ágú 12 2010

Orkuútrásin og einkavæðing HS Orku

Varla hefur farið fram hjá mörgum að Magma Energy keypti hlut Geysis Green Energy í HS Orku á dögunum og er nú meirihlutaeigandi fyrirtækisins, með 98% eignaraðild. Þessi kaup Magma á hlut GGE koma ekki á óvart, þar sem ljóst var frá upphafi að fyrirtækið hefði hug á að gerast meirihlutaeigandi HS Orku.

Lítið og sætt – fyrir áhyggjufulla Íslendinga

Ross Beaty, framkvæmdarstjóri Magma Energy, hefur margoft verið spurður að því hvort hann sé að nýta sér bága fjárhagsstöðu Íslands til þess að ná stjórn yfir auðlindum landsins. Því hefur hann ávallt neitað. Aðspurður í Kastljósi 26. ágúst sl. neitaði hann því einnig að hafa áhuga á fleiri orkuverum. „Nei. Við einbeitum okkur að þessu nú. Þetta er fámenn þjóð og það hentar okkur ekki að verða mjög stórir“.

Vegna þessara ummæla vakti það mikla athygli þegar tilkynnt var um að HS Orka hefði sótt um rannsóknarleyfi á Hrunamannaafrétti, frá Flúðum og inn í Kerlingarfjöll. Ásgeir Margeirsson, forstjóri Magma á Íslandi, sagði í viðtölum við RÚV að Magma hafi ekki sótt um virkjanaleyfi í Kerlingarfjöllum eða þar í nágrenninu. Hafa ber í huga að rannsóknarleyfi og virkjanaleyfi er ekki eitt og hið sama en ein rannsóknarborhola getur valdið töluverðu raski á ósnortnum svæðum.? Aðeins örfáum dögum síðar var sagt frá því í fréttum RÚV að Suðurorka, í eigu HS orku og Íslenskrar orkuvirkjunar, hafi uppi áform um að reisa Búlandsvirkjun, 150 MW virkjun í Skaftárhreppi á næstu fjórum árum. HS Orka virðist því vera að færa ört út kvíarnar.

Stærst og best – fyrir hluthafana

Ross Beaty segist í viðtali við Kastljósið (26. ágúst 2009) vilja stofna besta og stærsta fyrirtæki heimsins á sviði jarðvarmaorku. Það segist hann áður hafa gert með annað fyrirtæki, Pan American Silver, sem hann byggði upp og var orðið stærsta silfurfyrirtæki heimsins árið 2007. Í sama viðtali segist hann vera eindreginn umhverfisverndarsinni. Í auglýsingu frá Magma Energy kemur fram að „Magma ætlar að beita sér fyrir aukinni orkuöflun HS Orku á Reykjanesi og stuðla þar með að atvinnuuppbyggingu og betra mannlífi á Suðurnesjum“.

Það er athyglisvert að eindreginn umhverfisverndarsinni hafi nær hálfa ævina starfrækt námufyrirtæki, þar sem slík starfsemi getur seint flokkast sem „sjálfbær“ eða umhverfisvæn. Það verður líka athyglisvert að fylgjast með því hvort Magma leggi meira upp úr því að skapa „betra mannlíf“ en fyrra fyrirtæki framkvæmdarstjórans, Pan American Silver, sem starfar í fjórum löndum í Mið- og Suður Ameríku, þar á meðal Perú. Í Perú eru verkföll og mótmæli hjá starfsfólki í silfurnámu fyrirtækisins algeng enda skiljanlegt því fyrirtækið státar sig af látlausum hagnaði á hverjum ársfjórðungi. Yfirvöld eru ekki gjörn á að krefja fyrirtæki á borð við Pan American Silver um að sýna ábyrgð gagnvart starfsfólki sínu af ótta við að hrekja þau burt.

Útvarpsstöðin RPP (Radio Público de Perú) hefur lýst aðstæðum í námunum og kom fram að dauðsföll eru tíð, vinnubúðir óupphitaðar og skolpræsakerfi ekki til staðar sem olli því að árnar í kring eru nú mengaðar. Afkomendum frumbyggja í Andesfjöllunum hefur verið lofað gulli og grænum skógum fyrir vinnu í námunum en þegar til kemur reka verkamennirnir sig á að þau loforð eru orðin tóm. Þeim sem reyna að sækja rétt sinn í gegnum verkalýðsfélögin er iðulega sagt upp störfum. Árið 2009 höfðu yfir 4500 manns misst störf sín vegna tengsla sinna við CGPT, stærsta verkalýðsfélag landsins, en Mario Huamán, formaður þess, sagði í viðtali fyrir stuttu: „Það skiptir engu máli hversu oft við lögsækjum. Það er eins og fyrirtækin hafi algjöra friðhelgi.“

Sterkur“ fjárfestir – fjármagnaður með opinberu fé

Rökin á bak við nauðsyn þess að koma HS Orku í eigu Magma eru þau að aðkoma sterks erlends fjárfestis sé nauðsynleg. Hins vegar virðist sem fyrirtækið sé ekki sérlega sterkt fjárhagslega. Fram hefur komið að stór hluti fjármögnunar fyrirtækisins sé fenginn með lánum frá innlendum aðilum; Orkuveita Reykjavíkur lánaði Magma fyrir hluta kaupvirðis þess hlutar sem Magma keypti af OR sl. haust. Afgangurinn var fjármagnaður með svokölluðum aflandskrónum, þ.e krónum sem keyptar eru erlendis á lægra gengi en hinu opinbera. Slík viðskipti hækka því ekki gengi íslensku krónunnar en hækkun á gengi er ein stærstu rökin fyrir aðkomu erlendra fjárfesta.

Að þessu sinni er stór hluti kaupvirðisins greiddur með yfirtöku á láni Reykjanesbæjar til fyrirtækisins. Í frétt á eyjunni kom fram að Magma hefði tilkynnt að fyrirtækið hygðist leita til íslenskra lífeyrissjóða til að fjármagna frekari rannsóknir og uppbyggingu á HS Orku. Það er ekki óeðlilegt að Magma þurfi að taka lán til þess að greiða fyrir kaupin á HS Orku, en ef það stendur eins vel fjárhagslega, og er eins sterkt eins og forsvarsmenn halda fram, hvers vegna tekur það ekki lán hjá erlendum aðilum í stað þess að taka lán hjá þeim sem eru að selja þeim hlutinn?

Samtök atvinnulífsins fagna ákvörðun um kaup Magma Energy á meirihluta HS Orku og tiltaka samtökin sérstaklega að eigendaskiptin muni gefa HS Orku tækifæri til að halda áfram uppbyggingu Reykjanesvirkjunar. Þó íslensk orkufyrirtæki standi ekki vel fjárhagslega, þá er það þó öðru fremur skortur á virkjanaleyfi sem tefur „uppbyggingu“ (þ.e stækkun) Reykjanesvirkjunar. Ástæða þess að tafir hafa orðið á veitingu þessa virkjanaleyfis er sú staðreynd að orka á Reykjanesi er nú þegar ofnýtt, að mati Orkustofnunar. Nánari umfjöllun um það má sjá í 3. tbl Rósta (á www.rostur.org).

Útrásin hafin á ný: Þekkingarútflutningur Íslandsbanka og þáttur bankans í sölu Magma

Kaup Magma Energy á HS Orku má rekja til hinnar íslensku orkuútrásar Íslandsbanka, áður Glitnis, og áforma Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða í orkugeiranum. Þreifingar í þessa átt hófust á árunum 2006-2007 en afrakstur þeirra lítur dagsins ljós í dag.

Forsögu málsins má rekja til þess að í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst einkavæðingarferli HS Orku. Þetta var á hápunkti góðærisins eftir því sem almenningur vissi best, en bankarnir voru þegar farnir að riða til falls. Í byrjun árs 2007 seldi ríkið þennan hlut sinn í fyrirtækinu til Geysis Green Energy, sem var þá í eigu FL Group, en forstjóri þess var Ásgeir Margeirsson. Hann er nú forstjóri Magma Energy Iceland, dótturfyrirtækis Magma Energy.

Víkur þá sögunni aftur að Glitni. Þann 2.febrúar 2007 tilkynnti bankinn að hann hygðist stofna skrifstofu í New York en henni væri „ætlað að efla starfsemi bankans í Norður-Ameríku, einkum á þeim sviðum þar sem bankinn hefur sérhæft sig, á sviði endurnýtanlegrar orku, einkum jarðvarma og í matvælaiðnaðnum, einkum sjávarútvegi.“ Sú skrifstofa endaði í höndum Magnúsar Bjarnasonar og samstarfsmanna hans og stofnuðu þeir ráðgjafafyrirtækið Glacier Partners upp úr þeirri skrifstofu. Það fyrirtæki, ásamt Capacent Glacier, sem einnig er í eigu Magnúsar, voru ráðgjafar Magma Energy við kaupin á HS Orku.

Nú hefur Íslandsbanki dustað rykið af orkuútrás bankans en bankinn tilkynnti það hinn 2. maí sl. Samkvæmt fréttum Stöðvar 2 þann dag ætlar Íslandsbanki að opna skrifstofu í New York til að bjóða upp á „fjármálaráðgjöf við fjárfesta í sjávarútvegi og jarðvarmaorku.“ Aðspurð í fréttum Stöðvar 2 hvort Íslandsbanki væri að fara í þekkingarútrás svaraði Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka; „eh, já… , ég myndi kalla það að við værum að fara í þekkingarútflutning“.

Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að „Íslandsbanki hefur einbeitt sér að þjónustu við fyrirtæki sem starfa í sjávarútvegi og í tengslum við jarðhita. Nú hyggst bankinn einbeita sér í ríkari mæli á alþjóðavettvangi og veita erlendum aðilum sem vilja fjárfesta í þessum geirum fjármálaráðgjöf.“ Áætlunin hljómar skuggalega lík þeirri sem var uppi á teningnum hinn 2. febrúar 2007 þegar lagt var af stað með þá þekkingarútrás sem endaði í kaupum kanadísks fyrirtækis á þriðja stærsta orkufyrirtæki Íslands.

Þessi grein birtist upprunalega í júníhefti hins mánaðarlega fréttaskýringarits Róstur.

Náttúruvaktin