifyrirtæki, vatnaverkfræðistofur, alþjóðlegir bankar, vatnsþjónustufyrirtæki og þar fram eftir götunum. Vatnsiðnaðurinn í Bandaríkjunum er 425 milljarða dollara virði og áætlað er að hann verði trilljón dollara virði á næstu fimm árum.
Sú mynd sem meginstraums fjölmiðlar og vatnsréttinda-aktívistar draga gjarnan upp af auðlindabraskinu er alltof einföld; að einstaka stórfyrirtæki séu að markaðs- og einkavæða vatn, t.d Coca Cola á Indlandi og Bechtel í Bólivíu. Hin raunverulega mynd af vatnsverslun er ekki bara af ábúðamiklum auðjöfrum á borð við T. Boone, Li Kai-Shing og Vincent Tchnguiz sem kaupa upp vatnsréttindi. Hún er ekki bara af einstaka stórfyrirtækjum líkt og Coca Cola og Nestlé, sem þurrka upp grunnvatn og uppsprettur og ógna með því lífsviðurværi smábænda og íbúa fátækrahverfa. Myndin er miklu flóknari og stærri! Hún er net sem ofið er mörgum þráðum samstarfs fjárfestingarbanka og hlutabréfafyrirtækja, sem tengjast saman í gegnum aðrar stofnanir, til að mynda opinbera eftirlaunasjóði í Ástralíu, Kanda og Evrópu; auðhringi einvelda í Mið-Austurlöndum og Asíu; og fjölþjóðleg stórfyrirtæki sem kaupa og stjórna vatnsréttindum um allan hnöttinn. Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spila svo veigamikið hlutverk í öllu því ferli sem lýtur að einkavæðingu vatns.
Það eru alls ekki einungis einstaka stórfyrirtæki sem kaupa upp vatnið heldur stundar einnig hafsjór fjármagnseigenda vatnskaup í óða önn og styrkja stöðu sína í vatnsgeiranum.[2]
Reyndar eru Wall Street og kumpánar þeirra – alþjóðlegir bankar og stórfyrirtæki – einnig að braska með vatnsréttindi af miklum móð um allan heim. Þeir álíta kaup á vatni, mat, orku og innviðum samfélaga öruggar fjárfestingar sem eru líklegar til að gefa vel af sér. Um leið sjá þeir gullin tækifæri sem felast í þyrstum og vatnssnauðum heimi, ganga freklega á grunnvatn og vatnsæðar, sem eykur vatnsmengun. Þar af leiðir rýkur upp eftirspurn á hreinu vatni, sem helst í hendur við gríðarlega fólksfjölgun í heiminum.
Einungis 2,5 prósent af vatni jarðar er ferskvatn. Af þessum 2,5 prósentum eru 70 prósent bundin í jöklunum, jökulhettum og vatnsæðum. Minna en eitt prósent ferskvatnsins (eða 0,007 prósent vatns nákvæmlega) stendur hinum tæpu sjö milljörðum manna sem jörðina byggja, villtu lífi og ómanngerðra lífkerfa hennar til boða. Þar með talið það vatn sem landbúnaðar-og iðnaðarframleiðsla mannsins tekur til sín. Vatn er miklu verðmætara en gull og þess vegna skipta ríkisstjórnir sér af fjarlægum heimshlutum eins og Mið-Austurlöndum þegar vandamál á borð við vatnsskort koma til sögunnar. Fullri stjórn á vatni í heiminum fylgir algjört taumhald á jörðinni allri.
Í McCloud í Kaliforníu, USA, ákváðu fylkis- og bæjaryfirvöld að afneita tilvist ákveðins ættflokks innfæddra, vegna þess að á landi hans er fljót sem Nestlé vildi einkavæða fyrir framleiðslu á átöppuðu vatni. Það er augljóst að vandamál á borð við vatns- og matarskort eru afleiðingar markaðsvæðingar og einkavæðingar líkt og dæmið um McCloud og ótal mörg önnur sanna.
Markaðstorg hræsnaranna: Lífræni iðnaðurinn og kolefnisviðskipti
Lífrænt eldsneyti er framleitt úr nytjaplöntum og er framleiðslan nátengd auknum loftslagsbreytingum, skógareyðingu, jarðnæðissviptingum, skorti á líffræðilegum fjölbreytileika vistkerfa, vatns- og jarðvegsþurrkum og ógn við fæðuöryggi. Iðnvæddur landbúnaður, iðnaðarskógarhögg og iðnaðargróðursetning eru nokkrar helstu ástæðum losunar gróðurhúsalofttegunda, eyðileggingar vistkerfa og líffræðilegs fjölbreytileika – en það síðastnefnda er ein af helstu forsendum óbreytts og stöðugs loftslags. Þessir þættir útrýma sjálfbærum landbúnaði og leiða til brottflutnings smábænda og innfæddra. Þeir eru í eðli sínu ósjálfbærir og geta aldrei verið partur af lausnunum við loftslagsbreytingum. Mataróeirðir hafa þegar brotist út, t.d. í Mexíkó þar sem verð á korni hækkaði í beinu sambandi við aukna framleiðslu á etanóli fyrir ,,græna“ bíla. Það eru yfir 865 milljónir manna hungraðir í heiminum í dag og talan hækkar dag frá degi. Það er því gjörsamlega óskiljanlegt hvers vegna við ættum að framleiða eldsneyti fyrir þyrsta bíla en ekki mat fyrir svangt fólk.
Síðustu árin hefur það aukist að lífrænt ræktaður matur sé seldur í verslunarkeðjum á borð við Whole Foods. Átta af helstu matarverslunum heims eiga 38 stærstu lífrænu fyrirtækin. Matvælarisarnir Archer Daniels Midland, Cadbury Schweppes, Coca-Cola, ConAgra, Dean Foods, Dole, General Mills, Groupe Danone, H.J. Heinz, Kellogg, Mars, Parmalat Fianziana, Kraft, Sara Lee, og Tyson Foods hafa sett af stað verkefni með lífrænum matarframleiðendum eða þróað sínar eigin lífrænu vörulínur. Þessi lífræna framleiðsla hefur ekkert að gera með sanngjörn viðskipti við smábændur og landsbyggðarsamfélög, hvað þá félagslegan jöfnuð eða mannúðlega meðferð á verkafólki og dýrum. Stofnanir á borð við USDA (United States Department of Agriculture) leyfa einka- og gróðareknum lífrænum vottunarstofum að skapa sína eigin staðla, sem þýðir að áhugasöm stórfyrirtæki geta leitað til þeirra vottunarstofa sem hafa hvað mildustu staðlana þegar kemur að lífrænni ræktun.
Kolefnisviðskipti eru í grundvallaratriðum leið fyrir mestu mengunarvaldana til að láta líta svo út að þeir aðhafist eitthvað í sambandi við loftslagsbreytingar, á sama tíma og þeir halda áfram að græða. Ríkisstjórnir gefa losunarheimildir venjulega til stærstu mengunarvaldanna og heimildirnar eru svo meðhöndlaðar sem söluvara. Verkefni á borð við REDD (Reducing Emissions from Deforestation and Forest Degration) og CDM (Clean Development Mechanism) eru leiðir til einkavæðingar, sölu náttúruaðlinda og aukins gróða á fárra hendur.
REDD verkefnin – sem ganga út á að rækta nýja skóga til kolefnisjöfnunnar – taka landréttindi og ábyrgð af heimamönnum og setja þau í hendur stórfyrirtækja. Slík verkefni hafa oft mjög neikvæð áhrif á vistkerfin, þurrka upp landið og hafa skaðleg áhrif á nauðsynlegar lækningarjurtir sem heimamenn nota til að lifa af. Þetta á sér til að mynda stað í Brasilíu þar sem stórfelld gróðursetning eukalyptus-plöntunnar skapar einhæfa (e. monoculture) skóga, sem eru ónáttúrulegir því vistkerfi sem fyrir er.
CDM verkefnin gefa iðnvæddum ríkjum heimsins sem hafa skuldbundið sig til að minnka losun á gróðurhúsalofttegundum (betur þekkt sem Annex 1 löndin), tækifæri til að fjárfesta í verkefnum sem minnka losun í þróunarlöndum. Þeim er svo umbunað með auknum losunarheimildum í sínum eigin löndum. CDM verkefnin leyfa t.d. fyrirtækjum að einkavæða heilu árnar til að framleiða ,,endurnýjanlega orku“ sem svo er seld til orkufrekrar framleiðslu. Þetta gefur þeim heimildir til að menga meira á öðrum stöðum og sá bónus fylgir að vatnsorkan er yfirleitt svo ódýr að innkoma fyrirtækisins margfaldast.
Sökum laga um eignarhald hefur öll þessi einkavæðing í för með sér aukið eftirlit. Það eru þegar dæmi um gervihnattareftirlit með skógum sem hafa verið keyptir undir REDD verkefni. Þessu fylgir að innfæddir heimamenn, smábændur og aðrir þeir sem áður notuðu landið mega það nú ekki eða verða að fá til þess sérstakt leyfi. Allri þessari ,,grænu tækni“ fylgja óhjákvæmilega nýjar hátæknileiðir til eftirlits.
Rúsínan í pylsuendanum
Og nú að því óhugnalegasta! Rúsínan í pylsuendanum! Það sem gerir loftslagsbreytingar að hinu algjöra Shock and Awe! Umræða Sameinuðu Þjóðanna um loftslagsbreytingar og stjórnun á hnattrænni hlýnun jarðar er fyrst og fremst innbyrðis hagsmunabarátta milli ríkisstjórna heimsins. Svo lengi sem hætta er á því að loftslagsbreytingar geti haft ófyrirsjáanlegar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar, munu þessi keppandi kapítalísku ríki ekki hafa nokkra löngun né vilja til að nálgast vandamálið af alvöru, nema til þess að undirbúa sig fyrir þá félagslegu upplausn og óeirðir sem líklegt er að fylgi loftslagsbreytingum.
Bandaríska ríkisstjórnin ver skammtímahagsmuni ráðandi elítu landsins með því að hrifsa til sín náttúrulegar orkuauðlindir í gegnum einkavæðingu og stríðsrekstur. Pólitískar og hernaðarlegar stofnanir landsins búa sig nú undir afleiðingar hlýnunar jarðar og eru að þróa hernaðaráætlanir til að bregðast við henni og afleiðingum hennar. Í nýlegri skýrslu sem gefin var út daginn fyrir stóran fund Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, lýstu sérfræðingar Bandaríkjahers því ástandi sem valdhafar heimsins standa nú frammi fyrir.
Í frétt um skýrsluna sem birtist í New York Times sagði m.a. að breytt loftslag jarðarinnar komi til með að krefjast afgerandi breytinga á hernaðaráætlunum Bandaríkjanna næstu áratugina. Auknar horfur séu á hernaðaríhlutunum vegna áhrifa ofsaveðurs, þurrka, fjöldaflutninga og farsótta. Þessar hörmungar – sem orsakaðar eru af loftslagsbreytingum – gætu fellt ríkisstjórnir, alið á hryðjuverkaógnum og gert heilu heimshlutana óstöðuga að mati sérfræðinga Varnarmálaráðuneytisins og leyniþjónustunnar, sem horfa nú í fyrsta sinn alvarlegum augum á mögulegar öryggisógnir í kjölfar hnattrænnar hlýnunar jarðarinnar.
Þeim stjórnvöldum fer nú fjölgandi sem segja vaxandi hitastig heimsins, hækkandi yfirborð sjávar og bráðnandi jökla vera beina ógn við hagsmuni sinna ríkja. Skýrsla Bandaríkjahers byggir á nýlegum rannsóknum á loftslagsbreytingum og varar við því að innan tveggja til fjögurra áratuga muni loftslagsbreytingar geta af sér stríð um vatn, aukna hungursneyð og sjúkdómsfaralda, flóð á þéttbýlum strandlengjum og gífurlega fólksflutninga. ,,Óreiðan sem af þessu hlýst er líkleg til að verða kveikja borgarastyrjalda, þjóðarmorða og gífurlegrar aukningar hryðjuverka“ segir í skýrslunni, sem mælir fyrir miklum viðbúnaði Bandaríkjahers.
Skýrslan, sem ber nafnið National Security and the Threat of Climate Change, var gerð af The Center for Naval Analyses (CNA), sérfræðingaráði sem styrkt er af bandarísku ríkisstjórninni. Við vinnslu hennar naut ráðið aðstoðar hernaðarráðgjafanefndar sem er samansett af fyrrum yfirmönnum hersins, m.a. flotaforingjum og hershöfðingjum. Áður hefur The American Security Project sent frá sér skýrslur í svipuðum dúr.
Hernaðarsérfræðingar hafa sérstakar áhyggjur af því að umfang þeirra hörmunga sem búast má við geti hrint af stað mjög alvarlegu pólitísku umróti, jafnvel byltingum. Skýrslan greinir frá áhyggjum þeirra um að ríkisstjórnir og samfélagsinnviðir margra þróunarlanda hafi ekki burði til að takast á við þessar afleiðingar loftslagsbreytinga. Þegar ríkisstjórnir geti ekki lengur haldið uppi þjónustu fyrir fólkið, lögum og reglu, og verndað landamæri ríkisins fyrir innrásum, myndist kjöraðstæður fyrir ringulreið, ofstæki og hryðjuverk.
Þrátt fyrir að þróunarlönd með háar íbúatölur séu álitin sérstaklega berskjölduð gagnvart slíkum uppþotum, er fjallað um það í skýrslunni að búast megi við umróti hvarvetna í heiminum, þ.m.t. hinum þróuðu löndum Evrópu. Höfundar hennar mæla með styrkingu herstöðva Bandaríkjanna og allra helstu bandamanna þeirra í óstöðugri heimshlutum.
Stórtfelldir búferlaflutningar fólks frá strandlengjum og fátækum heimshlutum til ríkari landa heimsins, hafa orðið til þess að Bandaríkin og Evrópusambandið áætla að styrkja landamæri sín enn frekar en nú er. Yfirvöld nota hinar gífurlega háu tölur um líklega loftslagsflóttamenn til að treysta sinn hægrisinnaða áróður í sessi, og skapa ótta gagnvart þessu fólki.
Bandarískir hernaðarsérfræðingar hafa sagt að breytt og óstöðugt loftslag krefjist þess að ríkisstjórnir landsins lagi sig að nýjum aðstæðum hvað varðar: (í fyrsta lagi) hvers vegna Bandaríkin beiti sínu afli út um allan heim; (í öðru lagi) hvernig og hvar her landsins sé líklegur til að lenda í átökum; (og í þriðja lagi) málefni sem tengjast bandalögum ríkisins við önnur ríki.
Þetta er hreinn og beinn fasismi! Þeir halda svo áfram og segja að loftslagsbreytingar muni knýja fram breytingar hvað varðar ástæður Bandaríkjanna fyrir því að veita aðstoð, styðja aðrar ríkisstjórnir, og fara í stríð. Líkunar á óeirðum og ofstæki á borð við samkeppni um vatn, neyði yfirvöld til að taka íhuga þetta alvarlega. En ef yfirvöld vilja ekki stuðla að óeirðum, hvers vegna er þá verið að einkavæða allar þessar auðlindir? Það verða svo sannarlega uppþot þegar allt verður tekið af fólki – meira að segja vatn og andrúmsloft, forsendur alls lífs.
Þegar hernaðarsérfræðingarnir tala um væntanlega ofstækismenn og hryðjuverkamenn eru þeir einfaldlega að tala um venjulegt fólk sem hefur verið rekið burt af landi sínu; fólk sem hefur verið rænt jarðargæðum sínum og öllu því sem var áður grundvallarþáttur í lífum þess. Þetta venjulega fólk er kallað hryðjuverkamenn vegna þess að það berst á móti kúguninni og vill fá líf sitt til baka.
Þann 25. september sl. opnaði Leyniþjónusta Bandaríkjanna (CIA) miðstöð í tengslum við loftslagsbreytingar og þjóðaröryggi. Á vefsíðu CIA segir m.a að miðstöðin byggi ekki á vísindunum um loftslagsbreytingar heldur á upplýsingum um áhrif fyrirbæra á borð við niðurbrot vistkerfa, hækkandi sjávarmál, fólksfjöldabreytingar og aukna samkeppni um náttúruauðlindir.
Nýlega lýsti allsherjarþing Sameinuðu Þjóðanna yfir miklum áhyggjum hvað þetta varðar og bað allar helstu stofnanir SÞ að brýna fyrir nauðsyn þess að takast á við þá öryggisógn sem loftslagsbreytingar koma til með að hafa í för með sér. Þessi vinna er þegar hafin. Shock and Awe virkar! Hverri löggjöfinni á fætur annarri er hleypt í gegn hægri vinstri. Ef við bregðumst ekki við verður frelsi okkar skorið niður enn frekar.
Ákveðnir öldungardeildarþingmenn í Bandaríkjunum hafa kallað eftir tveggja flokka aðgerðum á þingi hvað varðar loftslagsbreytingar áður en COP15 ráðstefnan fer fram í desember. Vegna aukinnar samkeppni um sjaldgæfar auðlindir og nýrrar öldu flóttamanna þurfi Bandaríkjaher að setja loftslagsbreytingar á varnarmáladagskrá sína. Fyrrum flughershöfðinginn Charles Wald sagði nauðsynlegt að Bandaríkin væru leiðandi hvað þetta varðar. ,,Ég hef ferðast um allan heiminn og það er mjög augljóst að nánast engar meiriháttar aðgerðir eiga sér stað í heiminum án forystu Bandaríkjanna, og það er það sem heimurinn er að biðja um núna“ sagði hann.
Öll nýju hátækni eftirlits- og öryggiskerfin sem yfirvöld hafa látið hanna fyrir sig síðustu áratugina eru svo til þess gerð að fullkomna þetta. Yfirvöld verða að verjast því að helstu stoðir kerfisins verði fyrir skaða, sem hefur þær óhjákvæmilegu afleiðingar í för með sér að líf fólks verður undir enn frekara eftirliti en nú þegar. Þau sem berjast gegn kerfinu fá að kenna á því. Hver sá sem ekki er ríkur er líklegur hryðjuverkamaður. Hin mikla einkavæðing fangelsiskerfisins hentar þessu ástandi fullkomlega; þeim mun fleiri sem hent er í steininn, því meira er hægt að græða.
Með kærleikinn að vopni!
Við verðum að rísa upp áður en það verður um seinan. Við verðum að hefjast handa við að ráðast gegn loftslagsbreytingum frá rótunum og viðurkenna að kerfið sem við búum við hvorki getur né var nokkurn tíma ætlað að ráða fram úr loftslagsvandanum. Ef við gerum þetta ekki erum við dæmd til að lifa við enn meiri kúgun og bælingu af hendi valdhafa en við gerum í dag. Við munum að öllum líkindum verða vitni að því hvernig þau réttindi minnka, sem fyrirrennarar okkar börðust fyrir, og verða jafnvel að engu. Það er reyndar þegar farið að gerast! Í langan tíma hefur okkur hefur verið skipt upp og sundrað, og það hefur verið traðkað á okkur. Yfirvöld hafa yfir tækjum að ráða til að halda ástandinu þannig, en gleymum því ekki að það eru allt manngerð tæki. Ef við byggjum upp hjörtu okkar og eldmóð, áttum okkur á undirstöðum vandans, og ef við áttum okkur á því að kærleikur leiðir ekki af sér friðsemd (e. pacifism) þá getum við staðið upp gegn yfirvöldum. Kærleikur er fullur af tilfinningum og tilfinningar eru síður en svo friðsamar og hvetja ekki til aðgerðaleysis. Til að kollsteypa núverandi kerfi og skapa lárétt samfélög verðum við að berjast með ástina að vopni; ástina á okkur sjálfum, ást á fjölskyldum okkar, vinum okkar og félögum. Þetta er ekki passíf ást, þetta er tilfinningaheit og brennandi ást. Sönn ást er róttæk og hættuleg þessu gelda kerfi.
Að lokum vitna ég í Sun Tzu, The Art of War: ,,Sama hversu vonlaus staðan er, ekki örvænta. Þegar þú hefur allt að hræðast, vertu óhræddur. Þegar þú ert umkringdur hættum, óttastu enga af þeim. Þegar þú ert máttlaus, reiddu þig á útsjónarsemi. Þegar þú ert undrandi, komdu óvininum á óvart.“
Sjáumst í Kaupmannahöfn á COP15, 11.-18. desember!
Svartur Svanur
Neðanmálsgreinar:
1 „Shock and Awe are actions that create fears, dangers, and destruction that are incomprehensible to the people at large, specific elements-sectors of the threat society, or the leadership. Nature in the form of tornadoes, hurricanes, earthquakes, floods, uncontrolled fires, famine, and disease can engender Shock and Awe., Shock and Awe: Achieving Rapid Dominance.
2 Þessir fjármagnshafar eru fjárfestingarver á borð við Goldman Sachs, JPMorgan Chase, Merrill Lynch (áður en það var selt til Bank of America), Citigroup, Morgan Stanley, Deutsche Bank, Credit Suisse, Macquarie Bank, Allianz SE, UBS AG, HSBC Bank, Alinda Capital, The Carlyle Group, Barclays Bank, Nomura Holdings og marga aðra.
Vefsíður tengdar andófinu gegn COP15:
Helstu heimildir þessarar greinar:
The Shock Doctrine, eftir Naomi Klein
Society Of The Spectacle, eftir Guy Debord
Comments On Society Of The Spectacle, eftir Guy Debord
Imperialism & Organic Foods, eftir Carmelo Ruiz-Marrero
Who should own organic? eftir Elizabeth Henderson
Why Big Banks May Be Trying to Buy up Your Public Water System eftir Jo-Shing Yang