júl 09 2010

Mál nímenninganna: Samstöðumótmæli í Barcelona

Eftirfarandi texti og myndir bárust okkur frá Spáni:

Að hádegi fimmtudagsins 8. júlí hittust tuttugu manns við íslensku ræðismannaskrifstofuna í Barcelona, til að sýna reiði sína í garð íslenska ríkisins vegna réttarhaldanna sem nú fara fram yfir nímenningunum sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi 8. desember 2008. Ef raunverulegt lýðræði væri til staðar hefðu raddir þeirra sem fóru inn í þinghúsið verið boðnar velkomnar og þeim gefið vægi. En þar sem raunverulegt lýðræði getur aldrei orðið að veruleika undir ríkisfyrirkomulaginu voru raddir þeirra kæfðar og þaggaðar niður.

Það er alveg á hreinu að þessar aðgerðir íslenska ríkisins eru undan pólitískum og hugmyndafræðilegum rótum runnar: Að velja tiltekna einstaklinga út úr hópi þúsunda manna sem mótmæltu – og meira að segja velja tiltekna einstaklinga úr þeim hópi sem fór inn í þinghúsið. Það er einnig á hreinu að með þessum aðgerðum freistir ríkið þess að setja fordæmi, að bæla niður það mögulega framtíðar andóf sem gæti raskað ró hins óbreytta ástands. Kúgunaraðferðir íslenska ríkisins teygja sig meira að segja til ræðismannaskrifstofunnar, sem kallaði á aðstoð ofbeldisfyllstu lögregludeildar Barcelona – „Mossos“ eins og hún er kölluð.

Fjöldi „Mossos“ lögreglumanna voru í inngangi byggingarinnar auk þess sem nokkrir óeirðarbílar biðu í nálægri götu. Í byggingunni sem hýsir íslensku ræðismannaskrifstofuna er fjöldi annarra skrifstofa og venjulega er þar aðeins einn vörður. Íslenska skrifstofan er á áttundu hæð og þegar við komum að húsinu var okkur sagt að við fengjum ekki að fara inn í bygginguna sem hópur, heldur gæti eitt okkar komið inn og rætt við einstakling sem hefur ekkert með íslenska ríkið að gera, heldur tengist einungis byggingunni. Á meðan mótmælunum stóð gekk hins vegar fjöldi fólks inn og út úr byggingunni. Að lokum sagði lögreglan okkur að íslenska skrifstofan væri lokuð og að aðili sem hefði með bygginguna að gera gæti komið niður, hlustað á kröfur okkar og skilað þeim til ræðismannsins. Tveir úr hópi mótmælenda hringdu þá á skrifstofuna þar sem símanum var svarað og þeim sagt að skrifstofan væri opin. Það breytti engu varðandi hegðun lögreglunnar sem hélt stöðu sinni og sagði skrifstofuna lokaða.

Við tókum því stöðu á götunni, stóðum þar í meira en klukkustund með borða sem á stóð á katalónsku: „Stöðvið kúgunina á íslenskum aktívistum!“ Og: „Ef nímenningarnir verða felldir, fellur íslenska ríkið líka!“ Við dreifðum dreifimiðum um kúgunina og um ástandið á Íslandi veturinn 2008–2009, bjuggum til hávaða og kölluðum slagorð til stuðnings nímenningunum – og auðvitað gegn hinu kapítalíska kerfi.

Aðferðirnar sem notaðar voru til að loka aðganginum að byggingunni sem dags daglega er opin hverjum sem er – alveg eins og í Alþingishúsinu, 8. desember 2008 – sýna enn einu sinni hvernig íslenska ríkið mun beita hvaða aðferðum sem er við að viðhalda núverandi ástandi og draga úr öllum þeim borgararéttindum sem enn eru til staðar undir yfirvaldi ríkisins.

En mógúlar íslenska ríkisins átta sig ekki á því að kúgunaraðferðir þeirra slökkva ekki í baráttunni, heldur einungis styrkja hana. Og þeir átta sig heldur ekki á því að nímenningarnir eru ekki einir í baráttu sinni. Ykkar barátta er okkar barátta! Enga pólitíska fanga!

Frá Barcelona lýsum við yfir fullum stuðningi með nímenningunum!

Náttúruvaktin