Sigmundur Einarsson
Vinnubrögð í anda útrásarinnar
Í ávarpi til íslensku þjóðarinnar á gamlársdag fjallaði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra m.a. um hina ómetanlegu auðlind, íslenska vatnið, og mikilvægi þess að allir hafi aðgang að hreinu vatni. Hún sagði að sem þjóð þyrftum við að beina sjónum okkar að því hvernig við getum nýtt ferskvatnslindir Íslands í þágu heimsins. Í framhaldi af þessum orðum forsætisráðherra er fróðlegt að skoða stöðu og horfur í verndun vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu.
Staðreyndin er sú að fyrir dyrum stendur að stofna vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins í hættu með framkvæmdum sem byggja á afar veikum forsendum. Hér er átt við byggingu Suðvesturlína sem munu liggja að hluta yfir viðkvæmustu hluta vatnsverndarsvæðanna. Til að gera sér grein fyrir alvarleika þessa máls er nauðsynlegt að skoða jarðfræði svæðisins, eðli vatnsverdarsvæða og þeirra laga og reglugerða sem gilda um slík svæði.
Jarðvatnið
Flestar helstu ferskvatnslindir landsins tengjast ungum jarðmyndunum og sprungusvæðum. Þetta merkir í raun að bestu vatnsbólin fylgja eldgosabeltum landsins eins og raunin er t.d. á Suður- og Suðvesturlandi og á Norðausturlandi. Þar er afrennsli víða lítið á yfirborði og úrkoman skilar sér í lindum á láglendi og jafnvel úti við sjó. Erfitt getur á hinn bóginn reynst að finna gott ferskvatn í eldri berggrunni landsins eins og t.d. á Suðaustur- og Austurlandi, Vestfjörðum og á Norðurlandi.
Mikilvægustu vatnsból landsins eru þau sem þjóna höfuðborgarsvæðinu. Meira en helmingur landsmanna notar vatn frá lindasvæðum sem venjulega eru kennd við Gvendarbrunna og Kaldárbotna. Lengst af var vatnið á síðustu öld tekið úr opnum vatnsbólum en síðustu áratugina hefur því verið dælt úr borholum í nágrenni gömlu vatnsbólanna. Þetta vatn er ættað úr fjalllendinu suður af Reykjavík, frá Bláfjöllum vestur til Brennisteinsfjalla. Þar er afar úrkomusamt og allt regn sem þar fellur sígur niður í jarðlögin svo varla er hægt að tala um rennandi vatn á yfirborði. Djúpt undir fjallgarðinum fyllir þetta vatn allar glufur og sprungur í berginu og myndar það sem kallað er jarðvatn eða grunnvatn. Frá fjallgarðinum síga jarðvatnsstraumar hægt fram neðanjarðar í átt til sjávar. Frá Bláfjallasvæðinu fellur breiður jarðvatnsstraumur til norðvesturs undir miklum hraunflákum í átt til Heiðmerkur. Þegar vatnið hefur fallið um 10 km leið neðanjarðar verður fyrir því mikið sprungukerfi á Heiðmörk og veitir það jarðvatninu í tvo meginstrauma. Annar fellur til norðausturs í átt til Gvendarbrunna og hinn til suðvesturs til Kaldárbotna. Jarðvatnskerfið teygir sig áfram til vesturs allt til Straumsvíkur en þar streymir ferskvatnið fram í fjöruborðinu á útfallinu.
Húsfellsbruni og sprungurnar í Heiðmörk
Á síðustu árþúsundum hafa allmiklir hraunstraumar runnið til norðvesturs frá Bláfjöllum í áttina að Heiðmörk og Helgafelli, síðast á 9. öld. Hraunflákinn í heild nefnist Húsfellsbruni, kenndur við Húsfell, sem er stakt fell skammt norðaustur af Helgafelli. Hraunin liggja að hluta út yfir sprungukerfið sem liggur um Heiðmörk en það tengist eldvirkni á Krýsuvíkursvæðinu og er víða 2-3 km breitt. Sprungurnar liggja m.a. um Kaldárbotna, Helgafell og Húsfell og þaðan til norðausturs um Heiðmörk að Elliðavatni og Rauðavatni. Þau hraun í Húsfellsbruna sem lengst hafa runnið þekja hluta af sprungunum.
Suður í fjalllendinu er dýpi á grunnvatn allt að 400 m og minnkar eftir því sem nær dregur Heiðmörk. Frá jarðfræðilegu sjónarmiði ræðst hættan á að mengun berist í grunnvatnið einkum af þremur þáttum:
· Dýpi á grunnvatnið, þ.e. þykkt jarðlaga ofan grunnvatnsborðs, en hún ræður miklu um það hversu vel úrkoma síast á leið sinni niður í grunnvatnið.
· Síunin ræðst einnig af berggerðinni, þ.e. því á hvern hátt og hversu vel bergið síar vatnið. Ferðatími vatnsins um jarðlögin ræður mestu um gerlahreinsun en hann ræðst af berggerðinni og sprungum í berginu.
· Þriðja og mikilvægasta atriðið eru sprungur í berggrunninum. Þær stýra og safna saman jarðvatninu í Heiðmörk en jafnframt geta þær opnað beina og óhindraða leið fyrir úrkomu og aðra vökva niður í jarðvatnið. Slík skilyrði eru m.a. til staðar í Heiðmörk og einnig má ætla að opnar sprungur leynist tiltölulega grunnt undir hraununum þar suður af.
Vatnsverndarsvæðin
Til að vernda hin mikilvægu vatnsból höfuðborgarsvæðisins hefur verið skilgreint stórt og mikið vatnsverndarsvæði. Svæðinu er skipt í áhættuflokka sem nefnast brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði A og fjarsvæði B. Þessi flokkun er í samræmi við reglugerð umhverfisráðuneytisins nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns með síðari breytingum (reglugerð nr. 533/2001) en hún er byggð á lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Í 12. grein reglugerðarinnar segir m.a.: Sveitarstjórnir og heilbrigðisnefndir skulu grípa til sérstakra ráðstafana til að koma í veg fyrir að gæð[um] vatns sem tekið er til neyslu og vatns sem kann að verða tekið síðar sem neysluvatn geti hrakað eða [þau] spillst.
Í 13. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um flokkun verndarsvæða segir m.a.:
I. flokkur. Brunnsvæði
Brunnsvæði er næsta nágrenni vatnsbólsins. Það skal vera algjörlega friðað fyrir óviðkomandi umferð og framkvæmdum öðrum en þeim, sem nauðsynlegar eru vegna vatnsveitunnar …..
II. flokkur. Grannsvæði
Utan við brunnsvæðið skal ákvarða grannsvæði vatnsbólsins og við ákvörðun stærðar þess og lögunar skal taka tillit til jarðvegsþekju svæðisins og grunnvatnsstrauma sem stefna að vatnsbólinu. Á þessu svæði skal banna notkun á hættulegum efnum og birgðageymslu slíkra efna. Hér er m.a. átt við olíu, bensín og skyld efni, salt, eiturefni til útrýmingar á skordýrum eða gróðri og önnur efni sem mengað geta grunnvatn, auk efna sem sérstaklega eru tilgreind í reglugerð um neysluvatn. Ekki skal leyfa nýjar byggingar, sumarbústaði eða þess háttar á svæðinu. Vegalagnir, áburðarnotkun og önnur starfsemi innan svæðisins skal vera undir ströngu eftirliti.
III. flokkur. Fjarsvæði
Fjarsvæði er á vatnasvæði vatnsbólsins en liggur utan þess lands sem telst til I. og II. flokks verndarsvæðanna. Þar sem vitað er um sprungur eða misgengi á þessu svæði, skal fyllstu varúðar gætt í meðferð efna, sem talin eru upp í II. flokki……
Svæði sem skilgreind hafa verið sem brunnsvæði á vatnsverndarsvæðum höfuðborgarsvæðisins eru samtals um 10 km2 og skilgreind grannsvæði eru um 140 km2. Ekki verður annað séð en stærð þessara verndarsvæða sé skynsamlega ákvörðuð. En hvernig skyldi reglugerðinni vera framfylgt að öðru leyti?
Hér er hægt að skoða kort sem sýnir verndarsvæði vatnsbóla á höfuðborgarsvæðinu.
Starfsemi og umferð á verndarsvæðunum
Brunnsvæðin eru algerlega friðuð og þar eru ekki leyfðar neinar framkvæmdir aðrar en þær sem teljast nauðsynlegar vegna vatnsveitu. Á grannsvæðum eru ekki leyfðar nýjar byggingar og notkun hættulegra efna er bönnuð, m.a. notkun olíu og bensíns. Samkvæmt þessu virðist eiga að banna alla umferð vélknúinna ökutækja. Samt sem áður virðist heimilt að leggja vegi undir ströngu eftirliti. Ekki er þó ljóst til hvers á að nota vegi ef ekki má nota hefðbundið eldsneyti.
Um grannsvæði vatnsbólanna liggja vegir í Heiðmörk. Vestarlega á grannsvæðinu liggja Krýsuvíkurvegur og einnig Bláfjallavegur vestari. Þá er stór og mikil efnisnáma innan grannsvæða í Undirhlíðum og skotæfingasvæði var a.m.k til skamms tíma í Óbrinnishólum.
Um áratuga skeið hefur bílaumferð um viðkvæmasta hluta grannsvæðanna, sprungusvæðin í Heiðmörk, verið nær óheft og sama gildir um Bláfjallaveg frá Hafnarfirði. Olíuflutningar munu þó bannaðir á þessum vegum. Enginn virðist hafa áhyggjur af því sem getur gerst ef t.d. venjulegur dísilknúinn fólksbíll eða jeppi ekur út af vegi, veltur við eða á sprungu í berggrunninum og 50-70 lítrar af hráolíu leka beinustu leið niður í jarðvatnið. Slíkt atvik gæti einfaldlega valdið því að stór hluti vatnsbólanna yrði ónothæfur næstu áratugina á eftir. Og hvað er þá til ráða? Staðreyndin er líklega sú að nægilegt magn af jafngóðu neysluvatni þyrfti að sækja austur á Þingvöll. Á vatnsverndarsvæðinu á að miða við að mengunarhætta sé nákvæmlega engin. Allt annað er óþörf áhætta og samkvæmt öllum lögmálum endar núverandi fyrirkomulag með umhverfisslysi. Núverandi öryggisráðstafanir virðast miðast við að það sem aldrei hefur komið fyrir geti alls ekki gerst. Krýsuvíkurveg með alla sína þungaflutninga þarf hér að taka út fyrir sviga enda er hann nokkuð til hliðar við megin vatnsbólin. Aðalatriði þessa máls er að ekki er hugsað um velferð íbúanna til langrar framtíðar. Þessi verðmæta auðlind nýtur engan veginn þeirrar umhyggju sem nauðsynleg er og lög gera ráð fyrir. Og nú er vá fyrir dyrum.
Suðvesturlínur
Tvær háspennulínur liggja um vatnsverndarsvæðin. Frá spennistöðinni á Geithálsi liggur lína um brunnsvæðin við Gvendarbrunna og Myllutjörn og áfram yfir grannsvæðin í Heiðmörk að spennistöð við Hamranes í Hafnarfirði. Þessi lína er nefnd Hamraneslínur 1 & 2 því í raun munu þetta vera tvær háspennulínur á einni staurastæðu. Önnur háspennulína liggur frá Sandskeiði vestur yfir grannsvæði og brunnsvæði í Húsfellsbruna, suður fyrir Helgafell og þaðan vestur fyrir Stórhöfða í spennistöðina við Hamranes. Þessi lína er hér nefnd Búrfellslína 3B en virðist einnig hafa verið nefnd Kolviðarhólslína 2.
Vegna byggingar álvers í Helguvík eru nú í undirbúningi miklir orkuflutningar til Suðurnesja frá ýmsum tilgreindum og ótilgreindum orkuverum einhvers staðar austan við Sandskeið. Meðal annars er fyrirhugað að reisa tvær stórar 400 kV háspennulínur frá Sandskeiði að nýrri spennistöð í Hrauntungum í Hafnarfirði sem ætlað er að leysa af hólmi núverandi spennistöð við Hamranes. Á þessari leið liggja línurnar að mestu samsíða núverandi Búrfellslínu 3B og á um 12 km kafla munu þessar þrjár línur liggja yfir einn viðkvæmasta hluta vatnsverndarsvæðisins í Húsfellsbruna.
Verkefnið í heild er nefnt Suðvesturlínur: Styrking raforkukerfisins á Suðvesturlandi og því haldið fram að línurnar séu óháðar byggingu álvers í Helguvík. Þó er dagljóst að ekki stendur til að byggja upp almennt dreifikerfi fyrir raforku í landinu þar sem hægt verður að stinga í samband 620 MW álveri hvar sem er og hvenær sem er. Þessi hluti Suðvesturlína tekur fyrst og síðast mið af orkuþörf álvers í Helguvík.
Hér er því við að bæta að flutningsgeta þessara lína er langt umfram þarfir álvers í Helguvík og hugsanlegrar 300 MW stækkunar álversins í Straumsvík. Ítrekað hefur verið bent á þá óþægilegu staðreynd að orku fyrir fullbyggt álver í Helguvík er ekki að finna á suðvesturhorni landsins og þá er tómt mál að tala um 300 MW til viðbótar til Straumsvíkur. Því er eðlilegt að spurt sé hvort hugmyndir um þessar miklu línur séu yfirleitt raunhæfar. Er hugsanlegt að Landsnet, fyrirtæki í eigu ríkisins, sé hér að leggja til stórkostlegt bruðl með almannafé? Hvaða aðili skyldi vera ábyrgur ef svo reynist vera? Væntanlega Orkustofnun og iðnaðarráðuneytið. Spyr sá sem ekki veit.
Þegar Suðvesturlínur verða komnar í gagnið er fyrirhugað að fjarlægja Hamraneslínur 1 & 2. Sjá t.d. kort á vef Reykjavíkurborgar. Þessar línur liggja um einn allra viðkvæmasta hluta verndarsvæðanna, brunnsvæðin við Gvendarbrunna, þannig að niðurrifi þeirra fylgir ekki síður hætta fyrir vatnsbólin en bygging nýrra lína.
Áhugasömum lesendum er bent á að auðvelt er að skoða loftmyndir af Heiðmörk og nágrenni á vef símaskrárinnar http://ja.is/ . Smellt er á flipann kortavefur og skoðunarsvæðið síðan stækkað að vild. Í góðri stækkun má auðveldlega telja staurana í Búrfellslínu 3B þar sem hún liggur um Húsfellsbruna. Á sama hátt má skoða kort af svæðinu. Einnig má skoða svæðið á Google Earth.
Umhverfismat áætlana
Vegna þessara framkvæmda þarf að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur og þá þarf m.a. að fara fram svonefnt umhverfismat áætlana samkvæmt lögum nr. 105/2006. Í umhverfismati sem unnið hefur verið fyrir Reykjavíkurborg vegna breytingar á aðalskipulagi 2001-2024 í tilefni af Suðvesturlínum (Landmótun ehf. & Efla verkfræðistofa 2009) segir m.a.:
Niðurstaða matsins er sú að aðalskipulagsbreytingin hefur óveruleg áhrif á gróður, fuglalíf, landslag, jarðfræði og jarðmyndanir, vatnsverndarsvæði. Sjónræn umhverfisáhrif eru neikvæð þar sem háspennulínum mun fjölga og neikvæð áhrif verða á útivist vegna fjölgunar lína á útivistarsvæðum.
Og einnig:
Háspennulínan mun liggja á svæði sem er skilgreint sem óbyggt svæði og er grannsvæði vatnsverndar, sbr. skilgreining í svæðisskipulagi vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu. Umrætt svæði er mestan part innan marka Bláfjallafólkvangs.
Hér vekur sérstaka athygli að ákvæði sem fram koma í reglugerð nr. 796/1999 með síðari breytingum, sbr. hér að framan, koma hvergi við sögu í umhverfismatinu. Línurnar liggja á 12 km kafla um grannsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins þar sem bannað er að reisa nýjar byggingar. Hér verður að ætla að með slíku ákvæði sé ekki verið að undanskilja háspennulínur sérstaklega. Bygging þeirrar háspennulínu sem hér um ræðir er trúlega umfangsmesta framkvæmd sem nokkru sinni hefur komið til álita á vatnsverndarsvæðinu og er langt umfram þær byggingar sem sérstaklega eru tilteknar í reglugerðinni. Þessi vinnubrögð Reykjavíkurborgar og viðkomandi ráðgjafafyrirtækja geta vart talist annað en háskaleikur með vatnsauðlindina og í besta falli vítavert gáleysi. Hver ber ábyrgð á að farið sé að lögum og reglum í þessum málaflokki? Líklega umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið.
Tillögu að nefndri breytingu aðalskipulags ásamt umhverfisskýrslu má skoða á vef Reykjavíkurborgar (sbr. Reykjavíkurborg 2009, Landmótun & Efla verkfræðistofa 2009).
Jarðrask í Bláfjallafólkvangi
Eins og fram hefur komið liggur umrætt framkvæmdasvæði í Húsfellsbruna að mestum hluta innan marka Bláfjallafólkvangs. Samkvæmt auglýsingu um Bláfjallafólkvang í B-deild Stjórnartíðinda nr.173/1985 er óheimilt að gera á svæðinu jarðrask nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Þetta atriði er nefnt í frummatsskýrslu en framkvæmdaraðili virðist ekki hafa áhyggjur af slíkri leyfisveitingu. Eru framkvæmdir af þessum toga sjálfsagðar á friðuðum svæðum? Til hvers var svæðið friðað upphaflega? Örugglega ekki fyrir háspennulínur framtíðarinnar.
Myndin sýnir háspennuskóginn efst á Hellisheiði. Línurnar eru þrjár. Sogslína, sem er elst og minnst, stendur á fjórum fótum, Búrfellslína 2 stendur á tveimur fótum og yngsta og stærsta línan, Búrfellslína 3, stendur á einum fæti. Í Húsfellsbruna á skógurinn að verða enn myndarlegri. Þar er einnig gert ráð fyrir þremur línum. Núverandi lína er eins og Búrfellslína 2 og tvær nýjar línur, Suðvesturlínur, verða eins og Búrfellslína 3.
Sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum
Samkvæmt fréttum mun umhverfisráðherra á næstu dögum úrskurða í kærumálum sem snúa að sameiginlegu mati á umhverfisáhrifum Suðvesturlína og tengdra framkvæmda. Landsnet hefur reyndar haldið því fram að verkefnið sé sjálfstætt og ótengt öðrum verkefnum. Viðkomandi sveitarstjórnir á höfuðborgarsvæðinu (Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður) hafa staðið með Landsneti og greinilega ekki séð ástæðu til að kanna áhrifin á vatnsverndarsvæðin í víðara samhengi. Hvað ætli þetta fólk sé eiginlega að hugsa? Og hvar er embættismannakerfið? Og heilbrigðisnefndirnar? Og sérfræðingar veitustofnana sveitarfélaganna?
Enn er óljóst hvaðan rafmagnið á að koma sem flytja skal eftir línunum. Þörfin fyrir þann hluta línanna sem á að liggja um verndarsvæði vatnsbólanna hefur ekki verið skýrð á fullnægjandi hátt og ekki hefur verið gerð skynsamleg grein fyrir núllkosti, þ.e. að byggja ekki þennan hluta línunnar. Fullyrt er að slíkt hefði mikil áhrif á áform um aukna orkuframleiðslu og uppbyggingu orkufrekrar starfsemi á Suðvesturlandi. Auðvitað hefur línan mikil áhrif á slík áform og einmitt þess vegna þarf að meta umhverfisáhrifin sameiginlega. Hver skyldi vera tilgangurinn með mati á umhverfisáhrifum þar sem allar forsendur verkefnisins vantar? Auðvitað er tilgangurinn sá að sleppa auðveldlega við þá leiðu kvöð að fjalla almennilega um umhverfisáhrif framkvæmdarinnar.
Það er deginum ljósara að bygging Suðvesturlína í Húsfellsbruna er í fullkominni andstöðu við þær reglugerðir sem settar hafa verið um verndun neysluvatns og vatnsbóla. Þessu vilja opinberir aðilar þ.e. Landsnet og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skauta framhjá á sem auðveldastan hátt. Þetta er það siðferði sem viðgengist hefur í umhverfismálum hér á landi.
Niðurlag
Í orkumálum Íslands virðist allt á sömu bókina lært. Vaðið er áfram í blindni. Hvergi virðist örla á heildaryfirsýn. Stjórnvöld hafa samþykkt byggingu stórs álvers á Suðurnesjum. Skipulagsyfirvöld sáu ekki ástæðu til að láta meta umhverfisáhrif álversins með tengdum framkvæmdum þrátt fyrir skýrar ábendingar náttúruverndarsamtaka. Ítrekað hefur verið bent á að litlar líkur séu til þess að orkulindir á Suðvesturlandi nægi til að knýja álverið og nýleg skýrsla Orkustofnunar um jarðhitaauðlindina (Jónas Ketilsson o.fl. 2009) hefur síður en svo orðið til þess að breyta því mati. Áfram skal þó haldið í íslenskum anda. Nú á að reisa háspennulínur til að flytja orku til álversins. Það skal gert án tillits til þess hvar orkan verður framleidd.
Undirritaður telur að sá kostur sem Landsnet leggur fram sem línustæði í Húsfellsbruna komi einfaldlega ekki til álita. Eini hugsanlegi kosturinn fyrir nýja háspennulínu frá virkjunum á Suðurlandi og Hengilssvæði út eftir Reykjanesskaga er með suðurströnd skagans um Selvog og Krýsuvík. Ef sú línuleið gengur ekki er enginn kostur í stöðunni.
Ákvörðunin um álver í Helguvík var óraunhæf frá upphafi, byggð á sandi í anda íslensku útrásarinnar. Orkufyrirtækin (Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja) gáfu óraunsæ og fullkomlega ábyrgðarlaus vilyrði um orku. Embættismenn og stjórnmálamenn hlustuðu ekki á kröfuna um sameiginlegt umhverfismat. Nauðsynlegum undirbúningi var þar með sleppt. Og nú gildir bara að keyra verkefnið áfram að því er virðist í þeirri veiku von að það reddist einhvern veginn. Og hver borgar ef illa fer? Auðvitað þjóðin.
Nú er svo komið að fátt virðist geta komið í veg fyrir að vatnsbólum höfuðborgarsvæðisins verði stefnt í hættu í þágu framkvæmda á Suðurnesjum sem stofnað hefur verið til af fádæma fyrirhyggjuleysi. Þetta gerist á sama tíma og forsætisráðherra mærir hina ómetanlegu auðlind, íslenska vatnið, og ræðir hvernig við getum nýtt hana í þágu heimsins. Af framangreindu má ráða að hér skortir töluvert á að samhengi sé milli orðs og æðis. Síðasta von okkar í þessu dæmalausa máli er að umhverfisráðherra sjái til þess að fram fari sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum álvers í Helguvík, Suðvesturlína og þeirra orkuvera sem þjóna skulu álverinu og að í því mati verði farið að gildandi lögum og reglugerðum.
Höfundur er jarðfræðingur
Helstu heimildir:
Jónas Ketilsson, Héðinn Björnsson, Sæunn Halldórsdóttir & Guðni Axelsson 2009. Mat á vinnslugetu háhitasvæða. OS-2009-09. [skoðað 24.1.2010].
Landmótun & Efla verkfræðistofa 2009. Suðvesturlínur. Styrking raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi. Frummatsskýrsla. [skoðað 24.1.2010].
Reykjavíkurborg 2009. Breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Suðvesturlínur, Búrfellslína 3, Kolviðarhólslína 2, Sandskeiðslína 1 – Niðurfelling Hamraneslína 1 og 2 og Sogslínu 2. [skoðað 24.1.2010].