jún 09 2010

Hvítþvottur á áhrifum stóriðjunnar

Umsetin víðáttaÞessi grein birtist upprunalega í júníhefti hins mánaðarlega fréttaskýringarits Róstur.

Hvítþvottaskýrsla sú er Alþingi lét vinna fyrir sig undir þeim formerkjum að rannsaka aðdraganda og orsök hérlends efnahagshruns hefur verið til umfjöllunar á opinberum vettvangi undanfarna tvo mánuði. Fjölmiðlar og aðrir hagsmunahópar hafa verið iðnir við að fjalla um hana kafla fyrir kafla og sigtað út fyrir lesendur sína meginmál hennar. Ekki hefur þó öllum köflum hennar verið gerð jöfn skil. Mikið hefur verið einblínt á kaflann sem lútir að refsiverðum athæfum og vanrækslu í starfi í aðdraganda bankahrunsins, einkavæðingarköflunum og lánabókum þeim sem birtast í skýrslunni. Hefur dómstóll fjölmiðla gengið í lið með yfirvöldum um að verja hið núverandi stjórnarfarskerfi með umfjöllun sinni, sem hefur að öllu leyti verið hliðholl útvöldum niðurstöðum skýrslunnar á kostnað mikilvægari þátta hennar. Enginn fjölmiðill hefur hingað til litið gagnrýnum augum á tvö atriði sem eru hvað veigamest í þessum 2000 blaðsíðna doðranti, og sem rannsóknarnefndin sjálf lagði aðaláherslu á, á blaðamannafundi sem hún hélt í Iðnó á útgáfudegi skýrslunnar, en það er auðvaldshyggjan og stóriðjustefnan.

Stjórnvöld voru vandamálið

Í Rannsóknarskýrslunni er mikið gert úr því að útskýra meint mikilvægi bankaþjónustu og fjármálastofnanna fyrir samfélagið og þeim hampað sem hluta af nauðsynlegustu innviðum mannlegs samfélags. Síðar eru þær settar í samhengi við mikilvægi stjórnvalda sem aðhaldstóli fyrir þessar stofnanir, sem annars gætu aðhafst líkt og þeim sýndist með skelfilegum afleiðingum fyrir samfélagið í heild sinni, líkt og gerðist hér á landi haustið 2008, þrátt fyrir að hér væri unnið eftir því kerfi sem skýrslan hampar svo mikið. Skýrslan lítur hvergi á stjórnarfarið með hlutlausum augum, heldur upphefur hún kosti þess og sniðgengur alla umfjöllun um gallana. Hvergi minnist hún á að kerfið sé gallað frá upphafi og í raun sniðið til hruns sem þessa sé græðginni gefinn laus taumurinn. Farið er yfir nauðsyn hagvaxtar í fjármálageiranum og þeirra áhrifa sem skapast ef hann ekki er stöðugur en ekki orði minnst á þá staðreynd að eilífur hagvöxtur er ein meginorsök þeirrar gífurlegu ágengni á vistsvæðin um veröld alla sem mun þurrausa þau innan fárra áratuga með þessu áframhaldi. Krafan um hagvöxt er sett öllu æðra í slíku kerfi.

Eina stjórnmálafólkið sem einhverjum ásökunarfingrum er beint gegn eru yfirmenn vissra ráðuneyta og stofnanna, en þingið og starfsmenn ráðuneytanna fríaðir allri ábyrgð. Vekur það upp ýmsar óþægilegar spurningar um framkvæmd hins svokallaða lýðræðis á Íslandi. Ef enginn starfsmaður ber neina ábyrgð hlýtur það að þýða að þau hafi ekkert að segja, sem þýðir að stjórnandi viðkomandi stofnunar eða ráðuneytis er alvaldur þar inni. Hvernig getur annars öll ábyrgðin verið ráðherranna? Og hvað með allt það Alþingisfólk sem leyfði þessum hlutum að viðgangast? Hvernig rannsóknarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þeirra ábyrgð sé engin er furðuverk út af fyrir sig, og það er einmitt í því sem hvítþvottur skýrslunnar felst; firra kerfið allri ábyrgð, tína til augljósustu blórabögglana úr stjórnsýslunni og fjármálageiranum, og krossfesta þá til að friðþægja þjóðina í tilraun til að endurheimta traust almennings á kerfinu.

Því miður virðist það einmitt hafa tekist ef eitthvað má marka fréttaumfjöllun um innihald skýrslunnar og áherslur sumra mótmælaaðgerða sem ýmsir hópar hafa staðið fyrir síðan hún kom út.

Stóriðjan og hrunið

Þó svo að hérlend stjórnvöld hafi algjörlega klúðrað málunum með einkavæðingar- og stóriðjustefnum sínum er farið mjög varkárum orðum um þær í þeim köflum sem snúa að þeim, og nærgætnislega bent á hvað hefði mátt betur fara. Þótt stóriðjuframkvæmdarferlinu sé alfarið gefin sökin á ofþenslu bankakerfisins er enginn beinn dómur felldur um þá stefnu og forsvarsmenn hennar. Þess í stað einblínir skýrslan á aðferðafræðina við framkvæmd stóriðjuuppbyggingarinnar. Umfang og hraði hennar, ásamt vöntun á jafnvægisaðgerðum er tekið fyrir sem meginorsök þenslunnar, sem óx óviðráðanlega á framkvæmdartímanum og skapaði grundvöllinn fyrir hruni alls fjármálakerfisins. Augljóst er við lestur skýrslunnar að meginorsakir þess að svo fór sem fór liggja í raun í þessum framkvæmdum sem voru gerðar á kærulausan hátt og að því er virðist án nokkurrar umhugsunar um langtímaáhrif. Skammtímagróðinn, auðvaldshyggjan og vinaveldið réð öllum ríkjum..

Mörgum áratugum var varið í að skipuleggja og hefja framkvæmd stóriðjustefnu yfirvalda af fullri alvöru. Skýrslan rekur tildrög þessarar stefnu sem keyrð var áfram af fámennum hópi gráðugra einstaklinga sem leituðu eftir verðgildi í hverjum fermetra landsins óháð skaðlegum áhrifum þess á náttúru eða samfélagið. Þegar þessi stefna var loks sett í framkvæmd, með sínum stjarnfræðilega dýru framkvæmdum í kjölfarið, olli það gífurlegri þenslu á bankakerfinu þar sem framkvæmdirnar voru miklu stærri en fjármálakerfið réð við og engin fjármálastofnun gerði neinar af þeim aðgerðum sem nauðsynlegar voru til að takmarka áhrifin.

Samkvæmt skýrslunni er ekki að sjá annað en að það væri vitað frá upphafi hvaða áhættu fjárhagi landsins væri búinn í kjölfar þeirra, sérstaklega þar sem mikið af lánveitingunum sem gerðu framkvæmdirnar mögulegar voru í erlendri mynt, og líkt og önnur lán í erlendum gjaldeyri hefur höfuðstóll þeirra vaxið uppúr öllu valdi vegna gengishrunsins. Seðlabankinn og aðrar fjármálastofnanir voru margoft varaðar við áhættunni af þensluáhrifum framkvæmdanna, og var stungið upp á mörgum jöfnunaraðgerðum, sem þó fóru aldrei í vinnslu.  Þó svo að áliðnaðurinn skapi störf og auki útflutning lítur ekki út fyrir að þetta hafi verið arðsamar framkvæmdir þar sem þessi útflutningur rennur ekki í þjóðarbúið heldur í vasa álfyrirtækjanna sem flytja ágóðann úr landi. Hér er líka um að ræða fyrirtæki sem hafa stærri fjárhag heldur en flest smáríki og þau kunna sitt fag. Þannig færir Alcoa til dæmis ágóða og tap á milli fyrirtækja sinna eftir hentisemi og hefur Ísland komið mjög illa út úr slíkum aðgerðum þeirra.

Á meðan fjölmiðlar og stjórnvöld þagga niður þessar niðurstöður skýrslunnar vaða Samtök iðnaðarins, ASÍ og fleiri stóriðjusinnar uppi og heimta fleiri stóriðjuverkefni á þeim forsendum að þau muni rétta efnahaginn af og skapa almenningi störf. Seinasta stóriðjufyllerí knésetti efnahag landsins og batt samfélagið nánast í ánauð. Er því ekki við öðru að búast en að landið verði rjúkandi rústir einar, fái þessir hópar sínu framgengt. Þöggunina um áhrif stóriðjunnar verður að rjúfa áður en það verður of seint.

Náttúruvaktin